þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Að vita meira og meira...

Skólinn byrjaður á fullu gasi. Það er ekki verið að tvínóna við hlutina í lagadeild. Manni er stökkt í lesturinn með látum. Mér lýst ágætlega á fögin þessa önnina, nema kannski þjóðarréttinn, sem mér sýnist vera óskemmtilegt fag með afbrigðum, þó ekki alveg að marka ennþá.
Skattarétturinn kemur skemmtilega á óvart. Líflegt og afar praktískt fag.
Svo sit ég einn kúrs með dóttur minni Írisi. Það er skemmtilegt og skondið um leið. Efast um að hún hafi nokkurn tíman látið sér detta í hug að hún ætti eftir að setjast á skólabekk með gamla og það í lagadeild. En svona er lífið óskrifað blað og ómögulegt að segja hvað framtíðin ber í skauti sínu, skemmtileg sinfónía.

Verð að segja frá því að um helgina átti ég afar góðan tíma með góðum vinum mínum Rúnari frænda og Yngva Rafni Yngvasyni á urriðasvæði Laxár í Aðaldal. Við veiddum ágætlega og allt á flugu. Fluguveiði er hálfgerð nýlunda hjá mér, svo þetta var hálfgerð eldskírn hjá mér, en það má ekki veiða á annað agn þarna en flugu.
Heitt var í veðri, svo heitt að bæði menn og fiskar voru í hálfgerðu móki. Enda fór ekki að veiðast fyrr en dró fyrir sólu og golaði aðeins. Það var ferskur andvari og kærkominn.
Ég hafði afar gaman af flugunni, þó ekki þeirri náttúrulegu en þær virðast halda að ég sé eina mannvera sem er æt ef þær hafa val, og eins var félagsskapurinn góður.
Ég geri mér vonir um að geta farið eitthvað meira í veiði í haust. Allavega eigum við bræðurnir eftir að kíkja eitthvað, ef að líkum lætur.
Ég gisti í íbúðinni hennar Eyglóar minnar en hún var sjálf hér fyrir sunnan. Hún er nú að leita að leigjendum að íbúðinni sinni, hún er einnig að leita að lítilli íbúð til leigu hér á höfuðborgarsvæðinu.

Jæja það er víst best að halda sér við efnið og kíkja aðeins á fjölskyldu og erfðarétt, gæti verið athyglisvert fag.

Njótið daganna

1 ummæli:

Íris sagði...

Mér finnst bara mjög gaman að sitja með þér á skólabekk í lagadeild!! Það verður gaman þegar við verðum bæði útskrifaðir lögmenn og förum að tala um málin sem í gangi eru í þjóðfélaginu!!