miðvikudagur, júlí 11, 2007

Krúsað um sveitirnar

Ég verð að segja að langþráður draumur hafi ræst þegar við Erla brunuðum austur í sveitir um helgina á mótorhjóli íklædd leðurgöllum frá toppi til táar. Bráðum gift í þrjátíu ár og látum eins og nýgiftir krakkar. Við eyddum helginni á Fitinni ásamt mánudegi og þriðjudegi. Veðrið var lyginni líkast. Sól og hiti allt að tuttugu og þremur gráðum í skugga..
Það var mjög gaman að krúsa í Fljótshlíðina.

Síðan skruppum við austur á Skóga. Þar var veðrið jafn hlýtt. Við renndum framhjá innganginum í sundlaugina þar sem ég lærði að synda forðum. Sama gamla hurðin og allt eins nema búið er að malbika planið, drullupollarnir horfnir. Gaman að rifja upp horfin sporin manns. Mér fannst ég geta séð krakkana eins og þeir létu í gamla daga. Ærslin og gamanið. Minningin segir að það hafi alltaf verið svona gott veður eins og reyndin var um helgina. Mér segir svo hugur að það hafi nú samt ekki alltaf verið þannig.

Við keyptum okkur snarl á Skógum og héldum svo heim á leið í blíðunni. Það var stoppað nokkuð oft og skoðað sem fyrir augu bar. Fossar og falleg iðjagræn tún.


Kýr í haga, afskaplega kyrrlátar og sumarlegar með Eyjafjöllin í baksýn. Þær létu okkur ekki raska ró sinni og jórtruðu tugguna sína eins og ekkert hefði í skorist.

Það er óhætt að segja að þessi ferðamáti er afskaplega ólíkur því sem við eigum að venjast. Það er mikil frelsistilfinning að finna vindinn leika um sig um leið og þeyst er yfir landið á kraftmiklum mótorfák. Öll lykt af landinu kemur einhvernveginn beint í æð. Við renndum framhjá bændum sem voru að taka saman hey, ilmurinn fyllti vitin. Græn og angandi taða sem kallaði fram ljúfar minningar horfins tíma úr sveitinni. Skrítið hvað lykt getur kallað fram margar minningar. Sérstaklega heylykt. Hefur líklega að gera með umhverfið sem ég ólst upp í. Fiskilykt kallar ekki fram neinar minningar til dæmis.

Hitinn á Fitinni var slíkur að við komum eins og steiktir tómatar heim. Sólin er ekkert mildari hér á Fróni en annarsstaðar. Þetta var góður tími sem ég var ekkert endilega til í að kláraðist svona snemma. En það kemur dagur eftir þennan dag. Lífið snýst ekki bara um að hafa það gott. Saltfiskurinn verður að vera á sínum stað, annars þýðir víst lítið að hugsa um frí. Þó ekki séu heyannir hjá mér lengur, er samt annatími.


Sumarið hefur verið gott og gjöfult. Þá ekki bara af veraldlegum gæðum, jafn góð og þau eru, heldur af vináttu og samfélagi við þá sem ég elska. Garðurinn minn er í blóma. Það er auðlegð sem skiptir máli.


Þó ég sé ekki endilega ánægður með alla er ég samt ánægður með ykkur flest, þannig er bara flóran og ég er virkilega ánægður með lífið eins og það er.

1 ummæli:

Eygló sagði...

Mér finnst þetta svoooo gott hjá ykkur mömmu að gera þetta :) Eflaust allt öðruvísi að ferðast um á svona hjóli heldur en í bíl, maður fær örugglega náttúruna og landslagið beint í æð :) Hlakka til að hitta ykkur næst, Uppáhalds Eyglóin þín