þriðjudagur, desember 18, 2012

Aðventan að þessu sinni

Fastur í vinnu við skrifborðið mittt er hlutskiptið undanfarið sem sést best á gífurlegri atorkusemi í bloggskrifum. Það þýðir samt ekki að ég fái ekki stund milli stríða eins og sagt er. Kaffibollinn minn er t.d. óspart brúkaður mörgum sinnum á dag og límsófinn er athvarf sem við Erlan notum oft á dag. Það er félagsleg afslöppun að standa upp, láta renna í bollana og hugsa um annað en vinnu.
Jólin eru að nálgast og Erlan þetta jólabarn er við það að hrökkva í jólagírinn sinn. Það gerist reyndar óvenju seint þetta árið en skrifast á búðirnar og vinnuálagið sem því fylgir að standa í verslunarrekstri á krepputíma.

Það virðist sem áhrif kreppunnar séu að harðna hjá venjulegu fólki, allavega heyrum við mun meira núna um fólk sem á í vandræðum og sumir sem ekki hafa í sig og á. Það er dapurlegt að heyra af slíku, sérstaklega svona á aðventunni þegar fólk ætti að vera að undirbúa gleðileg jól og hafa það huggulegt við kertaljós, súkkulaði og rjóma.

Jólin koma svo mikið er víst, þau verða vonandi flestum gleðileg og góð þó ég viti vel að það er ekki þannig hjá öllum. Vonandi verður samt enginn svangur, það er of dapurt til að líðast.

Ég hlakka til þó ekki væri annað en að fylgjast með Erlunni og fólkinu mínu sem flest eru jólabörn út í eitt.
Hvað mig varðar þá vil ég jólafriðinn, dautt svín og grjónagraut á borðið mitt og ég er fínn.

Engin ummæli: