fimmtudagur, desember 31, 2009

Áramót enn einu sinni

Ár sem hóf göngu sína undir óveðursskýjum er að renna sitt skeið. Það hefur einkennst af stjórnmálasviptingum og átökum meðal þjóðarinnar og á þannig séð, fáa sína líka. Allt hefur tekið breytingum sem engan óraði fyrir. Ekki allar slæmar heldur á margan hátt góðar. Þó finna megi til með þeim sem verst fara fjárhagslega út úr hruninu stendur upp úr sá ljósi punktur að undan kálinu kemur eitthvað nýtt og betra eins og kartöflubændur þekkja best. það gamla deyr og nýtt verður til.

Maður leyfir sér að vona að lífsgildi landans verði önnur og heilbrigðari nú þegar mesta gruggið sígur til botns og sýn skerpist. Framundan er tími til að byggja upp eitthvað varanlegt og gott. Hver og einn er sinnar gæfu smiður í þeirri byggingastarfsemi.

Ísland er land þitt því aldrei skalt gleyma, er einkunnarorð mitt fyrir næsta ár. Pössum okkur að detta ekki í ormagryfju depurðar og vonleysis, Ísland er engu líkt að gæðum.

Ég þakka öllum samferðamönnum mínum góða samleið á árinu og óska ykkur gleði og farsældar á nýju ári

Engin ummæli: