mánudagur, júlí 30, 2007

Rigning á Föðurlandi

Farið að rigna enda komið undir verslunarmannahelgi. Það er árvisst að þá helgi rignir oftast meira en nokkur kærir sig um. Siggi Stormur sagði í blaðinu í gær að von væri á breytingum í veðrinu, lægðirnar færu að fara sinn vanagang, sumsé yfir Ísland.
Það þýðir ekkert að vera að gretta sig yfir því, við höfum búið við þetta eins lengi og elstu menn muna og ekki má gleyma því að við þurfum á vatninu að halda.

Veðrið í sumar hefur verið einstaklega elskulegt og mannbætandi. Fólk er ekki eins brjálað að komast suður í sólina. Enda íslenska sólin best eins og allt annað íslenskt.
Nú tekur maður fram regnfötin og undirbýr sig fyrir vætuna framundan.
Verst þykir mér að ég ætlaði að reyna að skipta um þak á eldra húsi í Mosó. Það er allajafna vænlegra að gera slíka hluti í þurrki en miklum rigningum. Einhvernveginn hefur þetta samt alltaf gengið nokkurnveginn. Varla í fyrsta sinn sem skipt er um þak á Íslandi.

Við Erla eyddum helginni í kofanum okkar á Föðurlandi. Við höfum nú rafmagn svo hitinn er orðinn jafn og heimilislegur. Og sjálfrennandi vatn inn úr vegg eins og afi minn kallaði það forðum þegar hann leiddi vatnspípu úr læknum inn í hús.
Ísskáp fundum við auglýstan í staðarblaðinu. Tveggja ára Electrolux, nógu lítinn til að komast undir borð. Svo er tveggja hellna gaseldavél við hliðina á vaskinum. Fínasta græja sem við fengum skipt fyrir aðra tegund sem við höfðum keypt áður, en reyndist gölluð.

Erla hefur gert þessa fáu fermetra að sælureit sem erfitt getur verið að slíta sig frá. Ég hlakka til að eyða stundum þarna, ekki síst í skammdeginu þegar veturinn hamast kaldur á glugga en ylur og notalegheit hússins umlykur okkur innandyra. Það á vel við mig.
Um helgina gerði þvílíkar hellidembur að það líktist mest hitabeltisrigningu. Stórir dropar beint niður í svo miklu magni að túnið varð eins og sundlaug á augabragði. Það jók á notalegheitin að heyra rigningardropana berja á þakinu og sjá vatnið fossa fram af þakbrúninni.

Eins og ég sagði hefur Erla einstakt lag á að búa til notalegt umhverfi. Ég er löngu hættur að nöldra yfir "draslinu" sem hún ber inn og raðar út um alla veggi og gólf og glugga og loft og hillur og.... Þetta er hið kvenlega innsæi sem við karlhormónabunkarnir höfum ekki.
Við ákváðum strax í byrjun að reyna að koma öllu haganlega fyrir þar sem plássið væri ekki þannig að við færum mikið í feluleiki. Reynslan frá fellihýsaárunum hefur komið í góðar þarfir en í fellihýsi er mjög mörgu komið fyrir í litlu plássi.
Stefnan var líka að gera þetta ódýrt. Við vorum að taka saman kostnaðinn við innréttingu hússins. Með ÖLLU...... 80 þúsund kall ríflega. Barnaland er snilld.
Hún er heimilisleg hér fyrir ofan í notalegu umhverfi frúin á bænum.
Þetta er ekkert minna en gargandi snilld.

föstudagur, júlí 20, 2007

Sveitarómantíkin....

....blómstrar hjá okkur hér austan fjalls, sem fyrri daginn. Lítið lát hefur verið á góðviðri hér eins og annars staðar á Íslandi. Maður er farinn að reikna með sól hvern dag sem maður vaknar. Rigningin er samt góð. Maður er meira að segja farinn að skilja vanda þeirra sem búa við viðvarandi þurrka. Gróðurinn hlýtur að fagna þessari vætu því hann er víða farinn að skrælna. Ég vona að þetta verði nægjanleg rigning til að vökva almennilega.

