sunnudagur, nóvember 01, 2009

Gæsadagur

Margir veiðimenn láta nægja að skera bringuna af gæsinni áður en henni er hent. Það er sóun. Mér áskotnuðust 80 gæsir sem höfðu verið bringuskornar. Kokkurinn sem aðstoðar okkur við veisluna okkar í nóvember sagði mér nefnilega að hann gæti gert ótrúlega góðan rétt úr gæsalærum ef ég gæti útvegað þau. Nú er ég auðvitað að upplýsa hluta af matseðlinum í veislunni, en það er allt í lagi. Það verður m.a. villibráð, gæs og silungur.
Dagurinn hefur því farið í að slíta læri af endalaust mörgum gæsum, og auðvitað skera þær á kvið og sækja lifrina. Hún er, það sem alvöru sælkerar sækjast hvað mest eftir til að leika sér með í matargerð.
Ég á alveg stórgóða uppskrift að andalifrarkæfu sem ég smakkaði fyrst í Perlunni á villibráðarkvöldi, en við karlarnir í Erlu ætt höfum farið í Perluna í nokkur ár á villibráðarhlaðborð. Þeir kunna að kokka þar. Því miður kemst ég ekki þetta árið, en tek upp þráðinn, væntanlega á næsta ári ....eða þar næsta.
Danni bróðir kom hér um miðjan dag í heimsókn. Ólukkans fyrir hann, lenti hann í gæsaaðgerðinni með mér... óvart auðvitað. Hann er duglegur kallinn og það munaði mig heilmiklu að fá aðstoð, takk Danni minn.
Jú jú nú er maður orðinn fimmtugur eins og ALLIR landsmenn vita. Við Erlan áttum miða í Óperuna í kvöld. Ég var orðinn svo lúinn að ég nennti ekki í bæinn. Aldurinn? Eða bara hreinræktuð leti? Miðana eigum við inni hjá Óperunni svo við gerum okkur dagamun síðar.
Núna erum við að spjalla við Hrundina okkar sem var að koma úr frábærri ferð til Parísar. Skype-ið er algjör snilld.
Hafið það ætíð sem best vinir mínir.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku pabbi, ég held bara áfram að kalla þig matargourmering, það passar svo vel við;)
En ég verð að segja að ég er farin að hlakka svo til veislunnar ykkar mömmu, matarlega OG félagslega séð;) Þín Arna