sunnudagur, janúar 24, 2010

Plús átta

Það er hressandi fyrir sálartetrið að hafa svona einstaka tíð eins og nú er. Að horfa út um gluggann hér á skrifstofunni minni er ekki eins og hefðbundið janúarútsýni, miklu frekar eins og apríl. Allt marautt og ekki frost í jörð. Það liggur við að maður komist í vorfíling en það væri auðvitað bara plat.

Við vorum í árlegu þorrablóti fjölskyldunnar í gærkvöldi, núna hjá Hlyn og Gerði. þau gerðu þetta vel og maturinn var frábær, svo sem eins og venjulega. Hann er þó misgóður. Við systkinin höfum viðhaft þennan sið í 33 ár sem er alveg ótrúlegt því ég man svo vel eftir fyrsta skiptinu, um það leyti sem ég var að koma með Erluna inn í ættina. Lengst af vorum við með krakkana okkar með eða þangað til húsin okkar dugðu ekki lengur fyrir allan fjöldann og við færðum þetta til upphafsins og hittumst nú bara systkini og makar. Það er samt synd eins og mamma hefði sagt. Tilhugsunin um að þetta hverfi með okkur er ekki góð. Það þarf að viðhalda svona góðum sið, finnum aðferð til þess...!
Þeim leiddist ekki konunum í fjölskyldunni að tala um Boston ferðir. Þær fóru allar þangað í fyrra í ferð sem virðist hafa verið frekar skemmtileg af hlátrasköllunum að dæma. Betra að vera ekki fyrir þegar þær komast á flug í endurminningunum...! Það er gott að hafa góðar minningar til að skemmta sér yfir - ekkert nema gott um það að segja.
Framundan er svo annað þorrablót í Erlu fjölskyldu. Það vantar ekki að maður hafi möguleikana til að fitna þótt talað sé um kreppu. Maður ætti kannski að fara að skoða líkamsræktarprógrömmin....?
Í bili ætla ég samt bara að halda áfram með skólaskylduna, er að lesa sakamálasögu núna - bara gaman.

Njótið daganna gott fólk.

þriðjudagur, janúar 19, 2010

Boston var það....

..... í tilefni fimmtugsafmælis Erlunnar minnar. Þó hún beri það ekki með sér þá varð hún fimmtug þann 14. janúar sl. Við ákváðum að hafa eina veislu og eina reisu í tilefni afmælanna okkar, það er styttra á milli okkar í aldri en sýnist.
Ferðin var afar góð. Boston er öðruvísi amerísk borg en ég hef séð áður. Falleg, hrein og skemmtileg. Með urmul af góðum matsölustöðum og margt fallegt að skoða.
Eins og nærri má geta er ekki erfitt að dekra þessa konu. Hún ber bara með sér þannig persónuleika að annað er ekki hægt.
Við eyddum afmælisdeginum í ýmislegt skemmtilegt m.a. settumst við niður á Cheers barnum fræga, kíktum aðeins í búðir skoðuðum falleg hús og margt fleira.

Fimmtug.... varla, hlýtur að vera vitlaus kennitala.

Við enduðum svo daginn á glæsilegum veitingastað uppi á 52. hæð, með glæsilegu útsýni yfir Boston. Lukkan var með okkur því þjónninn tjáði okkur að þeir ættu Vagyu naut, besta nautakjöt veraldar sem væri mjög erfitt að fá. Það þurfti ekki að dekstra okkur með það. Kjötið var.... og nú vantar nógu sterk lýsingarorð, himneskt, kemst kannski næst því. Algjört lostæti, steikingin fullkomin, kryddunin líka og meðlætið. Ég ætlaði að panta bragðmikið spánskt rauðvín Marqués de Riscal með en það leist þjóninum ekki á og vildi velja fyrir okkur vín sem hæfði þessu kjöti, það var látið eftir þrátt fyrir hjáróma mótmælanöldur úr vasanum mínum, veskið lætur stundum svona. Ég sá ekki eftir því að láta hann velja - þetta var nálægt fullkomnun. Eftirrétturinn var franskur Créme brulée, líka alveg eins og hann á að vera. Topp topp toppp...staður! Afar rómantískur með ofboðslega flottu útsýni. Sælkerarnir við, vorum í essinu okkar þarna.

