....okkar systkinanna var í gærkvöldi. Að þessu sinni var það haldið hjá Benna og Unu. Þetta var í 31. skiptið sem við hittumst í þessum tilgangi. Kvöldið var ljúft og maturinn góður. Íslenskur, súrsaður og annar gamaldags matur er hafður í hávegum. Hákarlinn var óvenju góður og sama má segja um súra hvalinn. Hvalurinn var frá Hagkaupum en svo vel verkaður að ég ætla að reyna að verða mér úti um stykki, bara svona til að narta í hér heima. Hann líktist súra hvalnum hennar mömmu. Ég man eftir súrum hval á borðum heima í sveitinni. Það voru alvöru stykki, margra kílóa hlunkar. Ekki held ég samt að bragðlaukarnir hafi verið mér eins sammála með bragðið þá og nú, ef ég man það rétt.
Þetta er skemmtilegur siður hjá okkur sem ég vildi ekki fyrir nokkurn mun leggja niður.
Þetta styrkir fjölskylduböndin. Kvöldin hafa tekið breytingum í áranna rás. Þau hafa róast, fágast, við erum að eldast.... Sem betur fer auðvitað.
Á árinu frá því við hittumst síðast hefur tvisvar sinnum hoggið nærri fjölskyldubandi okkar. Hjalli fékk heilablóðfall og Jói hjartaáfall. Báðir gengu þeir óhugnanlega nærri skapadægri sínu. Þetta er okkur áminning um að rækta betur fólkið okkar, með samfélagi við það og hlúa betur hvert að öðru.
Ég var að hugsa um þetta í gærkvöldi í veislunni. Það veit enginn hversu langan þráð hann hefur til umráða né hver lifir hvern.
Gömul kona sagði einu sinni: “Allir ættu að taka lífinu létt, á hverju sem gengur, því við lifum svo skammt en erum dauð svo óralengi.”
Einfaldur vísdómur í þessu, en réttur.
Núna sit ég hér á skrifstofunni minni hugsandi um lífið og tilveruna. Hún er mér ljúf þessa stundina. Ekkert áreiti hér í Húsinu við ána. Áin líður kröpuð hérna framhjá milli skjannahvítra bakka. Sakleysisleg en samt þung. Hún býr yfir ógnarafli hvernig sem hún er stemmd. Hún er samt góður nágranni og gjöfull, aldrei eins, virðist vera matarkista öndum og álftum jafnvel þó hún sé svona kröpuð og ísköld.
Veðrið er stillt þessa stundina. Það er fannfergi og jarðbönn. Snjótittlingarnir þiggja mataraðstoð, ekki árinnar, heldur okkar, og hópast hér fyrir utan gluggann minn, þakklátir litlu skinnin. Það er hörð lífsbaráttan hjá þeim þegar ekki sér á svartan díl. Þetta er ísköld fegurð sem við horfum á og skapar stóíska ró hér innandyra.
Erlan situr hér frammi, notaleg.....Ég er að njóta augnabliksins!
1 ummæli:
Flott hjá ykkur systkinunum að breyta þessu og hafa bara ykkur og maka með :) Á móti kemur fyrir okkur börnin að koma í jólaboðið sem vooonandi verður hefðað :) Það er svo skemmtilegt að hittast og tengja böndin enn betur :) Njóttu dagsins áfram, skemmtileg skrifin þín :) Þín Eygló
Skrifa ummæli