Ég sit hér einn á neðri hæðinni með kaffibollann minn og horfi á kalt útsýni yfir ána. Það er frost og logn, afskaplega fallegt og friðsælt en frekar kuldalegt. Drottningin á bænum er ennþá sofandi þótt komið sé langt fram á morgun.
Áin er frekar mikil ennþá eftir rigningar undanfarinna daga. Það er ótrúlegt hvað hún skiptir oft um svip. Það fer eftir veðri fyrst og fremst. Í kulda verður hún sakleysisleg og blá en á það til að ýfa sig og verða skapvond þegar veðrið er blautt og hlýtt enda er hún jökulvatn að helming að minnsta kosti.
Það er gaman að hafa hana svona við túnfótinn og sjá tilbrigði hennar svona mörg og ólík. Eitt sem hefur komið á óvart, hún virðist vera mikil matarkista. Allavega hefur mikil fuglaflóra verið á ánni í allt sumar og langt fram á haust. Sérstaklega hefur verið fallegt að fylgjast með álftunum sem fljúga hér upp og niður eftir ánni. Þær speglast svo fallega þegar þær fljúga bara rétt ofan við vatnsborðið, líkast og þær renni sér eftir vatnsborðinu.
Nokkur gæsapör áttu varp hér í hólmanum framanvið í sumar. Það var gaman að heyra værðarhljóðin í þeim á hreiðrunum, sérstaklega á næturnar því hljóðið berst auðveldlega til okkar yfir vatnsflötinn. Þær hafa sennilega verið í rómantískum hugleiðingum að njóta hinna björtu sumarnótta við þetta mikla vatnsfall.
Eitthvað lífsmark á efri hæðinni heyri ég, mér heyrist drottningin vera að vakna til lífsins. Ég ætla að hella upp á nýtt kaffi fyrir hana. Ég held henni finnist notalegt að finna kaffi ilm þegar hún kemur niður eftir langan svefn.
Arna kemur á eftir með litlu afastelpurnar mínar og verður hér í dag. Alltaf gaman að fá þær í heimsókn. Daníu Rut fer svo mikið fram þessa dagana, hún talar meira og meira og er farin að syngja texta. Dugleg stúlkan sú.
Ég er að gera upp við mig hvort ég á að taka þennan dag allan í svona rólegheit eða hvort ég ætti að skella mér í að skipta um glugga í eldhúsinu. Ég er búinn að smíða nýjan stóran glugga sem bíður þess eins að verða settur á sinn stað. Ég er að þessu vegna útsýnisins frá þessu horni í eldhúsinu sem verður alveg stórkostlegt, en sést ekki nógu vel eins og þetta er núna, í gegnum lítið opnanlegt fag, ofarlega á vegg.
Jæja, læt þetta nægja af þessu morgunhugarflugi þar sem hennar hátign er að koma niður stigann og ég ætla að eiga smá notalegheit með henni og nýja kaffinu.
Njótið dagsins.
2 ummæli:
Þetta er svooo meiriháttar! Ég samgleðst ykkur svo rosalega að vera komin með gott kot í sveitinni sem þið njótið ykkar vel í!
Hlakka til að kíkja í heimsókn næst!
Takk fyrir samveruna um helgina. Þið mamma eruð bara frábær og alltaf gott að koma heim til hingað. Það er svo yfirmáta notalegt og afstressandi. Sjáumst hress næst, þín næstyngsta.. Arna
Skrifa ummæli