sunnudagur, mars 17, 2013

Svo sjálfsagt

Allar athafnir hins daglega lífs svo sem að borða, vinna, skreppa á salernið og öll hin smáatriðin sem við framkvæmum alla daga án þess að hugsa um það eru kannski ekki eins sjálfsögð og virðist.
Heilsan verður ekki fulllmetin fyrr en hún lætur undan og þessar athafnir daglega lífsins verða manni ofviða með einhverjum hætti.
Það er kaldhæðnislegt að hugsa um það hvernig maður fer fram úr á morgnana og þeytist út í daginn með yfirfulla dagskrá til að uppfylla oft og tíðum gerfiþarfir sem krefjast tíma og orku okkar þegar næsti dagur ber í skauti sínu aðstæður sem gera að verkum að heitasta óskin verður sú að hafa getuna til að stíga í fæturna á ný. Þetta er lexía sem maður lærir á leiðinni að tímanum þarf að verja vel því maður hefur enga hugmynd um stöðuna á tímaglasinu.

Enn einu sinni sannast það að morgundagurinn er óskrifað blað og pennanum er ekki alltaf mundað eins og við sjálf kjósum. Það hvarflaði ekki að mér að smá verkur í fæti væri forsmekkur þess að Erlunni yrði kippt út úr okkar venjulega lífsmynstri og brjósklos yrði til þess að hún missti fótanna og lægi á sjúkrahúsum og endurhæfingarstofnun svo vikum skipti. Þetta er skólun hjá lífinu, kennslustund.
Það má vona það því þrátt fyrir erfiðan tíma og gríðarlegar kvalir er brjósklos þess eðlis að það lætur undan og fólk kemst á fætur aftur. Það er því þakkarefni að þetta er ekki alvarlegra mein en það.

Kennslustundin er samt til staðar og víst að þegar þessu lýkur og Erlan fer að komast á stjá aftur munum við gera ákveðnar breytingar hjá okkur. Við munum leggja meiri áherslu á hollustu og hreyfingu því það kostar ekkert annað en nennuna að hreyfa sig úr sporunum. Það er döpur tilhugsun að sjá sig standa heilsulausan  um aldur fram og geta litið um öxl og kennt letinni í sjálfum sér um.
Maður hefur það allavega í hendi sér að koma í veg fyrir að sú tilhugsun verði að bláköldum veruleika.



1 ummæli:

Karlott sagði...

Nákvæmlega! Góð orð Erling minn!