þriðjudagur, júlí 21, 2009

E S J A N............

Við létum loksins verða af því að klifra upp á Esjuna. Ég verð að viðurkenna að hún er hærri en mig minnti (læt líta út að ég hafi farið áður) ok, hærri, en ég hélt. Við fórum með Írisi og Karlott. Það var virkilega gaman að fara upp. Það tók á. Við erum samt að taka okkur á í hreyfingarmálum og hollustunni. Enda má segja að árin krefjist þess og... skólinn, maður situr svo mikið orðið við lestur.
Næst er það nágranni okkar Ingólfsfjall. Það er nú mun lægra en Esjan svo það ætti ekki að verða svo erfitt.

.....Svo er það Þórisvatnið á miðvikudaginn að kitla veiðitaugarnar. Já lífið er ljúft. Ég verð að henda inn eins og einni mynd af frúnni á Esjutoppnum.... til að sanna mál mitt.

þriðjudagur, júlí 14, 2009

Þríhyrningur og fleira

Vinnuhelgin varð að göngu- og ferðalagahelgi. Við fórum á Þríhyrning með þremur stelpnanna okkar, Eygló Örnu og Hrund. Það var gaman að koma upp einu sinni enn og gaman að skoða gamlar slóðir. Minningar á hverri þúfu nánast. Margt er breytt frá fyrri tíð, sumt til hins betra en sumt í hina áttina. Það er skaði að Kirkjulækjarkots jörðin skuli vera orðin svona uppskipt eins og hún er. Fyrst er safnaðarparturinn sem gefinn var á sínum tíma af bræðrunum í Kotinu. Svo tekur við land sem Veddi eignaðist fyrir allmörgum árum á uppboði, hluti Kotjarðarinnar. Blettir hér og þar. Hinrik náði til sín stærsta hluta túnanna sem Ninni átti. Svona má lengi telja. Ekki nutu þeir bræðurnir mikils af verðmæti jarðarinnar. Gefið eða selt fyrir einhver lambsverð.

Það var fegursta veður og hitinn mikill. Hitinn var ekki sérlegur vinur okkar á leiðinni upp á fjallið. Það var nánast logn og ef hreyfði vind var hann heitur eins og maður á að venjast miklu sunnar á hnettinum. Við fórum samt alla leið á toppinn. Hitamistur aftraði útsýni svo ekki sást eins vítt og venjulega. Það var með sérlegri nautn sem við snæddum samlokur á toppnum. Ekki laust við að þær væru orðnar takmark í sjálfu sér eftir því sem ofar dró.
Við fylltum allar flöskur af lindarvatni úr "lindinni" uppi á brúnum og drukkum það á leiðinni. Það er að sögn besta vatn sem fyrirfinnst. Ískalt beint úr jörðinni og sérlega bragðgott.
Heimleiðin var nokkuð löng enda eiginlega of heitt til að vera að ganga mikið. Það var gott að komast í bílinn og lofa honum að bera okkur síðasta spölinn á Föðurland.
Þar var svo samvera dagsins innsigluð með góðum grillmat sem Karlott og Íris sáu um að mestu.
Gott, hessandi og..... virkilega gaman.

Ísland er óumræðilega fallegt land, gjöfult og gott.

föstudagur, júlí 10, 2009

Labb

Við erum að tygja okkur af stað í Föðurland. Vinnuhelgi, þar sem verður málað og smíðað. Á morgun á svo að leggja í fjallaferð. Þríhyrningur verður klifinn. Hann er alltaf "fjallið okkar" einhvernveginn, þótt við eigum ekki meira í honum en aðrir. Það er formið og nándin sem við höfum eignað okkur.
Brottför er árla morguns til að hafa síðdegið til afslöppunar í sólinni sem er spáð um helgina. það spáir bongóbongó blíðu.
Njótið daganna vinir.....

sunnudagur, júlí 05, 2009

Miðsumar á Ölfusárbökkum

Það hefur verið eindæma gott veður undanfarna daga. Hitastigið hefur verið um og yfir 20 stig flesta daga. Hér á bökkum Ölfusár dansar tilveran vangadans við okkur eins og venjulega. Við vorum í sumarfríi vikuna eftir að við komum frá Danmörku. Dvöldum sitt á hvað hér á bökkunum og á Föðurlandi. Ég seldi mótorfákinn norður í land. Það er auðvitað leiðinlegt að geta ekki farið í útreiðatúr á fallegum degi lengur en svona er tilveran. Hjólið verður "borðað" í vetur með skólanum. Þetta er auðvitað einn liður í að fjármagna skólann....meira í veskið og minna að borga...!

Við Erlan erum svo lánsöm að eiga góða og trausta vini. Við eyddum föstudagskvöldinu í góðra matarklúbbs vina hópi. Við erum öll matgæðingar og kunnum vel að njóta góðs matar. Smjörsteiktur humar í hvítlauk og nýbakað brauð með sterkri hvítlaukssósu var frábær forréttur og svo nautalund með öllu tilheyrandi í aðalrétt og karamelluterta í eftirrétt. Svolítið 2007 en samt ekki dýrt þegar bara hráefnið er keypt en ekki er verið að borga fyrir eldamennsku og þjónustu.

Í dag eigum við von á afkomendum okkar hingað í húsið við ána. Dæturnar koma oft hingað með sitt fríða föruneyti. Það er ég ánægður með. Hef enda stefnt að því leynt og ljóst öll árin að heimilið okkar yrði fastur punktur í tilveru afkomenda okkar. Það eru of oft vanmetin gildi að halda fjölskyldunni þétt saman.

Nágrannar okkar Nína og Geiri hafa ekki haft erindi sem erfiði. Varpið misfórst hjá þeim. Ég veit ekki hvað kom fyrir en þau hættu allt í einu að liggja á hreiðrinu án þess að ungar væru komnir út. Í marga daga komu þau samt á hverjum degi undir miðnættið og annað þeirra lagðist á hreiðrið. Þau eru samt ungalaus og virðast frekar friðlaus og sorgmædd greyin.

Erlan er uppi á efri hæðinni að lesa bók. Ég ætla að láta renna í tvo bolla af kaffi og athuga hvort ég næ henni niður.
Límsófinn heillar hana oft, sérstaklega ef ég beiti kaffi á krókinn líka.