Það var líklega árið 1965 eða 66. Lífið var leikur. Endalaust mikið um að vera hjá okkur krakkaskaranum í Kotinu. Að sjálfsögðu voru alls konar reglur sem við áttum að fara eftir, sumt mátti, annað ekki. Bannað var að láta hænurnar fljúga, ekki láta þær synda, ekki hlaupa á eftir gæsunum, ekki láta beljurnar hlaupa, ekki gefa þeim fóðurbætir, ekki klifra í klettum, ekki vaða uppfyrir, ekki fara upp á þak og ýmislegt annað sem okkur fannst voðalega vitlaust að banna okkur.
Einn góðviðrisdag með sól í hjarta vorum við Rúnar frændi minn að leika okkur saman. Við höfðum hætt okkur inn á landareign Páls á Kirkjulæk. Við vorum að leika okkur við Pálslón rétt austan við Pálsbrekku. Allt hét sínum nöfnum. Þar var skemmtilegt drullumall. Páll átti endur. Þær voru þarna í grenndinni að drullumallast eins og við. - Okkur hafði aldrei verið bannað neitt í sambandi við endurnar hans Páls svo…… þarna var tækifæri.
Við rukum af stað á eftir öndunum. Ég held að tilgangurinn hafi verið fyrst og fremst að athuga hvort þær gætu flogið. Endurnar voru feitar og komust ekkert úr sporunum og því síður að þær gætu flogið. Á endanum gafst ein þeirra upp og við náðum henni. Þetta var ótrúlega spennandi. Nú varð að taka ákvörðun um öndina. Sjálfsagt var, fyrst við vorum búnir að ná henni, að eiga hana. Samt vissum við að þetta var ekki alveg eftir bókinni og grunuðum að ekki yrðu allir ánægðir með afrekið. Því tókum við eftir spekúlasjónir, ákvörðun um framhaldið, að öndina skyldum við samt eiga, og ala hana sjálfir. Samviskan var samt ekki hreinni en svo að við vissum að ef við færum með hana heim si svona, yrðum við örugglega látnir skila henni strax og til þess var eignarrétturinn þá þegar orðinn of sterkur.
Nú upphófst mikil svaðilför með öndina undir höndum. Við óðum upp eftir læknum svo enginn sæi okkur. Alla leið upp í "Drasl" en það var skemmtilegur staður með mikið af bílhræjum sem hent hafði verið, uppáhaldsstaðurinn okkar. Þetta var þar sem lækurinn skiptir sér vestan við Skálann, sem reyndar var ekki risinn þá. Síðan lá leiðin niður eftir vestari læknum alla leið á móts við hellirinn rétt við bæinn heima hjá mér. Okkur hafði tekist að komast óséðir alla leið.
Og þarna vorum við komnir..... og öndin. Lengra hafði áætlunin ekki náð. Það var orðið áliðið og við þurftum að komast heim. Góð ráð voru dýr, ekki gátum við sleppt henni þarna, þá kæmist upp um okkur. Þarna héngum við góða stund og hugsuðum ráð okkar. Loksins urðum við sammála um að við yrðum líklegast að drepa hana.
Það snjallræði datt okkur í hug að auðveldast var að drekkja henni, svo við rúlluðum okkur niður að læk. Rúnar hélt öndinni báðum höndum og ég tók um hausinn á henni og stakk honum í kaf. Öndin spriklaði. Eftir stutta stund spurði Rúnar hvort ég héldi ekki að hún væri dauð... ég gáði, lyfti hausnum uppúr og kíkti framan í hana. Hún var sprelllifandi. Önnur tilraun og það var beðið góða stund með andarangansræfilinn á kafi. Nú hlýtur hún að vera dauð, og enn var kíkt framan í hana og sem fyrr lét hún engan bilbug á sér finna (var okkur sennilega ákaflega þakklát fyrir óþolinmæðina, því hún greip auðvitað andann í hvert skipti sem við kíktum) Í þriðja sinn reyndum við og ekkert gekk. Þá varð okkur ljóst að það var ekki hægt að drekkja öndum. Nú voru góð ráð enn dýrari, öndin var með okkur sprelllifandi og nú var orðið mjög nauðsynlegt að komast heim.
Þá komum við auga á gamlan varpkassa frá hænunum á kafi í rabarbaragarðinum. Sama hugmynd spratt upp hjá okkur báðum, þar gætum við haft hana, lokað hana þar inni og alið hana þar. Við læddumst þangað, tróðum öndinni í varpkassann og settum spýtu fyrir. Hróðugir fórum við svo heim saklausir og yndislegir garmar. Við vorum sestir inn og farnir að gæða okkur á einhverju góðgæti. Þá kemur Benni bróði minn inn og fer að tala um að hann heyri eitthvað garg úti. Fólkið fer út fyrir og allir hlusta á gargið. Það kom frá rabarbaragarðinum.....
Við vorum framlágir og skömmustulegir litlir pjakkar með gargandi önd undir hendinni sem gengum til baka, að skila henni aftur á sinn stað.
Datt í hug að setja þetta hér inn þó mínar nánustu hafi líklega heyrt á þetta minnst.
mánudagur, ágúst 29, 2005
sunnudagur, ágúst 28, 2005
Föðurland
vort er á himnum..... segir í helgri bók. Pabbi gaf mér land í Fljótshlíðinni fyrir margt löngu síðan. Einn hektari í þessari fögru sveit er minn. Skikinn minn heitir eðlilega “Föðurland”. Sveitin mín þar sem bændurnir voru ósköp venjulegir kallar sem gjarnan voru nefndir við bæinn sinn, hefur breyst. Mundi á Kvoslæk er allur, Siggi í Stöðlakoti er líka allur og Ragnar í Bollakoti ásamt fjölda annarra sem minningarnar kalla fram. Gamla sveitarómantíkin er hverfandi gæði, hraðinn og stressið nálgast óþægilega þennan fagra reit. Fljótshlíðin er orðin einn vinsælasti staður landsins til sumarhúsabyggða. Ekki nóg með það því þangað sópast aðallinn. Fljótshlíðin er “inn” í dag. Milljarðamæringarnir sem Ísland elur af sér í dag streyma í Fljótshlíðina til að kaupa lönd og byggja hallir.Ég er ekkert hrifinn af þeirri innrás, vildi heldur að þeir héldu sig við útrásina sína.
“Föðurlandið” mitt í Fljótshlíðinni ætla ég að vernda sem sveitalubbasetur. Ég ætla ekki í kapp við millana um fermetra og flottheit. Ég ætla að hafa kofann lítið og fábreytt kot, en ég ætla að panta inní hann ró og frið gamla sveitamannsins, sem er horfinn.
Ég ætla að fá mér hundrað ára klukku sem telur tímann hægt og segir mér með rólegu gamaldags slagverki hvað tímanum líður.
Og það verður notalegur gamall lesstóll á veröndinni.
Restina má Erla mín svo fylla upp með “dóti” sem henni einni er lagið að raða saman í notalega heild.
Föðurland vort, - er í Fljótshlíð í bili.
“Föðurlandið” mitt í Fljótshlíðinni ætla ég að vernda sem sveitalubbasetur. Ég ætla ekki í kapp við millana um fermetra og flottheit. Ég ætla að hafa kofann lítið og fábreytt kot, en ég ætla að panta inní hann ró og frið gamla sveitamannsins, sem er horfinn.
Ég ætla að fá mér hundrað ára klukku sem telur tímann hægt og segir mér með rólegu gamaldags slagverki hvað tímanum líður.
Og það verður notalegur gamall lesstóll á veröndinni.
Restina má Erla mín svo fylla upp með “dóti” sem henni einni er lagið að raða saman í notalega heild.
Föðurland vort, - er í Fljótshlíð í bili.
föstudagur, ágúst 26, 2005
Laugarvatnsþanki
Yndislegasti tími ársins er að renna skeiðið. Hér sit ég einn og sötra kaffið mitt í sumarbústað austur á Laugarvatni. Ég hef verið að smíða hér í fallegu iðjagrænu umhverfi. Eigendurnir, þau hjónin Magnús og Birgitta, hafa verið mikið hér með mér. Magnús hefur verið endurskoðandinn minn til margra ára. Birgitta er listakokkur og hef ég notið góðs af því, sælkerinn sjálfur. Ekki að ég hafi endilega svo gott af því, finnst ég stundum fullframstæður, en jafna mig alltaf furðufljótt á þeim þankagangi.
