Það er orðið nokkuð um liðið síðan hér var settur inn pistill síðast. Það er búið að vera mikill annatími í skólanum. Hvert verkefnið hefur rekið annað og sum hver skarast svo sólarhringurinn hefur stundum orðið of stuttur í annan endann. Nú er kennsla annarinnar að klárast og prófatörn framundan svo þetta er ekki búið. Ég verð, ef að líkum lætur, ekki mjög viðræðuhæfur næstu vikurnar.
Dagurinn í dag er samt frekar í notalegri kantinum. Ég svaf óvenjulengi í morgun sem kannski mótast af því að sumir dagar vikunnar hafa lengst hressilega fram yfir miðnættið, sem hæfir mér illa því ég er morgunmaður og fellur illa að vinna á næturnar. Uppsafnaður lúi. En ég er nú samt búinn að sitja hér niðri dágóða stund yfir morgunmat og dagblöðum.
Við förum bæjarferð á eftir í afmæli Katrínar Töru sem verður fimm ára 3. des nk. Íris er alveg á kafi í námsefninu og próf að byrja, því hentar að hafa veisluna núna.
Það verður gott að geta aðeins slakað á eftir þá törn.
Við Erla erum búin að halda upp á afmælin okkar. Samhjálparsalurinn var leigður og Binni kokkur sá um að elda fyrir okkur. Ég er ánægður með hvernig til tókst. Held allir hafi farið heim saddir og brosandi. Takk, þið sem eydduð kvöldstundinni með okkur.
Jæja, Erlan er komin niður og kaffivélin iðar í skinninu.........
Engin ummæli:
Skrifa ummæli