föstudagur, júlí 20, 2007

Sveitarómantíkin....

....blómstrar hjá okkur hér austan fjalls, sem fyrri daginn. Lítið lát hefur verið á góðviðri hér eins og annars staðar á Íslandi. Maður er farinn að reikna með sól hvern dag sem maður vaknar. Rigningin er samt góð. Maður er meira að segja farinn að skilja vanda þeirra sem búa við viðvarandi þurrka. Gróðurinn hlýtur að fagna þessari vætu því hann er víða farinn að skrælna. Ég vona að þetta verði nægjanleg rigning til að vökva almennilega.

Gestahjónin okkar á Föðurlandi hafa nú brugðið búi sínu og eru farin með ungana sína á vit lífsins.Við Erla ætlum að athuga hvort við sjáum fjölskyldurnar eitthvað, en við ætlum að dvelja í faðmi Föðurlandsins okkar um helgina. Ég er hræddur um að hættur leynist bak við hverja þúfu hjá þessum litlu krílum. Einhvernvegin reiðir þeim af svo mikið er víst. Við getum bara vonað að auðna fylgi þeim. Það er gaman að fá svona gesti á landið okkar, einhvernveginn svo vinalegt.

Vikan hefur verið ásetin svo það verður gott að hvíla sig yfir helgina. Pólverjarnir “mínir” vinna á morgun, reyndar vinna þeir alla laugardaga enda hér fyrst og fremst til að vinna. Þeir vinna hinsvegar aldrei á sunnudögum enda kaþólskir og kaþólsk trú gerir ráð fyrir að halda hvíldardaginn heilagan.
Þrír þeirra eru nú í Póllandi í sumarfríi. Þeir eiga gott frí skilið eftir mikla vinnutörn. Góðir vinnumenn og karakterar sem margir mættu taka til fyrirmyndar. Stundvísir og áreiðanlegir í vinnu.
Ég er samt ekki mannalaus því ég er búinn að ráða nokkra í viðbót sem ekki eru í fríi.
Lexor er nú rúmlega hálfsárs og aðeins farið að mótast í það far sem því var ætlað. Ég er ánægður með ferlið eins og það er, mér finnst ég vera að hnoða leirinn.

Að allt öðru. Ég sá fallega grafskrift hjóna núna í vikunni. Segir meira en mörg orð um hjónin.

Háa skilur hnetti himingeimur,
blað skilur bakka og egg
En anda, sem unnast
fær aldregi eilífð að skilið.
JH.

Kannski þetta sé svona. Hver veit það svo sem.

Hlakka til morgundagsins.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Njótið helgarinnar á Fitinni. Við vorum alla vega vör við fugla sem skreyttu tjaldvagninn okkar :)
En við nutum þess að dvelja á Föðurlandinu í vikunni. Það má með sanni segja að það séu foréttindi að hafa aðgang að svona landi sem þessu.

Takk fyrir okkur.
Bjössi og Eygló

Nafnlaus sagði...

Fyrir hvað stendur sammstöfunin HP þarna? Ég spyr vegna þess að ljóðið er eftir Jónas.

Kveðja til fæðingarstaðar míns.

BinniÓ.

Erling.... sagði...

Takk fyrir þessa ábendingu Binni minn sem er hárrrétt því þetta er úr kvæðinu "Ferðalok" eftir Jónas Hallgrímsson.
Ég bý við eina fötlun (af mörgum), þá að þessir tveir, Hallgrímur og Jónas, renna gjarnan saman í eitt mengi í hausnum á mér. Þessi óáran hefur fylgt mér frá því að ég las Ljóðaljóð í barnaskóla.
Þó verð ég að viðurkenna líka að þetta byggir einnig á fákunnáttu minni og athugunarleysi því undir grafskriftinni stendur HP sem augljóslega er rangt.

Skila kveðjunni.