Ferðahelgin sem svo oft hefur tekið þungbæran toll er liðin – án teljandi óhappa. Það er þakkarvert. Bæði Guði - og löggunni. Þær hafa vægi auglýsingarnar. Umferðaryfirvöldum virðist hafa tekist að fá landann til að hugsa um hraðann, sýnist manni. Allavega keyrðum við í bílaröð í bæinn þar sem nánast enginn virtist vera að æða framúr eins og vitleysingur, eins og stundum er. Það er gott.
Við áttum rólegri verslunarmannahelgi en við höfum nokkurntíman átt áður. Við þekkjum betur að koma örþreytt heim eftir þessa helgi en svona endurnærð og ánægð. Sú var nefnilega tíðin að þessar helgar voru mikill annatími hjá okkur. Það var þegar við stýrðum Kotmótum um nokkurra ára skeið. Nú dvöldum við á Fitinni í faðmi náttúrunnar í okkar ágæta tjaldvagni og kíktum ekki einu sinni á Kotmót. Við misstum meira að segja af "Kotvision" sem er orðinn hápunktur Kotmóta, að sögn. Við dvöldum þar í góðum félagsskap dætra okkar, mannanna þeirra og afastelpnanna ásamt systkinum mínum og annarra vina sem heimsóttu okkur.
Helgin leið hratt og við nutum okkar vel. Við tókum góðan tíma í að ferðast og fórum m.a. inn á Emstrur. Það var gaman eins og alltaf. Markarfljótsgljúfur eru vafalaust hrikalegustu gljúfur landsins. Manni svimar vel ef maður kíkir niður af brúninni. Ótrúleg náttúrusmíð. Sólin skein glatt á fjöllum þó það rigndi í Fljótshlíðinni.
Þarna innfrá keyrðum við fram á bílinn hans Hansa bróður míns og Gumma og Júlíönu dóttur hans. Þau voru á göngu þarna í átt að Tindfjöllum, þau voru að skoða “Kerið” náttúrusmíð sem á fáa sína líka á Íslandi. Svo hittum við fleiri. Hjalli og Sigrún voru þarna líka á flandrinu á sínum fína jeppa, það var gaman að hittast svona óvænt – á fjöllum.
Við skruppum líka austur á Vík. Þar var íþróttalandsmót, sjö þúsund manna. Við vorum að skoða hús sem þar er til sölu. Ódýrt hús sem hægt væri að leigja ferðamönnum eða verkalýðsfélögunum fyrir félagsmenn sína, bara hugmynd, en fæðist ekki allt þannig.
Hlynur veiddi í tjörninni hans Hjalla þann stærsta urriða sem ég hef séð, 16 pund. Hnöttóttur af spiki, hann hefur sennilega lifað góðu lífi á félögum sínum í tjörninni.
Við enduðum helgina samt eins og vanalega með heimsókn til Gylfa og Christinu.
Þau tóku vel á móti okkur með vöfflum og rjóma eins og við var að búast af þeim.
Góð helgi.
2 ummæli:
Mikið vildi ég óska þess að ég hefði getað verið með ykkur um helgina.. Mig langaði það SVO mikið! Gott að þið skemmtuð ykkur vel og ég hlakka til eftir ár því að þá fæ ég að vera með :) Hafðu það gott elsku pabbi og ég bið að heilsa mömmu :)Þín Eygló
Það var rosalega gaman að hittast þarna á Fitinni, ætti að vera árlegt!!
Skrifa ummæli