sunnudagur, ágúst 07, 2005

Alltaf jafn heillaður....

“Ísland er land þitt því aldrei skalt gleyma” Við vorum á Fitinni um helgina í vagninum okkar.
Í gær (laugardag) fórum við í jeppaleiðangur. Við fórum með tveimur bræðrum mínum, Hlyn og Hansa ásamt þeirra fríða föruneyti. Leiðin sem við fórum er kölluð Fljótshlíðarhringurinn. Þá er farið áleiðis inn á fjallabaksleið syðri austur fyrir Heklu og þaðan til hægri í átt að Hungurfit. Hungurfit ber líklega nafn sitt vegna beitarleysis á svæðinu. Þaðan fórum við að Hvítmögu og að upptökum Markarfljóts.



Þar er fljótið tært og fullt af silungi. Við bræðurnir bleyttum auðvitað færi. Ekki fékk ég nú fisk en Hansi og Hlynur fengu báðir, hrmpff.
Það var reyndar aukaatriði þar sem þetta var jeppaferð en ekki veiðiferð. Frá Hvítmögu fórum við leið sem er hreinræktuð jeppaleið, Fljótshlíðarafréttur, og engin leið að koma fólksbíl þar. Brattar brekkur, fjöll, ár og gilskorningar. Þetta var ævintýralega gaman og stórfenglegt að skoða "Fljótshlíðsku" fjöllin, gamlar gangnamannaslóðir og jafnvel kofana (hellana) sem þeir gistu í göngum. Þetta var frábær ferð sem mun lengi verða í minnum höfð. Við enduðum svo ferðina á að grilla öll saman heima hjá Hansa.

Í nótt hvessti svakalega og rigndi svo ekki var nú mjög svefnsamt í vagninum. Við fórum snemma framúr og felldum fortjaldið en leyfðum vagninum sjálfum að standa. Hann mun bíða spenntur eftir okkur næstu helgi en þá ætlum við enn að fara á Fitina. Hugmyndin er að fara á töðugjöld á Hellu. Fórum í fyrra og höfðum gaman af. Það er fjölskylduhátíð með þjóðlegum blæ eins og nafnið bendir til. Kveðnar stemmur, hagyrðingakeppni og margt fleira í þeim dúr.

Hef annars verið að smíða austur á Laugarvatni. Þangað er ferðinni heitið á morgun. Það verður að vera til fyrir saltinu í grautinn.

Njótið daganna

Engin ummæli: