....og eina hljóðið sem heyrist er suuuuuuuuuuð í ofnunum sem hamast við að halda yl hússins við það mark sem ég hef ákveðið að sé hæfilegt. Já nú er frost á Fróni svo er víst. Við búum svo vel hér á norðurhjara að landið okkar er sjóðheitt rétt undir yfirborðinu. Heita vatnið, okkar gull og blessun. Mengunarfrí orka, og það nóg af henni.
Ég datt ofan í angurværan, dáldið þjóðlegan, þankagang sem kemur stundum fyrir þegar ekkert truflar og helst þegar eitthvað minnir mig á hvað ég hef það gott.... miðað við foreldra okkar, afa og ömmur, langa og löngur.
Heit híbýli voru sjaldgæf hér fyrir einni öld, hvað þá tveimur. Þegar afar okkar og ömmur voru að alast upp voru húsin köld, nema eldhúsið kannski þegar eldað var. Oft var fjós undir íverustað fólksins til að nýta ylinn af kúnum. Ekki mikill hitagjafi en tók mesta broddinn úr kuldanum. Það var raki og saggalykt. Ef rigndi, láku flest hús meira og minna, flest meira. Rúmin voru óhrjáleg, ekki með spring- eða tempurdýnum, hey undir og gærur yfir og þau voru stutt og mjó.
Það var ekki sturta og ekki heldur baðkar, kannski bali og kalt vatn, sótt í fötum út í læk. Þess vegna var óþrifnaður mikill. Lús var á flestum bæjum, landlæg má segja. Rúmin sérstaklega morandi. Vatnssalerni voru ekki til. Kamar ef vel lét, ískaldur og .....illa lyktandi. Pappír, nei hey.
Engir heitir bílar og ekki vegir né brýr. Hross voru farartækin. Kaldur fararmáti í vetrakuldum þegar ríða þurfti yfir ár og ófærur. Matur oftar en ekki skemmdur, þrár, úldinn eða súrsaður. Gallsúrt gamalt skyr.
Þessar ófögru lýsingar eru að mestu teknar úr bókinni “Dagbók í Íslandsferð 1810” eftir breskan aðalsmann Henry Holland, sem kom hér til Íslands 7. maí og ferðaðist fram til 19. ágúst 1810, til að rannsaka íslenskt þjóðlíf. Bók sem ég grúska oft í enda bakkafull af skemmtilegum fróðleik um hætti fólks sem byggði grunninn undir okkar.
Það sem kom honum mest á óvart var að þrátt fyrir illbúandi land, fátækt og sóðaskap, var hér furðulega margt góðra hluta og menningarhyggja. Gríp ofan í frásögu hans í bréfi sem hann sendi vinkonu sinni:
“.....Ég hafði öllu meiri áhuga á að kynnast fólkinu sjálfu en landinu sem það býr í. Það eru svo furðulegar andstæður í líkamlegu og siðferðilegu ástandi þess, að sennilega finnast hvergi slíkar í nokkru öðru samfélagi manna. Íslandingar eru snauðir af frjósamri jörð og þar fást ekki einu sinni góðar kartöflur. Þeir búa við hin óblíðustu veðrakjör, og jörðin er mögur og ófrjó. Viðmót náttúrunnar er hvarvetna ömurlegt og gleðisnautt. Það er ekki einungis að fólkið skorti alla munaðarvöru, heldur einnig margt þeirra hluta, sem kalla má brýnustu lífsnauðsynjar. Allt um þett er fólkið glaðlynt og gott. Tilfinningar þess eru hlýjar, bæði í fjölskyldulífi og sem þjóðfélagsþegnar. Réttarmeðvitund þess er mjög sterk og það heldur allar siðferðisreglur aðdáanlega vel. Fræðslukerfi Íslendinga meðal allra stétta er afbragðsgott, og síðast en ekki síst þá er bókmenntaleg menning þar á háu stigi og meira að segja finnst þar fágaður smekkur á fögrum bókmenntum. Sem dæmi um hið síðastnefnda skal ég geta þess að ég hefi heyrt latínu talaða á Íslandi með cicerónskum glæsileika og ég hef kynnst þar ljóðaskáldskap af hinni tærustu gerð.... eftir menn sem unnu fyrir daglegu viðurværi sínu með því að róa opnum bátum til fiskjar út á hið úfna haf sem leikur um strendur lands þeirra.”
Mér varð hugsað til þessara tíma þegar ég hlustaði á notalegt suðið í ofnunum og beið eftir að Hrund og Erla kæmu úr Reykjavík.... á hálftíma, í sjóðheitum bíl þótt frostið sé 16 gráður. Allsnægtirnar eru í yfirflæði í dag, byggðar á grunni forfeðra okkar sem þekktu ekki brotabrot af þessum gæðum, en plægðu samt akurinn sem við uppskerum í dag. Bændur og búalið, verkamenn og sjómenn. Fátækt fólk sem þætti ekki merkilegt í peningahyggju nútímans.... svo mikið er víst.
Sjaldséð glitský prýddu austurhimininn í morgun, ægifögur náttúrufyrirbæri í öllum regnbogans litum. Þetta eru háloftaský í u.þ.b. 30 kílómetra hæð, gerð úr ískristöllum. Setti myndir af þeim á myndasíðuna áðan.....náði reyndar fáum, vélin varð rafmagnslaus :(