sunnudagur, október 22, 2006

VANDAMÁLATRÉÐ

Smiðurinn sem ég réð til að hjálpa mér að gera upp gamalt sveitabýli, hafði nýlokið erfiðum fyrsta degi í vinnunni.
Hann var klukkutíma of seinn í vinnuna vegna þess að það sprakk dekk á bílnum, rafmagnssögin hans gafst upp, og nú neitaði pallbíllinn hans að fara í gang.
Meðan ég keyrði hann heim, sat hann við hlið mér í steingerðri þögn.
Þegar við vorum komnir, bauð hann mér inn til að hitta fjölskylduna.
Þar sem við gengum að útidyrunum, stoppaði hann stuttlega við lítið tré og snerti trjágreinarnar með báðum höndum.
Eftir að hann opnaði hurðina, varð á honum undursamleg breyting. Sólbrúnt andlit hans rifnaði í brosi og hann faðmaði börnin sín tvö og kyssti konuna sína.
Seinna gekk hann með mér að bílnum mínum. Við gengum framhjá trénu og forvitnin náði tökum á mér.
Ég spurði hann um það sem ég hafði séð hann gera fyrr um kvöldið.
"Æ, þetta er vandamálatréð mitt," svaraði hann. "Ég veit að ég kemst ekki hjá vandamálum í vinnunni, en það er eitt sem víst er, að þau eiga ekki heima á heimili mínu hjá konu minni og börnum. Þannig að ég hengi þau á tréð þegar ég kem heim á kvöldin. Síðan tek ég þau aftur af trénu á morgnana."
"Það skrýtna er," sagði hann og brosti, "að þegar ég kem út á morgnana og tek þau upp, þá eru þau ekki næstum eins mörg og mig minnti að ég hefði hengt upp kvöldið áður."
Ókunnur höfundur.

Þetta er góður boðskapur sem ég rakst á. Hreiðrið á ekki að vera vettvangur vandamála heldur gróðurvin í eyðimörk.

laugardagur, október 21, 2006

Veiðiferð eða fjallganga.....?

Að standa á tindinum opinmynntur og skjálfandi yfir hrikalegu útsýninu og fegurðinni er eitthvað sem ekki er gott að koma í orð, tifinningin er eiginlega ólýsanleg.

Við bræðurnir ég og Hlynur höfum haft það til siðs undanfarin ár að fara í tveggja daga veiðiferð einu sinni á hverju hausti. Við gengum til rjúpna á fimmtudaginn. Ferðin lá á Tindfjallasvæðið. Tindfjöll eru hrikalegri en þau virðast úr fjarlægð.

Þau urðu til í gríðarlegu þeytigosi líkt og St Helena. Við gengum vígreifir af stað austan við fjallgarðinn skimandi eftir rjúpum, án þess að svo mikið sem sjá fugl.

Eftir langt labb og svita gengum við að fossi álengdar til að næra okkur aðeins. Með byssurnar á bakinu, óviðbúnir, lá við að við stigum ofan á rjúpu sem hnipraði sig þar niður. Hún var spök og flaug ekki fyrr en undan skónum okkar.
Við horfðum á eftir greyinu enda ekki hægt að vera að drepa svona fallega fugla…!


Þegar við vorum komnir í 800 metra hæð breyttum við veiðiferðinni í fjallgöngu. Ákvörðun fæddist að komast á tindinn.

Það var gríðarsterkur norðanvindur sem æddi niður hlíðarnar í fangið á okkur. Þegar við komumst upp á brúnina var rokið svo mikið að það stóð sand- og steinahríðin upp snarbratt fjallið hinum megin. Á þessari mynd sést vel hvernig "flikruberg" lítur út, sem myndaðist í þessu þeytigosi. Þetta finnst víða á svæðinu m.a. í Þórsmörk.
Upphafsorð þessa pistils var tilfinningin sem greip mig þegar útsýnið hinumegin blasti við. Það var algerlega magnað að sjá. Líparítfjöll sem ekki sjást af láglendi. Fegurð og hrikaleiki í fullkomnu jafnvægi. Ég stóð eins og negldur með sandhríðina í andlitið og góndi….og tók myndir.


Það er nú samt þannig að myndirnar grípa ekki stórfengleikann. Sandstormurinn, sem gerði allt útsýni móðukennt og dularfullt kemur ekki fram.

Hér er sitjandi maður í 1100 metra hæð....!



Sólin settist, undarlega loðinn eldhnöttur í sandbyl.

Föstudagurinn var fengsælli. Reyndar veiddist ekkert kvikt með heitu blóði en ágætlega af köldu.

Það má segja að veiðiferðin þetta árið falli frekar undir útsýnis- og fjallgöngu. Allavega er ekki ofsögum sagt að svona samvera og útivist er gott fyrir sálina og styrkir bræðraböndin.

