föstudagur, janúar 25, 2008

Sveitamaður

Ég fylgist vel með veðri. Ég get samt varla státað af því að vera “veðurglöggur” eins og margir mætir menn fortíðar. Forðum daga þótti það góður kostur. Innbyggt veðurinnsæi byggt á reynslu manna af skýjafari og ásýnd himintungla eða morgun og kvöldroða sólarinnar er sennilega hverfandi hæfileiki.
Ég nota aðallega netið til að fylgjast með veðri. Þar hef ég aðgang að nýjustu tækni þar sem allar veðurupplýsingar eru alltaf að verða betri og nákvæmari. Svo ég hlýt að vera allavega "nútímaveðurglöggur"
Það eru nokkrir vefir sem ég nota aðallega. Belgingur er vefur sem veðurstofan rekur en er um margt öðruvísi en veðurstofu vefurinn sjálfur. Þar sé ég veður á hverjum stað klukkustund fyrir klukkustund, úrkomu, vind og hitastig. Oftast mjög nákvæmt hjá þeim. Til að skoða veður og færð nota ég link á vegagerðarvefnum. Þar koma fram upplýsingar sem eru uppfærðar á hálftíma fresti, færð, veður og umferð.
Svo kíki ég alltaf á vefmyndavél sem er staðsett efst á Hellisheiði sem horfir í austur og vestur og beint niður á veg, þar get ég séð umhverfið með eigin augum áður en ég fer af stað. Síðast skoða ég mbl vefinn en þeir eru duglegir að tilkynna um færð og veður ásamt tilkynningum frá lögreglu ef eitthvað er.

Í gærkvöldi snjóaði hraustlega hér. Frost og lítill vindur og snjórinn eins og púður. Ég sagði við Erluna að það liti ekki vel út með morgundaginn. “Belgingur segir að eigi að hvessa”.
Það kom á daginn. Nútíma veðurglöggvi mín sannaði sig....... Ég lagði samt af stað áleiðis í morgun. Sú ferð endaði snubbótt. Ég keyrði einn hring á hringtorginu hér við bæjarmörkinog endaði heima aftur. Vefurinn sagði “þæfingur” á heiðinni en fært. Það var tilkynning frá lögreglunni á Selfossi í útvarpinu í bílnum að heiðin væri að lokast sem fékk mig til að snúa við. Annars værum við Hrund núna uppá Hellisheiði....föst. Við fórum af stað tvö því Erlan er komin með gubbupest og því heima í dag. Óþverrapest.
Myndin hér að ofan er af bílnum okkar hálffenntum í kaf.

Þá er nú betra að sitja hér við skrifborðið og vangavelta veðrinu í notalegheitum.
Ég verð samt að segja að ég kýs heldur milda vetur eins og síðustu nokkrir hafa einkennst af, þó í sjálfu sér kunni ég snjónum ekki illa. Hann bara tefur vinnandi mennina mína og gerir okkur erfiðara fyrir.

Það er ánægjuefni að sjá daginn lengjast. Vorið er handan hornsins. Það verður komið fyrr en varir með sól og grænar grundir og þreytta ferðalanga frá heitari löndum sem staldra hér við til að viðhalda kyni sínu. Merkileg þessi sköpun.

Eigið góðan dag lesendur mínir......Er annað slagið að bæta við ljósmyndum á myndasíðuna ef þið hafið áhuga á þeim.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég skoða stundum myndirnar þínar og finnst þú góður myndasmiður. Enda dregið að þér athygli heimsbyggðarinnar.

kær kveðja,

Kiddi Klettur