...enn einu sinni liðin. Tók vegatollinn sinn eins og svo oft áður. Eitt banaslys, einu of mikið. Átakanlegt. Flestir hafa þó vonandi átt góða helgi. Veðrið var allavega miklu betra en á horfðist. Lítil sem engin rigning, reyndar rok, en þurrt.
Í gær vorum við heima og nutum næðis við grænar grundir og nið vatna. Hér er gott að búa.... hef ég kannski sagt það áður? Pallurinn var notalegur í sólinni.
Núna næ ég í jarðarber í garðinn minn á hverjum degi, nokkur í senn. Þau bragðast alltaf best beint af plöntunni.
Áttum góða helgi á Föðurlandi með dætrunum og börnum þeirra á daginn og hér heima í sælunni á næturnar. Enda ekki lengi verið að skjótast austur. Íris og Karlott gistu kofann okkar með yngsta meðlim fjölskyldunnar Erling Elí. Það er gott að hafa þetta athvarf.
Við skruppum á eina samkomu á Kotmóti. Ræðumaðurinn var Skoti, man ekki nafnið. Hann var góður. Með báða fætur á jörðinni og tók sjálfan sig ekki of hátíðlega. Var samt með kröftugan og réttan boðskap.
Ég var ekki eins hrifinn af boðskap fólks sem sá ástæðu til að auglýsa hversu góðir gjafarar þau höfðu verið í gegnum lífið og töldu sér það til tekna. Mér hugnast betur þegar sú vinstri veit ekki hvað sú hægri gjörir. Í gamla daga var þetta kallað að taka út launin sín fyrirfram.
Ég hef hvort sem er svo oft verið stimplaður fyrir gagnrýni, svo mig munar ekki um einn í viðbót.
Alltaf má samt deila um hver er að gera rétt og hver minna rétt. Maður ber jú þegar upp er staðið bara ábyrgð á sjálfum sér, sem gerir að verkum að gott er að hafa spegil í farteskinu og skoða verkin sín. Og hafa manndóm til að taka því sem maður sér.
Enginn er meiri en annar þegar öllu er á botninn hvolft. Haldi einhver annað er það aumasti hégómi og hroki.
Rétt er að njóta daganna og horfa á flóruna í kringum sig eins og regnbogann, hann er fallegur svona marglitur.
Það er gott að mannlífið er ekki einsleitt, það væri leiðinlegt.
1 ummæli:
Skemmtilegi skotinn heitir David Campell og ég er alveg sammála þér, hann var alveg ofsalega skemmtilegur og með góðan boðskap. Og takk svo fyrir samveruna um helgina, alltaf gaman að vera saman á Föðurlandi... Arnan þín:)
Skrifa ummæli