Haustið er að koma og brátt fara laufin að taka á sig annan blæ. Eitt og eitt þeirra er farið að roðna við tilhugsunina. Haustlitirnir, eins og þeir eru fallegir, minna á hið óumflýjanlega, vetur er handan hornsins. Tíminn heldur áfram róli sínu hvað sem öðru líður og hjól endurtekninganna snýst áfram, hring eftir hring.
Ein mannsævi er ekki svo margir hringir. Afar mínir og ömmur eru löngu horfin, sömuleiðis pabbi.
Ótrúlega mikið rétt hvað við erum eins og stráið sem vex upp að vori og fellur að hausti.
Að gleðjast yfir lífinu eins og það kemur manni fyrir sjónir er gæfa. Að kunna að sjá fegurðina í kringum mann er hamingja. Ég horfði hugfanginn á Smyril verja óðalið sitt hér í fjallinu, Hrafninn lét í minni pokann fyrir honum og snáfaði burt gargandi af pirringi, það var magnað. Eða bara horfa á dans fiðrildanna í blágresinu og fylgjast með suði fiskiflugunnar sem svo gjarnan fylgir heitum sólardögum, þau lifa ekki veturinn. þetta er lífskúnst. Góð tilhugsun að vera ekki fiðrildi. Lífið er gott, það er gjöf sem varir of stutt til að láta allt það góða sem við götuna liggur, fram hjá okkur fara.
Annað er aum mistök.
Haustið er að koma og brátt fara laufin að taka á sig annan blæ. Eitt og eitt þeirra er farið að roðna við tilhugsunina. Haustlitirnir, eins og þeir eru fallegir, minna á hið óumflýjanlega, vetur er handan hornsins. Tíminn heldur áfram róli sínu hvað sem öðru líður og hjól endurtekninganna snýst áfram, hring eftir hring.
Ein mannsævi er ekki svo margir hringir. Afar mínir og ömmur eru löngu horfin, sömuleiðis pabbi.
Ótrúlega mikið rétt hvað við erum eins og stráið sem vex upp að vori og fellur að hausti.
Að gleðjast yfir lífinu eins og það kemur manni fyrir sjónir er gæfa. Að kunna að sjá fegurðina í kringum mann er hamingja. Ég horfði hugfanginn á Smyril verja óðalið sitt hér í fjallinu, Hrafninn lét í minni pokann fyrir honum og snáfaði burt gargandi af pirringi, það var magnað. Eða bara horfa á dans fiðrildanna í blágresinu og fylgjast með suði fiskiflugunnar sem svo gjarnan fylgir heitum sólardögum, þau lifa ekki veturinn. þetta er lífskúnst. Góð tilhugsun að vera ekki fiðrildi. Lífið er gott, það er gjöf sem varir of stutt til að láta allt það góða sem við götuna liggur, fram hjá okkur fara.
Annað er aum mistök.
miðvikudagur, ágúst 24, 2005
Það er víst þannig....!
"Allir sveppir eru ætir..............sumir bara einu sinni". Sagði breskur læknir sem staddur var á Kringilsárrana í morgun, en hann fann svepp þar og át hann án þess að þekkja hann.
Skondinn.
Skondinn.
þriðjudagur, ágúst 23, 2005
Að vita meira og meira...
Skólinn byrjaður á fullu gasi. Það er ekki verið að tvínóna við hlutina í lagadeild. Manni er stökkt í lesturinn með látum. Mér lýst ágætlega á fögin þessa önnina, nema kannski þjóðarréttinn, sem mér sýnist vera óskemmtilegt fag með afbrigðum, þó ekki alveg að marka ennþá.
Skattarétturinn kemur skemmtilega á óvart. Líflegt og afar praktískt fag.
Svo sit ég einn kúrs með dóttur minni Írisi. Það er skemmtilegt og skondið um leið. Efast um að hún hafi nokkurn tíman látið sér detta í hug að hún ætti eftir að setjast á skólabekk með gamla og það í lagadeild. En svona er lífið óskrifað blað og ómögulegt að segja hvað framtíðin ber í skauti sínu, skemmtileg sinfónía.
