Aðfangadagur rann upp bjartur og fallegur en kaldur. Mesta hátíð ársins vítt um heim. Dagurinn sem alltaf virðist hafa sömu óþreyju áhrif á börnin okkar. Hvenær opnum við pakkana mamma, er spurning sem flestar mömmur fá að heyra. Minningar úr bernsku bera með sér að ekkert hefur breyst. Minningum og tilfinningum sem tengjast hátíðarskapi og frið þar sem pakkaopnunin var stóra málið eins og í dag en líka sagan um Jesúbarnið í jötu. Jólin eru fjölskyldutími, samverutími sem verður dýrmæt minning þegar fram í sækir.
Ég á bara góðar og ljúfar minningar af jólum. Saga jólanna og minningarnar tengjast saman. Jólin heima snerust um Jesúbarnið. „En svo bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.....“ þetta hefur hljómað í mínum eyrum hver jól í fimmtíu ár. Við höfum það fyrir sið hér á þessum bæ að lesa saman jólaguðspjallið. Það er undanfari pakkaopnunar. Það gefur hátíðinni meira innihald að minna sig á hversvegna við höldum jólin.
Núna er ilmur af jólum í bænum. Hamborgarhryggurinn á leið upp úr potti og enn hangikjötseymur eftir suðu gærkvöldsins. Við erum ekki með smábörn hér lengur en vorum svo lánsöm að Hrundin kom heim frá Þýskalandi öllum að óvörum svo við verðum ekki einí kvöld eins og leit út. Hrund er eins og mamma sín mikið jólabarn og ég fæ að njóta þess með þeim.
Fésbókin virðist vera aðalsamkomustaður vina og vandamanna en þeim ykkar sem lesið enn síðuna mína óska ég gleðilegrar jólahátíðar með friði og fögnuði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli