föstudagur, desember 18, 2009

Prófalok o.fl.

Já það er ljúft.
Það er eins og detti á logn eftir storm þegar síðasta prófi lýkur. Vinna við það sem ég kann best, smíðar, er eins og frítími. Kann það allt utanbókar, ekkert að hugsa, bara vinna.
Smíðaði í gær eins og ég ætti lífið að leysa til að geta verið í fríi í dag. Við erum búin að njóta morgunsins út í æsar. Vorum að spjalla um hvort við ættum ekki að fá okkur eins og fjórar hænur til að sjá heimilinu fyrir eggjum, já okkur dettur nú ýmis vitleysan í hug - og látum oft verða af henni líka. Veðrið er svo fallegt núna sól og bjart, frost og alger lognstilla. Áin sallaróleg með íshröngli fljótandi í rólegheitum niður eftir henni. Það er svona friður og kyrrð yfir öllu einhvernveginn, gott andrúm.
Prófin gengu vel... að ég held. Þær einkunnir sem eru í höfn eru í fína lagi allavega.

Ég er að fara út að hengja upp jólaljósin á húsið og trén í garðinum. Það hefur ekki verið tími til þess fyrr en núna, jólabarnið á bænum ætti að kætast vð það.
Svo er það bara vinna í jólafríinu. Ég hef nóg að gera sem betur fer og sýnist mér veiti ekki af tímanum sem ég hef í fríinu til að komast yfir það sem ég er búinn að lofa.

Njótið lífsins vinir - það er gott

1 ummæli:

Karlott sagði...

Til hamingju Erling með að vera búinn með prófin, eflaust afar ljúft!
Já, það er gaman að dunda við jólaskreytingarnar, núna eru krakkarnir að skreyta tréið hérna í kotinu, yndisleg gleðin og spennan í kringum þau...
Ef þið fáið ykkur svona heimalingahænur, sem er afar snjöll hugmynd, hvað segist þá ef ég myndi kaupa egg af ykkur? Yrði það þá ,,Áregg"?

Kveðja, Karlott