Sem endranær er ég einn kominn á fætur á þessum bæ. Dæturnar hafa erft svefnmengið frá móður sinni og eiga ekki í vandræðum með að sofa fram eftir á morgnana. Ég hef alltaf verið endemis morgunhani, enda einfalt mál í mínum huga, maður sefur á næturnar og vakir á daginn. Það eina sem má deila um er hvenær dagurinn byrjar, en um það eru deildar meiningar á þessum bæ. Erlan mín skilur t.d. ekki hvað ég er að vesenast hér niðri um miðjar nætur.
Páskadagur er samt runninn upp enn einu sinni. Sem minnir mig á hversu tíminn fer hratt. Það er með mestu ólíkindum að ár sé liðið síðan ég faldi páskaeggin síðast, en hér á bæ tíðkast að pabbi felur eggin og skrifar vísbendingar sem vísa hver á aðra þangað til eggið finnst.
Ég hélt að þær yxu upp úr þessu, eeeen, Arna er 26 ára og Hrund 18 og vilja báðar láta fela eggið. Enn ein fjölskylduhefðin sem margar eru viðhafðar hér á bæ.
Þessi dagur er, eins og fólk veit, stærsta hátíð kristinna manna. Flestum finnst jólin vera stærri. En páskar hljóta að bera af, því í þeim liggur kjarni trúarinnar. Upprisan er það sem gerir kristna trú að því sem hún er. Án hennar væri engin kristin trú til. Ef Kristur hefði ekki risið upp frá dauðum hefði sagan líklegast aldrei verið skrifuð. Ef hún hefði samt verið skrifuð hefði hún aldrei orðið merkilegri saga en saga um mikinn heimsspeking, sem lifði og dó. Saga eins og ótal margar eru til um merka menn.
Upprisan er stóra málið. Allt ferlið frá fæðingu Krists til loka andvarpsins á krossinum gekk út á dauða hans og síðan upprisu. Sigra þurfti dauðann til að brúa bilið milli Guðs og manna. Síðustu orð Krists á krossinum “það er fullkomnað” gaf til kynna að áætlunin var að ganga upp, fullkomnuð.
Þessi þrjú orð voru kveikjan að afturhvarfi afa míns til kristinnar trúar og má því segja að þessi sömu orð séu grunnurinn að öllu starfi sem fram hefur farið í Kirkjulækjarkoti.
“Orð til alls fyrst”, sannast hér.
Í dag verður fjölskyldan saman hér í húsinu við ána. Lamb verður á boðstólum sem er gott mótvægi við súkkulaðiát tilheyrandi deginum. Ég hlakka til að fá þau öll hingað, alltaf mikið gaman, mikið fjör.
Dagurinn er fallegur. Ölfusáin liðast framhjá sakleysisleg ásýndar enda ekki í neinum ham þessa dagana, en ber samt með sér þessa ógnarkrafta sem best er að bera mikla virðingu fyrir.
Farfuglarnir eru óðum að koma fleiri og fleiri og gleðja náttúrubarnið í mér. Við vorum í kofanum á Fitinni seinni part skírdags og föstudaginn langa, það var gott. Þar er friður og stóísk ró eins og best verður á kosið. Á samt eftir að finna mér gamla klukku eins og ég á hér heima, sem telur tímann hægt.
Gleðilega hátíð
2 ummæli:
Gaman að koma hingað til ykkar í dag. Alltaf gaman að kíkja til ykkar hér í sveitina ;) Gott að þið njótið þess að fara í kofann ykkar fyrir austan.
The oldster, Íris
Takk kærlega fyrir mig á páskadag, góður félagskapur og maturinn var æðislega góður. Það er alltaf svo notalegt að koma hingað til ykkar mömmu og hafa það rólegt og gott... Þið eruð frábær, elska ykkur grilljón, silljón. Arnan
Skrifa ummæli