Gestahjónin okkar á Föðurlandi hafa nú brugðið búi sínu og eru farin með ungana sína á vit lífsins.Við Erla ætlum að athuga hvort við sjáum fjölskyldurnar eitthvað, en við ætlum að dvelja í faðmi Föðurlandsins okkar um helgina. Ég er hræddur um að hættur leynist bak við hverja þúfu hjá þessum litlu krílum. Einhvernvegin reiðir þeim af svo mikið er víst. Við getum bara vonað að auðna fylgi þeim. Það er gaman að fá svona gesti á landið okkar, einhvernveginn svo vinalegt.

Vikan hefur verið ásetin svo það verður gott að hvíla sig yfir helgina. Pólverjarnir “mínir” vinna á morgun, reyndar vinna þeir alla laugardaga enda hér fyrst og fremst til að vinna. Þeir vinna hinsvegar aldrei á sunnudögum enda kaþólskir og kaþólsk trú gerir ráð fyrir að halda hvíldardaginn heilagan.
Þrír þeirra eru nú í Póllandi í sumarfríi. Þeir eiga gott frí skilið eftir mikla vinnutörn. Góðir vinnumenn og karakterar sem margir mættu taka til fyrirmyndar. Stundvísir og áreiðanlegir í vinnu.
Ég er samt ekki mannalaus því ég er búinn að ráða nokkra í viðbót sem ekki eru í fríi.
Lexor er nú rúmlega hálfsárs og aðeins farið að mótast í það far sem því var ætlað. Ég er ánægður með ferlið eins og það er, mér finnst ég vera að hnoða leirinn.

Að allt öðru. Ég sá fallega grafskrift hjóna núna í vikunni. Segir meira en mörg orð um hjónin.

Háa skilur hnetti himingeimur,
blað skilur bakka og egg
En anda, sem unnast
fær aldregi eilífð að skilið.
JH.

Kannski þetta sé svona. Hver veit það svo sem.

Hlakka til morgundagsins.

miðvikudagur, júlí 11, 2007

Krúsað um sveitirnar

Ég verð að segja að langþráður draumur hafi ræst þegar við Erla brunuðum austur í sveitir um helgina á mótorhjóli íklædd leðurgöllum frá toppi til táar. Bráðum gift í þrjátíu ár og látum eins og nýgiftir krakkar. Við eyddum helginni á Fitinni ásamt mánudegi og þriðjudegi. Veðrið var lyginni líkast. Sól og hiti allt að tuttugu og þremur gráðum í skugga..
Það var mjög gaman að krúsa í Fljótshlíðina.

Síðan skruppum við austur á Skóga. Þar var veðrið jafn hlýtt. Við renndum framhjá innganginum í sundlaugina þar sem ég lærði að synda forðum. Sama gamla hurðin og allt eins nema búið er að malbika planið, drullupollarnir horfnir. Gaman að rifja upp horfin sporin manns. Mér fannst ég geta séð krakkana eins og þeir létu í gamla daga. Ærslin og gamanið. Minningin segir að það hafi alltaf verið svona gott veður eins og reyndin var um helgina. Mér segir svo hugur að það hafi nú samt ekki alltaf verið þannig.

Við keyptum okkur snarl á Skógum og héldum svo heim á leið í blíðunni. Það var stoppað nokkuð oft og skoðað sem fyrir augu bar. Fossar og falleg iðjagræn tún.


Kýr í haga, afskaplega kyrrlátar og sumarlegar með Eyjafjöllin í baksýn. Þær létu okkur ekki raska ró sinni og jórtruðu tugguna sína eins og ekkert hefði í skorist.

