Við vorum í árlegu þorrablóti fjölskyldunnar í gærkvöldi, núna hjá Hlyn og Gerði. þau gerðu þetta vel og maturinn var frábær, svo sem eins og venjulega. Hann er þó misgóður. Við systkinin höfum viðhaft þennan sið í 33 ár sem er alveg ótrúlegt því ég man svo vel eftir fyrsta skiptinu, um það leyti sem ég var að koma með Erluna inn í ættina. Lengst af vorum við með krakkana okkar með eða þangað til húsin okkar dugðu ekki lengur fyrir allan fjöldann og við færðum þetta til upphafsins og hittumst nú bara systkini og makar. Það er samt synd eins og mamma hefði sagt. Tilhugsunin um að þetta hverfi með okkur er ekki góð. Það þarf að viðhalda svona góðum sið, finnum aðferð til þess...!
Þeim leiddist ekki konunum í fjölskyldunni að tala um Boston ferðir. Þær fóru allar þangað í fyrra í ferð sem virðist hafa verið frekar skemmtileg af hlátrasköllunum að dæma. Betra að vera ekki fyrir þegar þær komast á flug í endurminningunum...! Það er gott að hafa góðar minningar til að skemmta sér yfir - ekkert nema gott um það að segja.
Framundan er svo annað þorrablót í Erlu fjölskyldu. Það vantar ekki að maður hafi möguleikana til að fitna þótt talað sé um kreppu. Maður ætti kannski að fara að skoða líkamsræktarprógrömmin....?
Í bili ætla ég samt bara að halda áfram með skólaskylduna, er að lesa sakamálasögu núna - bara gaman.
Í bili ætla ég samt bara að halda áfram með skólaskylduna, er að lesa sakamálasögu núna - bara gaman.
Njótið daganna gott fólk.