þriðjudagur, maí 01, 2007

“Fljótandi, fljótandi auðlegð”

Sumir, þeirra á meðal ég, þurfa stundum eitthvað sérstakt til að kveikja á perunni. Ég var að vinna frameftir í kvöld en kom samt heim á undan Erlu og Hrund sem eru ennþá ókomnar. Þær eru að mæðrablessa Írisi, ásamt fleiri völdum konum ættarinnar, en Íris kemur bráðum með fyrsta drenginn í þessa fjölskyldu.

Veðrið er með eindæmum gott þessa dagana. Það var því freistandi að taka einn göngutúr áðan þegar byrjaði að rökkva. Það var líka eintóm sæla.
Ég gekk upp með á. Loftið ómaði af söng farfuglanna og ég naut þess í botn að vera hluti af þessu yndislega vorkvöldi. Ég tók sveig til baka og gekk eftir klettunum til baka. Þessir klettar grúfa sig hér bakvið húsið mitt og upp með ánni í norður. Á hæsta klettinum er gott að setjast niður. Ágætis útsýni er yfir bæinn og hann speglast fallega í ánni.

Þarna á klettinum, horfandi yfir bæinn minn og húsið mitt hjúfra sig við enda götunnar minntist ég orða eldri konu sem hún sagði við mig á einum erfiðasta kafla lífs míns.
Hún hafði beðið til Guðs yfir aðstæðum okkar og færði mér huggunarorð frá sjálfum Skaparanum. Hún sagði: “Ég mun veita þér fljótandi, fljótandi......fljótandi auðlegð”, með mikilli áherslu í orðum sínum. Þessi kona var Kristín Jónsdóttir heitin, blessunin tengdaamma mín. Lítil, mikilsverð kona.

Á árunum eftir þetta var mér stundum hugsað til þessara orða og fannst nú ekki bóla mikið á þessari auðlegð.

Á klettinum áðan þegar þessum orðum skaut í kollinn á mér fattaði ég allt í einu samhengið.... Ég bý við þessi orð. Þau eru hlutskipti mitt.
Mér hafa hlotnast fágæt gæði. Ég hef átt nógu mögur ár til að augu mín sjái fegurðina í lífinu sjálfu, flórunni í kringum okkur. Litlu augnablikunum sem breyta sögunni.
Augnablikinu sem við Erla hittumst fyrst. Ástinni, ávöxtunum.
Fegurðina í skynjuninni allri. Hljóðinu, lyktinni, bragði, heyrn og sjón, yndisleikanum í öllu og allsstaðar, og það skrítnasta.... fegurðina í erfiðleikunum sem gjarnan verða til að skapa skýrari mynd af því sem skiptir máli, og hverju má henda.

Þetta er fljótandi auðlegð.

4 ummæli:

Íris sagði...

Það er alveg rétt, þú ert mjög ríkur maður og þá er ég ekki endilega bara að tala um veraldleg gæði! Rosalega gaman að fylgjast með hvað þið mamma kunnið að njóta lífsins!
Þið eruð algjörar fyrirmyndir í mínu lífi!!
Og takk fyrir okkur fjölskylduna á sunnudaginn, rosa gaman að koma til ykkar!
Þín elsta dóttir Íris

Nafnlaus sagði...

já þetta er sko alveg frábært hérna!
love it!!
skemmtilegt blogg annars og krúttlegar lýsingar;)
love love
-youngsterinn

Nafnlaus sagði...

Já þið mamma eruð mjög rík. Af umhyggju og gleði og hamingju. Mér finnst þið bara ÆÐI. Hef svosem ekkert meira að segja en það. Arnan þín:)

Eygló sagði...

Gaman að lesa þennan pistil, og þið mamma eruð svo sannarlega rík, og þá ekki endilega í krónum talið! Alltaf gaman að kíkja í heimsókn til ykkar, það er e-ð svo notalegt! Sjáumst hress, þín Eygló