föstudagur, mars 30, 2007

Tilveran

Náttúran ber ekki með sér mörg hljóð yfir vetrartímann önnur en ýlfur norðanvindsins og kuldalegt marr í frosnum snjó, annars er veturinn hljóður tími, svefntími náttúrunnar.
Ég hef oftsinnis vaknað um miðjar nætur í vetur við þessi kuldalegu hljóð þar sem ég sef alltaf við opinn glugga hvernig sem viðrar. Ég kom með þessa kuldaþörf inn í hjónabandið fyrir bráðum þrjátíu árum. Erlan mín er löngu orðið jafnháð þessu og ég.

Síðustu nótt vaknaði ég við gamalkunnugt og yljandi hljóð. Vorboðandi hljóð. Tjaldurinn er kominn og farinn að stíga í vænginn við verðandi spúsu sína með tilheyrandi hvellum hljóðum.
Ég hugsaði til baka til bernskunnar en þessi hljóð voru alltaf fyrstu boðberar vorkomunnar í sveitinni. Alltaf á undan Lóunni.
Fleiri góð hljóð heyrði ég. Gæsin er mætt í hólmann. Værðarleg hljóðin í litlum hóp sem hvíldi lúin bein eftir erfitt flug frá Bretlandi.
Þetta eru forréttindi. Ég er slíkur náttúruunnandi að ég naut þessara hljóða með bros á vör um miðja nótt. Fuglarnir eru vinir mínir. Ég er farinn að hlakka til að komast í kofann á Fitinni. Þar er fuglalíf með því mesta sem gerist. Mögnuð sinfónía á björtum vornóttum sem hljómar eins og fegursti lofsöngur til landsins og þess sem skóp það

Að allt öðru. Ég sagði ykkur frá því síðastliðið vor meðan á ritgerðasmíðum stóð að ég hitti nefnd sem vann að undirbúningi nýs frumvarps til byggingalaga. Þar ræddi ég nokkra punkta úr ritgerðinni minni varðandi byggingarstjóra sem virtist ekki hafa verið til umræðu hjá nefndinni.
Nú í vikunni fékk ég það skemmtilega hlutverk að fá frumvarpið í hendur frá Meistarafélagi húsasmiða í Reykjavík til yfirlestrar, en það er nú komið í hendur alþingismanna. Í framhaldi af því fékk ég tækifæri til að hitta nokkra alþingismenn til ábendinga og skrafs og ráðagerða.
Það skemmtilegasta sem mér fannst, var samt sú uppgötvun mín að fundirnir með nefndinni höfðu skilað einhverju. Fingraförin mín voru þarna.

Hef átt betri dag en þennan sem nú er að renna skeiðið. Ég léttist í dag um nokkur grömm. Þrír endajaxlar dregnir úr mér með tilheyrandi pínu og kvöl. Dagurinn hefur þó verið bærilegur utan nokkurra klukkutíma eftir aðgerðina, þökk sé sterkum verkjalyfjum sem tannsi var svo vænn að senda með mér heim og frábæru mæðgunum sem búa með mér og dekra mig oftast meira en hollt er.
Morgundagurinn verður samt betri í munni.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er þá allavega einhver ljós punktur í þessu, ætli næsta megrunarráð verði þá að láta draga úr sér tennurnar, ja þá værum við allavega sannir ragnidnlesí (sbr. Nacirema:D ) þú skilur mig:D

en já þetta er svo töff með Alþingismennina og frumvarpið;)

láttu þér svo batna, sé þig eftir sekúndu!

- the youngster!

Íris sagði...

Gaman fyrir þig að fá að taka þátt í svona starfi. Gaman að vita að þú hafir tekið þátt í að gera lögin betri.

Láttu þér svo batna og leyfðu þeim mæðgum bara að stjana við þig á meðan þú ert að ná þér. Hef heyrt að þetta sé rosa vont!
Sjáumst á morgun
The oldster ;)
Íris