Að standa á tindinum opinmynntur og skjálfandi yfir hrikalegu útsýninu og fegurðinni er eitthvað sem ekki er gott að koma í orð, tifinningin er eiginlega ólýsanleg.
Við bræðurnir ég og Hlynur höfum haft það til siðs undanfarin ár að fara í tveggja daga veiðiferð einu sinni á hverju hausti. Við gengum til rjúpna á fimmtudaginn. Ferðin lá á Tindfjallasvæðið. Tindfjöll eru hrikalegri en þau virðast úr fjarlægð.
Þau urðu til í gríðarlegu þeytigosi líkt og St Helena. Við gengum vígreifir af stað austan við fjallgarðinn skimandi eftir rjúpum, án þess að svo mikið sem sjá fugl.
Eftir langt labb og svita gengum við að fossi álengdar til að næra okkur aðeins. Með byssurnar á bakinu, óviðbúnir, lá við að við stigum ofan á rjúpu sem hnipraði sig þar niður. Hún var spök og flaug ekki fyrr en undan skónum okkar.
Við horfðum á eftir greyinu enda ekki hægt að vera að drepa svona fallega fugla…!
Þegar við vorum komnir í 800 metra hæð breyttum við veiðiferðinni í fjallgöngu. Ákvörðun fæddist að komast á tindinn.
Það var gríðarsterkur norðanvindur sem æddi niður hlíðarnar í fangið á okkur. Þegar við komumst upp á brúnina var rokið svo mikið að það stóð sand- og steinahríðin upp snarbratt fjallið hinum megin. Á þessari mynd sést vel hvernig "flikruberg" lítur út, sem myndaðist í þessu þeytigosi. Þetta finnst víða á svæðinu m.a. í Þórsmörk.
Upphafsorð þessa pistils var tilfinningin sem greip mig þegar útsýnið hinumegin blasti við. Það var algerlega magnað að sjá. Líparítfjöll sem ekki sjást af láglendi. Fegurð og hrikaleiki í fullkomnu jafnvægi. Ég stóð eins og negldur með sandhríðina í andlitið og góndi….og tók myndir.
Það er nú samt þannig að myndirnar grípa ekki stórfengleikann. Sandstormurinn, sem gerði allt útsýni móðukennt og dularfullt kemur ekki fram.
Hér er sitjandi maður í 1100 metra hæð....!
Sólin settist, undarlega loðinn eldhnöttur í sandbyl.
Föstudagurinn var fengsælli. Reyndar veiddist ekkert kvikt með heitu blóði en ágætlega af köldu.
Það má segja að veiðiferðin þetta árið falli frekar undir útsýnis- og fjallgöngu. Allavega er ekki ofsögum sagt að svona samvera og útivist er gott fyrir sálina og styrkir bræðraböndin.
Mæli með þessu.
1 ummæli:
Vá hvað þetta "lesist" svaka spennandi hjá ykkur!
Hlýtur að vera rosalegt að vera svona hátt uppi og sjá yfir allt!
Gott hjá ykkur að hafa svona hefð!!
Skrifa ummæli