Verð að segja frá því að um helgina átti ég afar góðan tíma með góðum vinum mínum Rúnari frænda og Yngva Rafni Yngvasyni á urriðasvæði Laxár í Aðaldal. Við veiddum ágætlega og allt á flugu. Fluguveiði er hálfgerð nýlunda hjá mér, svo þetta var hálfgerð eldskírn hjá mér, en það má ekki veiða á annað agn þarna en flugu.
Heitt var í veðri, svo heitt að bæði menn og fiskar voru í hálfgerðu móki. Enda fór ekki að veiðast fyrr en dró fyrir sólu og golaði aðeins. Það var ferskur andvari og kærkominn.
Ég hafði afar gaman af flugunni, þó ekki þeirri náttúrulegu en þær virðast halda að ég sé eina mannvera sem er æt ef þær hafa val, og eins var félagsskapurinn góður.
Ég geri mér vonir um að geta farið eitthvað meira í veiði í haust. Allavega eigum við bræðurnir eftir að kíkja eitthvað, ef að líkum lætur.
Ég gisti í íbúðinni hennar Eyglóar minnar en hún var sjálf hér fyrir sunnan. Hún er nú að leita að leigjendum að íbúðinni sinni, hún er einnig að leita að lítilli íbúð til leigu hér á höfuðborgarsvæðinu.
Jæja það er víst best að halda sér við efnið og kíkja aðeins á fjölskyldu og erfðarétt, gæti verið athyglisvert fag.
Njótið daganna
Skattarétturinn kemur skemmtilega á óvart. Líflegt og afar praktískt fag.
Svo sit ég einn kúrs með dóttur minni Írisi. Það er skemmtilegt og skondið um leið. Efast um að hún hafi nokkurn tíman látið sér detta í hug að hún ætti eftir að setjast á skólabekk með gamla og það í lagadeild. En svona er lífið óskrifað blað og ómögulegt að segja hvað framtíðin ber í skauti sínu, skemmtileg sinfónía.
Verð að segja frá því að um helgina átti ég afar góðan tíma með góðum vinum mínum Rúnari frænda og Yngva Rafni Yngvasyni á urriðasvæði Laxár í Aðaldal. Við veiddum ágætlega og allt á flugu. Fluguveiði er hálfgerð nýlunda hjá mér, svo þetta var hálfgerð eldskírn hjá mér, en það má ekki veiða á annað agn þarna en flugu.
Heitt var í veðri, svo heitt að bæði menn og fiskar voru í hálfgerðu móki. Enda fór ekki að veiðast fyrr en dró fyrir sólu og golaði aðeins. Það var ferskur andvari og kærkominn.
Ég hafði afar gaman af flugunni, þó ekki þeirri náttúrulegu en þær virðast halda að ég sé eina mannvera sem er æt ef þær hafa val, og eins var félagsskapurinn góður.
Ég geri mér vonir um að geta farið eitthvað meira í veiði í haust. Allavega eigum við bræðurnir eftir að kíkja eitthvað, ef að líkum lætur.
Ég gisti í íbúðinni hennar Eyglóar minnar en hún var sjálf hér fyrir sunnan. Hún er nú að leita að leigjendum að íbúðinni sinni, hún er einnig að leita að lítilli íbúð til leigu hér á höfuðborgarsvæðinu.
Jæja það er víst best að halda sér við efnið og kíkja aðeins á fjölskyldu og erfðarétt, gæti verið athyglisvert fag.
Njótið daganna
þriðjudagur, ágúst 16, 2005
sunnudagur, ágúst 14, 2005
Töðugjöldin
á Hellu, ollu mér vonbrigðum. Búið er að færa þetta af Gaddastaðaflötum, inní bæinn. Það var ekki til bóta. Aðstaðan var verri.
Hagyrðingar stigu á stall. Þeir voru fljúgandi færir en misstu marks vegna neðanmittisáherslu í kveðskap sínum. Þeir fóru langt yfir strikið. Ekki var um tvíræðni að ræða heldur klám.
