sunnudagur, desember 30, 2012

Næst síðasti...

... dagur ársins 2012. Það er líklega merki um himinháan aldur að muna þá tíð þegar árið 2000 var óralangt inni í framtíðinni og maður sá fyrir sér fljúgandi straumlínulagaða bíla og manninn ferðast út í geim eins og ekkert væri. Veruleikinn, þetta naglfasta umhverfi sem við búum í, er samt alltaf einhvernveginn eins í öllum grundvallaratriðum. Maðurinn þarf að næra sig, klæða, fata sig, og eiga sér skjól yfir höfuðið, alveg eins og forðum. Það sem hefur breyst einna mest fyrir utan tæknina eru viðhorf okkar. Ég held að við séum miklu sjálfhverfari og í raun verr að okkur í mannlegum grundvallarsamskiptum en við vorum áður fyrr.
Samkennd hefur minnkað og það er kuldalegt að sjá að mun fleiri en nokkru sinni áður eiga ekki fyrir mat á diskinn sinn. Samt hefur framlegð þjóðarinnar margfaldast og miklu meiri fjármunir eru til skiptanna en áður var.
Misskiptingin er of mikil, þó nokkur fjöldi fólks hefur þúsund sinnum meira en nóg, meðan aðrir hafa miklu minna en ekkert. Þetta er þróun sem illu heilli er ennþá á hraðferð að "göfugu" markmiði sínu, að gera þá ríku ríkari og fátæku fátækari.
Ósanngjarnt eða óeðlilegt? Já sannarlega hvorttveggja, en þannig vinnur þessi grjótmunlingsvél sem í helgri bók er kallaður mammon og við köllum auðvald eða bara fjármagnseigendur í dag.

Það versta af öllu er að þrátt fyrir hrun hagkerfis okkar virðist ekki ætla að verða nein uppstokkun á þessum spilastokk og ég veit ekki hvort það er hægt að breyta þessu því hin ósýnilegu öfl eða lögmál fjármagnsins eru að verki. Kerfið "heldur með" þeim sem eiga peningana og stendur vörð um hagsmuni þeirra eins og grimmur hundur framar hagsmunum þess hóps sem nærir þá, sem eru auðvitað skuldarar, því það er sannarlega úr þeirra buddu sem fjármagnið mokast á þessar of fáu hendur.

Pólitísk öfl sem kenna sig við sósíalisma hafa verið við völd undanfarin ár og hafa sannað öðru fremur að peningavaldið er draugur sem auðvelt er að vingast við og erfitt að kveða niður.
Vonandi tekst samt að gera þessa þjóð að því sem hún ætti að vera, gæðin eru yfirfljótanleg og fátækt ætti að vera óþekkt fyrirbæri hér.

Það er kannski við hæfi í lok árs að hver skoði sjálfan sig og spegli sig aðeins í dæmisögunni um miskunnsama samverjann. Sú speglun er öllum holl og gott að gera sér grein fyrir hvar maður stendur varðandi manngæsku og hugmynd um líðan annarra.
Það verður að minnsta kosti áramótaákvörðun mín að gefa meiri gaum að þeim sem eiga ekki í sig og á og skortir lífsins nauðsynjar. Ég hvet þig til að gera slíkt hið sama.

Njótið daganna.


Engin ummæli: