Það hefur ekki verið neitt sérlega fallegt veðrið undanfarið. Nú er undantekning á því. Logn, og skýin ekki svört heldur ljósgrá.....! Ég var í sveitinni í gær að moka fyrir undirstöðum að kofanum okkar. Ég hef sjaldan lent í annarri eins rigningu. Það var eins og ég væri miklu sunnar á hnettinum þvílíkt var úrhellið. Ég þurfti auðvitað að velja þennan blautasta dag ársins (geri ég ráð fyrir) til að standa úti og grafa holur...!
En næst er að steypa í þessar holur og fara svo að reisa mannvirkið.
Þetta verður 15 fermetra fjallakofi úr bjálkum. Það finnst mörgum lítið, en ef maður spáir í því t.d. hversu stór stærstu fellihýsi eru, þá er þetta mun stærra en það.
Allavega erum við alsæl með þetta og ætlum að njóta þessara fermetra vel.
Hér í húsinu við ána hefur verið gestkvæmt þessar vikur síðan við fluttum. Það litar tilveruna á skemmtilegan hátt. Við höfum alltaf viljað hafa fólk í kringum okkur, því eins og máltækið segir, og er svo rétt, þá er maður manns gaman.
Baddi og Kiddý voru að fara frá okkur. Þau hafa lengi verið vinir okkar og nú matarklúbbsfélagar líka, ásamt Heiðari og Sigrúnu sem voru hér í gærkvöldi. Ekki amalegt að hafa frú Kiddý kokk í slíkum klúbb.
Við erum enn jafn alsæl með húsið okkar við ána. Hvert rýmið á fætur öðru tekur á sig endanlega mynd eftir því sem tíminn líður. Ég mála og smíða en Perlan mín sér um restina, að gera húsið að heimili. Hún hefur einstakt lag á að gera notalegt í kringum okkur. Það eru mín forréttindi að eiga hana og deila með henni stað sem þessum. Svo eru nágrannarnir hér einstaklega elskulegir og áin heillar okkur með kynngimagnaðri nærveru sinni.
Ég hef nú náð markmiðinu með kílóin. Ég ákvað í janúar að taka af mér 15 kíló sem nú eru farin og eitt til viðbótar, þökk sé danska. Ég hef reyndar ekki verið heittrúaður í kúrnum heldur haft hann til hliðsjónar. Ég held að grænmetisát sé lykillinn að því að nálgast rétta þyngd, á við um alla, konur og kalla.
Við erum í fríi í dag og erum bara að njóta tilverunnar hér, í léttum vangadansi við lífið.
Ljúft og notalegt.
3 ummæli:
Gaman ad lesa thetta, hlakka til ad koma aftur i heimsokn i husid vid ana og sja allt sem buid er ad gera.
kv. Iris
Ja og innilega til hamingju med frabaeran arangur ad vera buinn ad na af ther ollum kilounum sem thu stefndir ad!!
kv. IRis
Pabbi, þú ert frábær og til hamingju með allan kílóamissinn:) Arna
Skrifa ummæli