Árni Johnsen náði ekki sömu stemningu og í fyrra. Raulið hans sem ekki fær háa söngfagurfræðilega einkunn, náði varla til áheyrenda svo langt var í sviðið frá mannskapnum, kannski var þetta gert af ásettu ráði mótshaldara svo hann næði ekki til áheyrenda ef hann vildi fara að heilsa að sjómannasið. Raggi Bjarna og Þorvaldur Ástvaldsson reyndu að ná upp stemningunni en tókst það trauðla. Það var svo gamla kempan Ómar Ragnarsson sem kom sá og sigraði, hljóp meira að segja óvænt í skarðið fyrir Guðrúnu Gunnarsdóttur sem forfallaðist. Hann fór algerlega á kostum.
Annars vorum við á Fitinni um helgina, erum farin að kunna svo vel við kyrrðina og róna í sveitinni. Hittum marga og áttum skemmtilega og afslappandi helgi.
Nú er bara vika í að síðasta skólaárið hefji göngu sína. BA próf í vor. Er líka nánast búinn að taka ákvörðun um að mastersgráðan verður tekin strax á næsta ári í beinu framhaldi.
Njótið daganna vinir.
Hagyrðingar stigu á stall. Þeir voru fljúgandi færir en misstu marks vegna neðanmittisáherslu í kveðskap sínum. Þeir fóru langt yfir strikið. Ekki var um tvíræðni að ræða heldur klám.
Árni Johnsen náði ekki sömu stemningu og í fyrra. Raulið hans sem ekki fær háa söngfagurfræðilega einkunn, náði varla til áheyrenda svo langt var í sviðið frá mannskapnum, kannski var þetta gert af ásettu ráði mótshaldara svo hann næði ekki til áheyrenda ef hann vildi fara að heilsa að sjómannasið. Raggi Bjarna og Þorvaldur Ástvaldsson reyndu að ná upp stemningunni en tókst það trauðla. Það var svo gamla kempan Ómar Ragnarsson sem kom sá og sigraði, hljóp meira að segja óvænt í skarðið fyrir Guðrúnu Gunnarsdóttur sem forfallaðist. Hann fór algerlega á kostum.
Annars vorum við á Fitinni um helgina, erum farin að kunna svo vel við kyrrðina og róna í sveitinni. Hittum marga og áttum skemmtilega og afslappandi helgi.
Nú er bara vika í að síðasta skólaárið hefji göngu sína. BA próf í vor. Er líka nánast búinn að taka ákvörðun um að mastersgráðan verður tekin strax á næsta ári í beinu framhaldi.
Njótið daganna vinir.
sunnudagur, ágúst 07, 2005
Alltaf jafn heillaður....
“Ísland er land þitt því aldrei skalt gleyma” Við vorum á Fitinni um helgina í vagninum okkar.
Í gær (laugardag) fórum við í jeppaleiðangur. Við fórum með tveimur bræðrum mínum, Hlyn og Hansa ásamt þeirra fríða föruneyti. Leiðin sem við fórum er kölluð Fljótshlíðarhringurinn. Þá er farið áleiðis inn á fjallabaksleið syðri austur fyrir Heklu og þaðan til hægri í átt að Hungurfit. Hungurfit ber líklega nafn sitt vegna beitarleysis á svæðinu. Þaðan fórum við að Hvítmögu og að upptökum Markarfljóts.
Þar er fljótið tært og fullt af silungi. Við bræðurnir bleyttum auðvitað færi. Ekki fékk ég nú fisk en Hansi og Hlynur fengu báðir, hrmpff.
Það var reyndar aukaatriði þar sem þetta var jeppaferð en ekki veiðiferð. Frá Hvítmögu fórum við leið sem er hreinræktuð jeppaleið, Fljótshlíðarafréttur, og engin leið að koma fólksbíl þar. Brattar brekkur, fjöll, ár og gilskorningar. Þetta var ævintýralega gaman og stórfenglegt að skoða "Fljótshlíðsku" fjöllin, gamlar gangnamannaslóðir og jafnvel kofana (hellana) sem þeir gistu í göngum. Þetta var frábær ferð sem mun lengi verða í minnum höfð. Við enduðum svo ferðina á að grilla öll saman heima hjá Hansa.
Í nótt hvessti svakalega og rigndi svo ekki var nú mjög svefnsamt í vagninum. Við fórum snemma framúr og felldum fortjaldið en leyfðum vagninum sjálfum að standa. Hann mun bíða spenntur eftir okkur næstu helgi en þá ætlum við enn að fara á Fitina. Hugmyndin er að fara á töðugjöld á Hellu. Fórum í fyrra og höfðum gaman af. Það er fjölskylduhátíð með þjóðlegum blæ eins og nafnið bendir til. Kveðnar stemmur, hagyrðingakeppni og margt fleira í þeim dúr.
Hef annars verið að smíða austur á Laugarvatni. Þangað er ferðinni heitið á morgun. Það verður að vera til fyrir saltinu í grautinn.
Njótið daganna
Í gær (laugardag) fórum við í jeppaleiðangur. Við fórum með tveimur bræðrum mínum, Hlyn og Hansa ásamt þeirra fríða föruneyti. Leiðin sem við fórum er kölluð Fljótshlíðarhringurinn. Þá er farið áleiðis inn á fjallabaksleið syðri austur fyrir Heklu og þaðan til hægri í átt að Hungurfit. Hungurfit ber líklega nafn sitt vegna beitarleysis á svæðinu. Þaðan fórum við að Hvítmögu og að upptökum Markarfljóts.
Þar er fljótið tært og fullt af silungi. Við bræðurnir bleyttum auðvitað færi. Ekki fékk ég nú fisk en Hansi og Hlynur fengu báðir, hrmpff.
Það var reyndar aukaatriði þar sem þetta var jeppaferð en ekki veiðiferð. Frá Hvítmögu fórum við leið sem er hreinræktuð jeppaleið, Fljótshlíðarafréttur, og engin leið að koma fólksbíl þar. Brattar brekkur, fjöll, ár og gilskorningar. Þetta var ævintýralega gaman og stórfenglegt að skoða "Fljótshlíðsku" fjöllin, gamlar gangnamannaslóðir og jafnvel kofana (hellana) sem þeir gistu í göngum. Þetta var frábær ferð sem mun lengi verða í minnum höfð. Við enduðum svo ferðina á að grilla öll saman heima hjá Hansa.
Í nótt hvessti svakalega og rigndi svo ekki var nú mjög svefnsamt í vagninum. Við fórum snemma framúr og felldum fortjaldið en leyfðum vagninum sjálfum að standa. Hann mun bíða spenntur eftir okkur næstu helgi en þá ætlum við enn að fara á Fitina. Hugmyndin er að fara á töðugjöld á Hellu. Fórum í fyrra og höfðum gaman af. Það er fjölskylduhátíð með þjóðlegum blæ eins og nafnið bendir til. Kveðnar stemmur, hagyrðingakeppni og margt fleira í þeim dúr.
Hef annars verið að smíða austur á Laugarvatni. Þangað er ferðinni heitið á morgun. Það verður að vera til fyrir saltinu í grautinn.
Njótið daganna
þriðjudagur, ágúst 02, 2005
Takk fyrir það...
Ferðahelgin sem svo oft hefur tekið þungbæran toll er liðin – án teljandi óhappa. Það er þakkarvert. Bæði Guði - og löggunni. Þær hafa vægi auglýsingarnar. Umferðaryfirvöldum virðist hafa tekist að fá landann til að hugsa um hraðann, sýnist manni. Allavega keyrðum við í bílaröð í bæinn þar sem nánast enginn virtist vera að æða framúr eins og vitleysingur, eins og stundum er. Það er gott.
Við áttum rólegri verslunarmannahelgi en við höfum nokkurntíman átt áður. Við þekkjum betur að koma örþreytt heim eftir þessa helgi en svona endurnærð og ánægð. Sú var nefnilega tíðin að þessar helgar voru mikill annatími hjá okkur. Það var þegar við stýrðum Kotmótum um nokkurra ára skeið. Nú dvöldum við á Fitinni í faðmi náttúrunnar í okkar ágæta tjaldvagni og kíktum ekki einu sinni á Kotmót. Við misstum meira að segja af "Kotvision" sem er orðinn hápunktur Kotmóta, að sögn. Við dvöldum þar í góðum félagsskap dætra okkar, mannanna þeirra og afastelpnanna ásamt systkinum mínum og annarra vina sem heimsóttu okkur.