Mæli með þessu.

laugardagur, október 14, 2006

Veðrið

Hér gekk yfir aftakaveður í nótt. Svo hvasst að ána skóf eins og snjó. Ein tertan sem geymd var á pallinum tók sig á loft og splundraðist í frumeindir sínar. Ljónin mín duttu af stalli og brotnuðu - arrgh. Ég var ekki ánægður með sjálfan mig því elskuleg konan mín spurði manninn sinn í gærkvöld hvort ekki væri öruggara að taka þau inn. Ég lifti fingri af stakri snilld til að kanna veðurstöðuna og tók síðan þá frómu ákvörðun að þau væru í skjóli. Sem var rétt, en hann blæs ekki endilega af sömu átt yfir heila nótt hér á klakanum.
Fúll út í sjálfan mig týndi ég saman ljónabrotin í morgun ákveðinn í að þau skulu viðgerð en ekki hent.
Núna er eins og áin renni upp í mót því öldugangurinn er eins og hafsjór upp í móti straumnum.
Húsið við ána stóð veðrið vel af sér eins og við var að búast. Hér inni er hlýtt og notalegt í öruggu skjóli.
Annars er allt fínt héðan. Arna gisti hér með litlu stelpukrútttin sín. Við eigum von á gestum í dag til að halda upp á afmæli Þóreyjar Erlu, en hún verður eins árs 17. október. Til hamingju með það litla gull.
Hún er mikill gleðigjafi inn í líf okkar eins og allar hinar stelpurnar líka.
Við ætlum að njóta samverunnar hér, enda er maður manns gaman eins og stendur.....!

sunnudagur, október 08, 2006

Brúðkaup í fjölskyldunni.

Það var hátíðardagur hjá okkur í gær. Eygló gekk í heilagt hjónaband. Sá heppni Björn Ingi (Bjössi) var lukkulegur með brúðina sína enda falleg með afbrigðum. Hún klæddist brúðarkjól mömmu sinnar sem síðast var notaður þegar við gengum upp að altarinu sjálf. Athöfnin fór vel fram. Teddi var presturinn og gerði þetta vel eins og við var að búast.
Það er sértstök tilfinning að ganga með dóttur sína þessa leið og gefa hana öðrum manni. Þá er gott að vera ánægður með ráðahaginn. Ég hef ekki heyrt annað en gott eitt um Bjössa hjá þeim sem til hans þekkja. Svo Bjössi minn þú er velkominn í mína ört stækkandi fjölskyldu. ”Viðtalið” var bara grín. Þetta er gert til að tilvonandi tengdasonur beri hæfilega virðingu fyrir verðandi tengdapabba.

Veislan var á fallegum stað undir Ingólfsfjalli sem nefnist Básinn. Ég hafði sagt þeim sem staðinn reka að við vildum hafa nóg af öllu og þjónustuna góða. Það stóðst allt og gott betur. Maturinn var virkilega góður og þjónustan eins og best verður á kosið, fólkið þægilegt og viljugt. Ég var ánægður með alla þætti og mæli hér með hiklaust með staðnum. Valdi Júl stýrði veislunni fyrir okkur og gerði það vel. Hildur systir bakaði kransakökuna og Ella tengdamamma brúðartertuna. Christina skreytti salinn og má ég til með að segja það hér að eigandinn hafði sérstakt orð á því hvað salurinn væri vel skreyttur. Reyndar bætti hann við íbygginn á svip að hann yrði nú bara ð segja að hann myndi ekki eftir jafnfallegu brúðkaupi í þessu húsi – gaman að því. Eins var starfsfólkið að ræða við okkur eftir veisluna, þau sögðu að þeim hafði fundist þetta svo fallegt brúðkaup að þau hefðu verðið með tárin í augunum frammi í eldhúsi – "svona eiga brúðkaup að vera" sagði ein þeirra að lokum, "við erum vanari því að fólk viti varla hvað það er að segja því drykkjan er orðin svo mikil í brúðkaupum". Það var gaman að fá þessi komment frá þeim.
Tengdasonurinn sagði svo nokkur þakkarorð í lok veislunnar og setti lag undir geislann og svo dönsuðu þau undir ljúfum ástarsöng áður en þau yfirgáfu staðinn.

Ég vil hér með færa þakkir til þeirra sem lögðu hönd á plóginn til að þetta gæti orðið eins ánægjulegt og raun varð. Það er frábært að eiga svona góða að, hrein og klár lífsgæði.

Ég er svo að fara í ferðalag á eftir að sækja þau hjónin á hótelið sem þau gistu í nótt. Ég var viss um að það væri Hótel Rangá en dóttir mín er búin að hringja í föður sinn og segja honum hvar þau eru – það er ekki Hótel Rangá heldur Hótel Geysir.....!