sunnudagur, nóvember 24, 2013

Blessað barnalánið

Fljótandi auðlegð er hlutskipti mitt. Ríkidæmi mitt er ekki mælt með venjulegum reikniaðferðum debet og kredit heldur í mannauði sem setur allt önnur gildi á mælistikuna.
Ættleggurinn okkar Erlu hefur tífaldast. Við byrjuðum tvö á þessari vegferð og erum nú tuttugu. Átján frábærir einstaklingar sem skreyta tilveruna okkar með því einu að vera til.
Lífið sjálft er undarlegt ferðalag með endalausum uppákomum og atvikum sem skilja eftir minningar. Þær geta verið góðar og slæmar og allt þar á milli. Þær eiga það þó sameiginlegt að það er hægt að renna yfir þær aftur og aftur og góðu minningarnar er hægt að skemmta sér við ævina á enda.
Góðar æskuminningar eru sennilega sá hluti sem flestir orna sér við þegar árin telja og fólk fer að líta um öxl og skoða farinn veg.
Ef ég lít í eigin barm sé ég alltaf betur og betur hversu miklu skiptir að skapa minningar með börnunum meðan þau eru enn börn því þau eru það ekki lengi. Tíminn getur auðveldlega flogið frá okkur þangað til einn góðan veðurdag við vöknum upp við það að börnin eru orðin fullorðin.

Mér datt þessar vangaveltur í hug vegna þess að hér var barnablessun í gær og mér, afanum, var treyst til að blessa barnið. Það er mér mikill heiður að fá að sjá um þessa prestlegu athöfn þó ég geri mér grein fyrir að til séu aðilar sem framkvæma það með fagmannlegri hætti en ég. Mestu skiptir þó að það er verið að biðja Guð um blessun en ekki að ég blessi sjálfur, sú blessun næði stutt.
Það að fá að taka þátt með þessum hætti gefur mér enn skýrari mynd á þá auðlegð sem felst í barnaláni okkar Erlu. Við erum þáttakendur en ekki bara áhorfendur, það er gjöf lífsins til okkar sem verður ekki metin til fjár, okkar stærsti fjársjóður.

Næsta helgi verður helguð barnabörnunum, það er afa og ömmu helgi "barnabarnahelgarsleepover" eins og við köllum það. Það er búið að panta að baka með ömmu og heimagerðar karamellur hjá afa, partýkvöld og pizzur. Já er ekki tilveran skemmtilegt ferðalag.

Engin ummæli: