sunnudagur, ágúst 06, 2006

Öðruvísi verslunarmannahelgi

Við hjónin höfum verið á faraldsfæti þessa helgina. Þó ekki þessum venjulega faraldsfæti okkar að þeysa um landið, heldur hefur rúnturinn verið milli Selfoss og Fitarinnar. Það tekur ekki nema rúman hálftíma að "skjótast" heim.
Ég náði að gera “kofann” íbúðarhæfan fyrir helgina eins og að var stefnt. Þar hefur Arna gist með dæturnar sínar.



Þess á milli hefur hann verið félagsmiðstöð fjölskyldunnar. Þetta er aldeilis virkilega notalegt að eiga svona athvarf sem ekki hristist í roki eða blotnar í gegn í rigningu. Þegar við fórum í gærkvöldi voru þær að koma sér fyrir og það verður að segjast að notalegt var að sjá þær lagstar út af og sumar sofnaðar.






Við hliðina á kofanum komu þau sér fyrir Íris og Karlott með afagullin mín. Þau búa svo vel að eiga fínan og notalegan tjaldvagn. Hrund tjaldaði undir gaflinum norðanmegin og Eygló og Bjössi við hliðina á henni. Þannig að öll fjölskyldan er þarna saman á lófastórum bletti. Gaman að því.

Í gærkvöldi var árleg grillveisla okkar stórfjölskyldunnar. Gerða bar veg og vanda af aðstöðunni, en þetta var á hennar lóð. Tveir sendibílar og plastdúkur strengdur á milli þeirra gerði gæfumuninn þegar litið er til þess að alltaf rignir um verslunarmannahelgi.

Auðvitað rigndi og dúkurinn kom í góðar þarfir, flestir sátu þurrir undir honum. Farið var í leiki, börn og fullorðnir saman, virkilega gaman að því.
Kvöldið endaði með varðeldi. Skógarhöggið mitt frá í vor var uppistaðan í eldmatnum. Það tókst þó ekki að brenna allt trjáfjallið, verður að bíða betri tíma að klára það.
Ég er ánægður með þessi grill okkar. Þetta er gott fyrir fjölskylduböndin og styrkir samband okkar hvert við annað.

Nú er hætt að rigna. Allavega hér á Selfossi. Þeir eru mættir hér á bakkann veiðimennirnir. Það er dagleg sjón hér að horfa á veiðimenn berja ána með flugum sínum. Sumir veiða, aðrir ekki, þannig er veiðin.

Erlan er komin niður núna. Hún er ekkert að flýta sér á fætur þessa morgna þegar hún þarf ekki að fara í vinnu. Enda bara gott að geta sofið. Hvar gæti það svo sem verið betra en hér í sveitasælunni að sofa út á fallegum morgni?

Ég ætla að lauma mér að borðinu hjá henni og skenkja henni kaffitári, hún á það svo margfalt inni.

CU

5 ummæli:

Íris sagði...

Takk fyrir samveruna um helgina! Þetta var svoo skemmtilegt! Og til hamingju með kofann, hann er æðislegur!
C u!

Nafnlaus sagði...

Takk svooo mikið fyrir afnotin af kofanum um helgina, þvilíkt æðislegt að láta stelpurnar fara að sofa á hlýjum stað. Þetta var alveg frábært og takk líka fyrir alla samveruna um helgina, grillið hjá Gerðu var æðislega skemmtilegt. Sjáumst hress, Arna

Nafnlaus sagði...

Já, ég er líka ánægð með þennan sið okkar, með fjölskyldugrillið.
Heyrðu, heitir litli kofinn þinn bara "kofinn"??
minn litli kofi heitir "Skógarkot" :)
Gerða sys
Ps góða ferð út og bið að heilsa ættingjunum sem eru úti.

Nafnlaus sagði...

Þú ert sannarlega lífskúnster af bestu sort. Njóttu dagsins kæri vin.

Kær kveðja,
Teddi.

Erling.... sagði...

Takk sömuleiðis fyrir góða samveru. "Kofinn" heitir Föðurland eins og landið sem hann stendur á. En þetta er svona hálfgerður fjallakofi, þess vegna höfum við kallað hann þessu gælunafni.