Það þýðir ekkert að vera að gretta sig yfir því, við höfum búið við þetta eins lengi og elstu menn muna og ekki má gleyma því að við þurfum á vatninu að halda.
Veðrið í sumar hefur verið einstaklega elskulegt og mannbætandi. Fólk er ekki eins brjálað að komast suður í sólina. Enda íslenska sólin best eins og allt annað íslenskt.
Nú tekur maður fram regnfötin og undirbýr sig fyrir vætuna framundan.
Verst þykir mér að ég ætlaði að reyna að skipta um þak á eldra húsi í Mosó. Það er allajafna vænlegra að gera slíka hluti í þurrki en miklum rigningum. Einhvernveginn hefur þetta samt alltaf gengið nokkurnveginn. Varla í fyrsta sinn sem skipt er um þak á Íslandi.
Við Erla eyddum helginni í kofanum okkar á Föðurlandi. Við höfum nú rafmagn svo hitinn er orðinn jafn og heimilislegur. Og sjálfrennandi vatn inn úr vegg eins og afi minn kallaði það forðum þegar hann leiddi vatnspípu úr læknum inn í hús.
Ísskáp fundum við auglýstan í staðarblaðinu. Tveggja ára Electrolux, nógu lítinn til að komast undir borð. Svo er tveggja hellna gaseldavél við hliðina á vaskinum. Fínasta græja sem við fengum skipt fyrir aðra tegund sem við höfðum keypt áður, en reyndist gölluð.
Erla hefur gert þessa fáu fermetra að sælureit sem erfitt getur verið að slíta sig frá. Ég hlakka til að eyða stundum þarna, ekki síst í skammdeginu þegar veturinn hamast kaldur á glugga en ylur og notalegheit hússins umlykur okkur innandyra. Það á vel við mig.
Um helgina gerði þvílíkar hellidembur að það líktist mest hitabeltisrigningu. Stórir dropar beint niður í svo miklu magni að túnið varð eins og sundlaug á augabragði. Það jók á notalegheitin að heyra rigningardropana berja á þakinu og sjá vatnið fossa fram af þakbrúninni.
Eins og ég sagði hefur Erla einstakt lag á að búa til notalegt umhverfi. Ég er löngu hættur að nöldra yfir "draslinu" sem hún ber inn og raðar út um alla veggi og gólf og glugga og loft og hillur og.... Þetta er hið kvenlega innsæi sem við karlhormónabunkarnir höfum ekki.
Við ákváðum strax í byrjun að reyna að koma öllu haganlega fyrir þar sem plássið væri ekki þannig að við færum mikið í feluleiki. Reynslan frá fellihýsaárunum hefur komið í góðar þarfir en í fellihýsi er mjög mörgu komið fyrir í litlu plássi.
Stefnan var líka að gera þetta ódýrt. Við vorum að taka saman kostnaðinn við innréttingu hússins. Með ÖLLU...... 80 þúsund kall ríflega. Barnaland er snilld.
Hún er heimilisleg hér fyrir ofan í notalegu umhverfi frúin á bænum.
Þetta er ekkert minna en gargandi snilld.