laugardagur, janúar 02, 2010

Meðalhiti þessa árs...

...er mínus átta gráður sem komið er og verður að teljast til kaldari meðalhita. Nýja árið heilsaði með fallegum frostmorgni og stillu. Bærinn var iðandi af lífi enda allt okkar fólk hér sem er eins og flestir lesendur síðunnar vita, orðin hálfgerð ætt. Þetta minnir mig á þá tíma þegar við vorum ótrúlega mörg saman í Kotinu í gamla daga. Við borðuðum saman á gamlárskvöld og skutum svo upp fyrir börnin. Það er fölskvalaus ánægja sem skín úr andlitum barnanna þegar púðrið brennur með fallegum blossum. Skrítið hvað þetta breytist með aldrinum. Flugeldar áttu alla mína athygli þegar ég var krakki. Í dag finnst mér þetta allt í lagi. Best ef nágrannarnir skjóta miklu upp þá get ég notið en þeir borga - mjög kreppuvænt.
Íris og Karlott eru hér enn, þau gistu aftur í nótt enda verður veisla hér í dag, árlegt pálínuboð ættarinnar minnar hér í Húsinu við ána. Ég veit ekkert hvað koma margir en síðustu tvö árin hafa verið hér milli 50 og 60 manns.
Það er gott að koma svona saman og styrkja ættarbönd sem vilja trosna ef ekki er hugsað um að viðhalda þeim.

Ég er sagður bjartsýnismaður, það er rétt, ég hallast yfirleitt frekar að bjartari tónum tilverunnar. Ég vil samt frekar kalla mig jákvæðan raunsæismann. Sú skoðun mín byggir á því að yfirleitt eru tvær hliðar á teningnum og önnur bjartari en hin. Oftast er svo valkostur hvora maður aðhyllist.
Ég vel t.d. í byrjun þessa árs að horfa á heiðan himin milli skýjabólstranna og trúa því að með tímanum fjúki bólstrarnir burt í stað þess að halda að þeir þykkni út í það endalausa og hér verði almyrkvi og ólífvænlegt að búa, það viðhorf hef ég heyrt hjá fólki sem hefur leyft fröken svartsýni að setjast á öxlina á sér.
Ég held að hún sé leiðinlegur lífsförunautur.
Ég vona að þið lesendur síðunnar minnar njótið daganna og lítið björtum augum til framtíðar.
Ég ætla að fara að undirbúa komu ættingja minna.

Engin ummæli: