miðvikudagur, mars 14, 2007

Frændi minn heitinn....

...Kristján Magnússon móðurbróðir var góður hagyrðingur og sérlega mikill vinur mömmu. Hann orti þetta ljóð fyrir allnokkrum árum. Mér þótti vænna um hann en marga aðra vegna þess hversu góður hann var alltaf við mömmu. Mér er minnisstætt þegar ljóðið var frumflutt á ættarmóti árið 1992 að mig minnir, því mamma táraðist undir flutningnum.
Hjásetubörnin sem ljóðið fjallar m.a. um, eru nefnilega hún og Stjáni. Þau sátu yfir ánum kornung börn allan liðlangan daginn hvernig sem viðraði. Þegar lak var breytt út á barð við bæinn, máttu þau koma heim með ærnar. Já það eru breyttir tímar.

Ljóðið er fallegur óður til látinnar móður og tregafull nostalgía.

Mamma og minningarnar

Rödd sem á undirrót innra
-óskir sem kalla á svör-
Er löngun að minnast þín mamma,
þó málfarið stirðni á vör,
ylsins frá ástríki þínu,
ævilöng minninga sýn.
Með þér í ljúfsárum ljóma
leikvangur bernskunnar skín.

Í birkiskóg söngfugla sveimur,
sólskin um sumartíð.
Fannir blika í fjöllum
fossar duna í hlíð.
Og aðeins utan við túnið,
ofan við smálæk og tjörn
léttstíg í laufgrænni brekku
leika sér hlæjandi börn.

Þar undu þau, byggðu sér bæi
og bjástruðu um móa og grjót
og óvart vildu þá verða
með votan og óhreinan fót.
Þau vissu þó vöknaði fótur
og vildu ekki koma heim
að í bænum var fyrir þeim beðið
og beðið eftir þeim.

Hún situr í huganum sagan,
sungin af minninga raust.
Um systkin sem sátu hjá ánum
á sumrin fram undir haust.
Hvern dag eftir miðjan morgun
var mjaltað og allt haft til
og svo var haldið með hópinn
í hagann um dagmálabil.

Og daglangt þau dvöldu og léku
í dældum við lyngmó og tjörn
og fjölskrúðugt fjörulífið
-tvö forvitin hjásetubörn-
Við landsteina fleyttu þau fjöðrum
og fjaran var úthafsströnd
og sigldu fannhvítum fleyjum
í fjarlæg ónumin lönd.

Af fjallsbrún um friðsælar hlíðar
lagði forsælan skuggatjöld
og kvíaærnar hópuðust saman
heimfúsar undir kvöld.
Þegar breitt var á holtabarðið
birti yfir systkinum tveim
það var merki um mjaltatíma
þá máttu þau koma heim.

Hver ævi er sem leikþáttur lítill
í lífsins eilífu duld.
Þar yrkja vor örlagahlutverk
Urður, Verðandi og Skuld.
En dulræð er kúnst þeirra kvæða
hvort kjósa á þetta eða hitt
og margir sem tekst ekki að túlka
tilkveðna hlutverkið sitt.

Það gleymdist sem mætast var, mamma,
og margt hefur glapið sýn
og því verður óskrifuð ævi-
afrekaskráin mín.
Af dáðum í draumum þínum
sem drýgja þú ætlaðir mér
hef ég aðeins af mistökum mínum
myndir að sýna þér.

Þegar forsælan færist á bæinn
sker fjallskugginn miðjan dal.
Þá fer hjásetu loksins að ljúka,
ég legg saman tóman mal.
Í lognværum síðkvöldsins svala,
sáttur við liðinn dag
sveimar í huganum söngur,
seiður frá ókunnum brag.

Í kyrrðinni er líður á kvöldið
hverfur það allt sem brást.
Mér finnst eins og fram undan bíði
þín fórnandi móðurást.
Nú veit ég þú breiðir bráðum
á barðið þitt hvíta lín,
þá heldur þinn hjásetudrengur
heimleiðis aftur til þín.

Kristján Magnússon frá Langabotni, Geirþjófsfirði

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Afar fagurt ljóð!

Ég skaust aftur í tíma,
sá fyrir mér hvað var að gerast,
mér langaði að vera með!
Notaleg tilfinning sem fór um mig!

Hann hefur verið mikill hagyrðingur, hann Kristján.

Sjáumst brátt
Tengdasonur nr: .... hehe Karlott

Hrafnhildur sagði...

Yndislegt ljóð sem gefur manni sýn inn í líf þeirra fyrir svo löngum tíma. Kristján er sá af systkinum ömmu sem ég man mest og best eftir ásamt Gunnu :)
Kveða úr Krókabyggð... bráðum Brekkutanga :)

Nafnlaus sagði...

Maður bara tárast.....
-einu sinni enn yfir þessu ljóði...
sniff, sniff
Ég er eilíflega þakklát fyrir að hafa þekkt fólkið og staðinn,
-að vísu ekki á þessum tíma:)
Sys

Nafnlaus sagði...

Ég táraðist líka, ég var komin þangað til þeirra eftir fyrsta erindið... Ofsalega fallegt ljóð. Sjáumst brátt pabbi:):) Arna