Það var kalt en stillt. Hitinn var undir frostmarki.....utandyra. Rafmagnið blessað sá okkur fyrir yl innandyra. Við áttum tvo notalega daga þarna í kofanum okkar. Fórum á fimmtudaginn og komum í gær, laugardag.
Við héldum okkur mest innandyra, við lestur og spjall. Eins og ég hef sagt ykkur hefur frúin mín gert þennan litla reit að sælureit með kvenlegu innsæi sínu. Það fór því vel um okkur. Það tilheyrir að elda góðan mat í kofanum og það létum við eftir okkur. Pönnusteikt ærfille að hætti húsbóndans, með tilheyrandi tilbrigðum, kitlaði bragðlaukana á föstudagskvöldið.
Við skruppum tvisvar í Kotið að heimsækja heimamenn. Hansi og Auja buðu okkur að kíkja í kaffi og svo litum við líka til Gylfa og Christinu. Alltaf gaman að hitta sveitafólkið, enda maður manns gaman eins og sagt er.
Ég fór ekkert í veiði.... ekki einu sinni að “bregða” öndum. Þess í stað fór ég aðeins um og skaut nokkrum myndum. Af nógu er að taka enda Fljótshlíðin falleg eins og Gunnar sagði forðum. Setti tvær myndir inná Flickr síðuna áðan. Ég hef gaman að þessu nýja áhugamáli.
Eitthvað angur var samt að trufla mig í gærmorgun. Líklega kominn með streptokokka í hálsinn sem er óþverrapest. Pensilínið, þessi guðsgjöf, virkar vel á þessar agnarómyndir.
Annars er lífið, eins og við vitum, bara gott og um að gera að njóta þess.
1 ummæli:
Gott þið höfðuð það notalegt í kofanum. Vona samt að þér sé að batna af þessum óþverra!
Hlakka til að hitta þig næst!
Þín Íris
Skrifa ummæli