Skrapp í vinnuferð í Húsafell til að setja niður heitan pott og klæða utan um hann timbur.
Það gekk hratt og vel fyrir sig. Mývargur reyndi að gera mér lífið leitt en tókst ekki því ég beitti krók móti bragði og setti á mig net.
Ég kom við hjá skólabróður mínum sem á sumarbústað í Vatnaskógi. Hann vantar að láta smíða verönd kringum bústaðinn sinn og biðlaði til mín með mannskap í það. Það verður að koma í ljós hvort ég anni því.
Mikið annríki einkennir dagana núna. Ég ætlaði að vera í fríi að mestu leiti þessa vikuna enda Erlan mín í fríi. Það hefur ekki tekist alveg eins og ég hefði kosið en ég sé fram á bjartari tíð næstu daga.
Ég ætla að skreppa í bæinn á eftir með Erluna og finna á hana galla svo við getum krúsað saman á hjólinu austur í sveitir.
Föðurlandið freistar. Freistingar eru víst gerðar til að falla fyrir þeim, svo við verðum á Föðurlandi um helgina. Þar er auðvelt að eiga góðar stundir. Kvöldin fara einstaklega vel með okkur. Oftast dettur á logn þegar sólin sígur niður og fuglarnir halda uppi fjörinu með ákaflega fallegum tónum. Þá er gaman að sitja á veröndinni með ost og rauðvín eða fara í göngutúr og njóta þess að vera hluti þessarar tilveru.
Tvenn hjón hafa tekið sér búsetu hjá okkur á Föðurlandinu. Hvorttveggja Þúfutittlingspör. Það eru komnir ungar hjá báðum fjölskyldunum. Vonandi tekst þeim að koma þeim á legg.
Kominn tími á kaffibollann með konunni fyrst hún er komin niður svona “snemma”.
Njótið daganna því þeir eru góðir....!
1 ummæli:
Gott hjá þér að fara með mömmu og kaupa á hana galla!! Ekkert smá skemmtilegt að sitja aftan á hjólinu í svona útsýnistúr :) Gaman líka hvað þið eruð dugleg að njóta lífsins!! Hlakka til að hitta ykkur næst, vonandi á eftir :) Þín uppáhalds Eygló dóttir
Skrifa ummæli