Við höfðum ákveðið að þetta yrði ekki verslunarferð -alveg satt, Erla jú hún var líka með í ráðum...! Hinsvegar ætluðum við að nota tímann og prufa veitingastaði, við erum svoddan matarunnendur og nutum þess í tætlur. Fundum æðislegan ítalskan stað í ítalska hverfinu þar sem við borðuðum snilldar pastarétti. Fórum á Cheesecake factory og brögðuðum frægu ostakökurnar þeirra - skildi þá hversvegna þeir eru frægir fyrir þær ...yummy. Hafnarsvæðið er líka gríðarlega fallegt, gamlar byggingar og sagan allsstaðar.

Ánægjulegast við þetta allt var samt samfélagið við þessa yndislegu konu sem ég var svo lánsamur að finna fyrir meira en þrjátíu árum. Erlan hefur öll árin staðið hjarta mínu næst og gengið þétt við hlið mér hvernig sem hefur árað hjá okkur - gegnum súrt og sætt eins og sagt er. Hún er minn besti vinur og alger sálufélagi.

Ljúf og góð ferð. Það er von mín og bæn til Guðs að við fáum að ganga saman í þessum góða takti þangað til sólin okkar rennur í hinsta sinn.
Það er óhætt að segja að þessi Bostonferð hafi birt mér nýja sýn á Bandaríkin. Það hefur ekki verið efst á vinsældarlistanum hingað til að fara vestur um haf.
Erlan er engri lík.

laugardagur, janúar 09, 2010

pakkað saman

Jólunum pakkað ofan í kassa. Það verður alltaf hálftómlegt þegar öllu jóladótinu er komið í geymsluna aftur. Samt er líka alltaf gott þegar þetta er búið og nýja árið heldur af stað með hversdagsleikann sinn og dagarnir fljóta framhjá eins og áin hér fyrir neðan. Veit ekki hvort þeirra fer hraðar. Áin er tímalaus, hefur haldið þessari ferð sinni áfram í árþúsundir. Löngu áður en nokkur maður hafði stigið fæti sínum hér á landi. Dagarnir enn tímalausari. Það er bara hjá okkur mannfólkinu sem tíminn er til og skiptir máli.
Árið byrjar allavega fallega og ekki er kuldanum fyrir að fara lengur. Hiti eins og í maí. Skólinn byrjar eftir helgina, væntanlega með látum. Síðasta ár námsins að hefjast.
Er strax farinn að hlakka til vorsins það er besti tími ársins.

laugardagur, janúar 02, 2010

Meðalhiti þessa árs...

...er mínus átta gráður sem komið er og verður að teljast til kaldari meðalhita. Nýja árið heilsaði með fallegum frostmorgni og stillu. Bærinn var iðandi af lífi enda allt okkar fólk hér sem er eins og flestir lesendur síðunnar vita, orðin hálfgerð ætt. Þetta minnir mig á þá tíma þegar við vorum ótrúlega mörg saman í Kotinu í gamla daga. Við borðuðum saman á gamlárskvöld og skutum svo upp fyrir börnin. Það er fölskvalaus ánægja sem skín úr andlitum barnanna þegar púðrið brennur með fallegum blossum. Skrítið hvað þetta breytist með aldrinum. Flugeldar áttu alla mína athygli þegar ég var krakki. Í dag finnst mér þetta allt í lagi. Best ef nágrannarnir skjóta miklu upp þá get ég notið en þeir borga - mjög kreppuvænt.
Íris og Karlott eru hér enn, þau gistu aftur í nótt enda verður veisla hér í dag, árlegt pálínuboð ættarinnar minnar hér í Húsinu við ána. Ég veit ekkert hvað koma margir en síðustu tvö árin hafa verið hér milli 50 og 60 manns.
Það er gott að koma svona saman og styrkja ættarbönd sem vilja trosna ef ekki er hugsað um að viðhalda þeim.

Ég er sagður bjartsýnismaður, það er rétt, ég hallast yfirleitt frekar að bjartari tónum tilverunnar. Ég vil samt frekar kalla mig jákvæðan raunsæismann. Sú skoðun mín byggir á því að yfirleitt eru tvær hliðar á teningnum og önnur bjartari en hin. Oftast er svo valkostur hvora maður aðhyllist.
Ég vel t.d. í byrjun þessa árs að horfa á heiðan himin milli skýjabólstranna og trúa því að með tímanum fjúki bólstrarnir burt í stað þess að halda að þeir þykkni út í það endalausa og hér verði almyrkvi og ólífvænlegt að búa, það viðhorf hef ég heyrt hjá fólki sem hefur leyft fröken svartsýni að setjast á öxlina á sér.
Ég held að hún sé leiðinlegur lífsförunautur.
Ég vona að þið lesendur síðunnar minnar njótið daganna og lítið björtum augum til framtíðar.
Ég ætla að fara að undirbúa komu ættingja minna.