Það er óhætt að segja að þessi ferðamáti er afskaplega ólíkur því sem við eigum að venjast. Það er mikil frelsistilfinning að finna vindinn leika um sig um leið og þeyst er yfir landið á kraftmiklum mótorfák. Öll lykt af landinu kemur einhvernveginn beint í æð. Við renndum framhjá bændum sem voru að taka saman hey, ilmurinn fyllti vitin. Græn og angandi taða sem kallaði fram ljúfar minningar horfins tíma úr sveitinni. Skrítið hvað lykt getur kallað fram margar minningar. Sérstaklega heylykt. Hefur líklega að gera með umhverfið sem ég ólst upp í. Fiskilykt kallar ekki fram neinar minningar til dæmis.

Hitinn á Fitinni var slíkur að við komum eins og steiktir tómatar heim. Sólin er ekkert mildari hér á Fróni en annarsstaðar. Þetta var góður tími sem ég var ekkert endilega til í að kláraðist svona snemma. En það kemur dagur eftir þennan dag. Lífið snýst ekki bara um að hafa það gott. Saltfiskurinn verður að vera á sínum stað, annars þýðir víst lítið að hugsa um frí. Þó ekki séu heyannir hjá mér lengur, er samt annatími.


Sumarið hefur verið gott og gjöfult. Þá ekki bara af veraldlegum gæðum, jafn góð og þau eru, heldur af vináttu og samfélagi við þá sem ég elska. Garðurinn minn er í blóma. Það er auðlegð sem skiptir máli.


Þó ég sé ekki endilega ánægður með alla er ég samt ánægður með ykkur flest, þannig er bara flóran og ég er virkilega ánægður með lífið eins og það er.

þriðjudagur, júlí 10, 2007

Það er mikill...

...annatími á vegunum núna, kannski ekki úr vegi að minna á orð formanns umferðarráðs frá því í júlí í fyrra: ”Það er betra að halda lífi en áætlun.”
Höfum það hugfast og flýtum okkur hægt.

laugardagur, júlí 07, 2007

Borgarfjörðurinn fallegur

Skrapp í vinnuferð í Húsafell til að setja niður heitan pott og klæða utan um hann timbur.
Það gekk hratt og vel fyrir sig. Mývargur reyndi að gera mér lífið leitt en tókst ekki því ég beitti krók móti bragði og setti á mig net.
Ég kom við hjá skólabróður mínum sem á sumarbústað í Vatnaskógi. Hann vantar að láta smíða verönd kringum bústaðinn sinn og biðlaði til mín með mannskap í það. Það verður að koma í ljós hvort ég anni því.

Mikið annríki einkennir dagana núna. Ég ætlaði að vera í fríi að mestu leiti þessa vikuna enda Erlan mín í fríi. Það hefur ekki tekist alveg eins og ég hefði kosið en ég sé fram á bjartari tíð næstu daga.

Ég ætla að skreppa í bæinn á eftir með Erluna og finna á hana galla svo við getum krúsað saman á hjólinu austur í sveitir.
Föðurlandið freistar. Freistingar eru víst gerðar til að falla fyrir þeim, svo við verðum á Föðurlandi um helgina. Þar er auðvelt að eiga góðar stundir. Kvöldin fara einstaklega vel með okkur. Oftast dettur á logn þegar sólin sígur niður og fuglarnir halda uppi fjörinu með ákaflega fallegum tónum. Þá er gaman að sitja á veröndinni með ost og rauðvín eða fara í göngutúr og njóta þess að vera hluti þessarar tilveru.
Tvenn hjón hafa tekið sér búsetu hjá okkur á Föðurlandinu. Hvorttveggja Þúfutittlingspör. Það eru komnir ungar hjá báðum fjölskyldunum. Vonandi tekst þeim að koma þeim á legg.

Kominn tími á kaffibollann með konunni fyrst hún er komin niður svona “snemma”.

Njótið daganna því þeir eru góðir....!