Helgin leið hratt og við nutum okkar vel. Við tókum góðan tíma í að ferðast og fórum m.a. inn á Emstrur. Það var gaman eins og alltaf. Markarfljótsgljúfur eru vafalaust hrikalegustu gljúfur landsins. Manni svimar vel ef maður kíkir niður af brúninni. Ótrúleg náttúrusmíð. Sólin skein glatt á fjöllum þó það rigndi í Fljótshlíðinni.
Þarna innfrá keyrðum við fram á bílinn hans Hansa bróður míns og Gumma og Júlíönu dóttur hans. Þau voru á göngu þarna í átt að Tindfjöllum, þau voru að skoða “Kerið” náttúrusmíð sem á fáa sína líka á Íslandi. Svo hittum við fleiri. Hjalli og Sigrún voru þarna líka á flandrinu á sínum fína jeppa, það var gaman að hittast svona óvænt – á fjöllum.
Við skruppum líka austur á Vík. Þar var íþróttalandsmót, sjö þúsund manna. Við vorum að skoða hús sem þar er til sölu. Ódýrt hús sem hægt væri að leigja ferðamönnum eða verkalýðsfélögunum fyrir félagsmenn sína, bara hugmynd, en fæðist ekki allt þannig.
Hlynur veiddi í tjörninni hans Hjalla þann stærsta urriða sem ég hef séð, 16 pund. Hnöttóttur af spiki, hann hefur sennilega lifað góðu lífi á félögum sínum í tjörninni.
Við enduðum helgina samt eins og vanalega með heimsókn til Gylfa og Christinu.
Þau tóku vel á móti okkur með vöfflum og rjóma eins og við var að búast af þeim.
Góð helgi.
Við áttum rólegri verslunarmannahelgi en við höfum nokkurntíman átt áður. Við þekkjum betur að koma örþreytt heim eftir þessa helgi en svona endurnærð og ánægð. Sú var nefnilega tíðin að þessar helgar voru mikill annatími hjá okkur. Það var þegar við stýrðum Kotmótum um nokkurra ára skeið. Nú dvöldum við á Fitinni í faðmi náttúrunnar í okkar ágæta tjaldvagni og kíktum ekki einu sinni á Kotmót. Við misstum meira að segja af "Kotvision" sem er orðinn hápunktur Kotmóta, að sögn. Við dvöldum þar í góðum félagsskap dætra okkar, mannanna þeirra og afastelpnanna ásamt systkinum mínum og annarra vina sem heimsóttu okkur.
Helgin leið hratt og við nutum okkar vel. Við tókum góðan tíma í að ferðast og fórum m.a. inn á Emstrur. Það var gaman eins og alltaf. Markarfljótsgljúfur eru vafalaust hrikalegustu gljúfur landsins. Manni svimar vel ef maður kíkir niður af brúninni. Ótrúleg náttúrusmíð. Sólin skein glatt á fjöllum þó það rigndi í Fljótshlíðinni.
Þarna innfrá keyrðum við fram á bílinn hans Hansa bróður míns og Gumma og Júlíönu dóttur hans. Þau voru á göngu þarna í átt að Tindfjöllum, þau voru að skoða “Kerið” náttúrusmíð sem á fáa sína líka á Íslandi. Svo hittum við fleiri. Hjalli og Sigrún voru þarna líka á flandrinu á sínum fína jeppa, það var gaman að hittast svona óvænt – á fjöllum.
Við skruppum líka austur á Vík. Þar var íþróttalandsmót, sjö þúsund manna. Við vorum að skoða hús sem þar er til sölu. Ódýrt hús sem hægt væri að leigja ferðamönnum eða verkalýðsfélögunum fyrir félagsmenn sína, bara hugmynd, en fæðist ekki allt þannig.
Hlynur veiddi í tjörninni hans Hjalla þann stærsta urriða sem ég hef séð, 16 pund. Hnöttóttur af spiki, hann hefur sennilega lifað góðu lífi á félögum sínum í tjörninni.
Við enduðum helgina samt eins og vanalega með heimsókn til Gylfa og Christinu.
Þau tóku vel á móti okkur með vöfflum og rjóma eins og við var að búast af þeim.
Góð helgi.
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)