fimmtudagur, september 24, 2009

Þar fór í verra

Ég, veiðiklóin sjálf, kom heim með öngulinn í rassinum. Á ekki við mig, en svona er veiðin, ekki alltaf á vísan að róa. Hlynur fékk tvo fiska, annar ágætur hinn lítill en Hansi fékk einn 12 punda urriða. Flottur fiskur - jafnstór mínum stærsta í fyrra. Ég á annan dag í haust sem vonandi gengur betur.

Þá er bara að venda nefinu ofan í bækurnar aftur.
:0)

þriðjudagur, september 22, 2009

Volinn á morgun

YYYYhaaaa.
Loksins að maður kemst í veiði. Hef verið langt frá mínu besta í sumar. Er að vonast eftir góðri veiði. Set inn myndir af aflanum ef þannig verkast.

sunnudagur, september 06, 2009

Enn að fjallabaki...

Fjöllin heilla okkur Erluna meira en margt annað. Það er gaman að ganga á fjöll. Við byrjuðum á því í vor og höfum gengið á nokkra tinda í sumar. Það er líka gríðarlega gaman að ferðast um íslenska hálendið og skoða þann fjölbreytileika sem þar er að finna. Við fórum í gær með stóran hóp með okkur um Syðri fjallabaksleið að Hungurfit og þaðan suður Fljótshlíðar afrétt.
Það leit ekki vel út með veður fram eftir vikunni en rættist úr og við fengum flott veður í ferðinni.
Við stoppuðum oft við hina og þessa staðina sem vert var að skoða betur en unnt er út um bílgluggann og vegna litla mannfólksins sem var með í för, þau þurfa að hreyfa sig. Ég held að það sé börnunum afar hollt og nauðsynlegt að fá að kynnast Íslandi "eins og það kemur af kúnni" það kemur kannski í veg fyrir að þau búi sér til of neikvæða mynd af landinu sínu, sem mótast af endalausum neikvæðum fréttaflutningi.

Ævintýrin gerast í svona ferðum og brekkurnar verða stundum of brattar. Þá getur verið gott að vera ekki einbíla. Við lentum í ýmiskonar skemmtilegheitum, vöð yfir grýttar ár, klettaklungur þar sem er mjög þröngt og erfitt að koma bíl í gegn, brattar brekkur o.fl. Svona kryddar bara ferðirnar.
Ég heyri af dætrum mínum hvað ferðir þeirra um landið á uppvaxtarárunum hefur haft mikil áhrif á þær, og skapað góðar minningar.
Ferðin í gær var eins og endranær, skemmtileg og nærandi. Bæði var samfélagið við fólkið okkar afar gott og svo virðist landið okkar búa yfir þeim einstöku töfrum að næra sálina og skapa vellíðan þegar maður á samfélag við það.

Góð ferð, í góðra vina hópi, um fallegasta land veraldar - er hægt að biðja um meira?