Vinnuhelgin varð að göngu- og ferðalagahelgi. Við fórum á Þríhyrning með þremur stelpnanna okkar, Eygló Örnu og Hrund. Það var gaman að koma upp einu sinni enn og gaman að skoða gamlar slóðir. Minningar á hverri þúfu nánast. Margt er breytt frá fyrri tíð, sumt til hins betra en sumt í hina áttina. Það er skaði að Kirkjulækjarkots jörðin skuli vera orðin svona uppskipt eins og hún er. Fyrst er safnaðarparturinn sem gefinn var á sínum tíma af bræðrunum í Kotinu. Svo tekur við land sem Veddi eignaðist fyrir allmörgum árum á uppboði, hluti Kotjarðarinnar. Blettir hér og þar. Hinrik náði til sín stærsta hluta túnanna sem Ninni átti. Svona má lengi telja. Ekki nutu þeir bræðurnir mikils af verðmæti jarðarinnar. Gefið eða selt fyrir einhver lambsverð.
Það var fegursta veður og hitinn mikill. Hitinn var ekki sérlegur vinur okkar á leiðinni upp á fjallið. Það var nánast logn og ef hreyfði vind var hann heitur eins og maður á að venjast miklu sunnar á hnettinum. Við fórum samt alla leið á toppinn. Hitamistur aftraði útsýni svo ekki sást eins vítt og venjulega. Það var með sérlegri nautn sem við snæddum samlokur á toppnum. Ekki laust við að þær væru orðnar takmark í sjálfu sér eftir því sem ofar dró.
Við fylltum allar flöskur af lindarvatni úr "lindinni" uppi á brúnum og drukkum það á leiðinni. Það er að sögn besta vatn sem fyrirfinnst. Ískalt beint úr jörðinni og sérlega bragðgott.
Heimleiðin var nokkuð löng enda eiginlega of heitt til að vera að ganga mikið. Það var gott að komast í bílinn og lofa honum að bera okkur síðasta spölinn á Föðurland.
Þar var svo samvera dagsins innsigluð með góðum grillmat sem Karlott og Íris sáu um að mestu.
Gott, hessandi og..... virkilega gaman.
Ísland er óumræðilega fallegt land, gjöfult og gott.