sunnudagur, febrúar 24, 2008

Of heimakær....

...hafa stelpurnar verið að hamra í okkur undanfarið. Við höfum varist með því að vísa í að maður sæki í það sem manni finnst best, og þannig er það auðvitað. Hinsvegar má alltaf taka við svona athugasemdum og gaumgæfa þær. Við sem sagt ákváðum eftir nánari skoðun, að þó okkur þyki gott að dvelja hér við ána, þá mætti hugsanlega gera meira af því að sækja fólk heim.
Helgin einkenndist því af ferðagleði. Við fórum í gær í heimsókn til Sirrýar og Guðjóns og hundanna þeirra, eftir ferð í Húsasmiðjuna. Áttum þar góða stund með þeim heiðurshjónum. Í eftirmiðdaginn fórum við svo til höfuðborgarinnar. Tilefnið var þorrablót, síðbúið, til fólksins hennar Erlu. Það var ljúf kvöldstund og maturinn góður. Vorum komin heim fyrir miðnættið. Eftir að hafa sofið vel út við notalegan árniðinn hér komu þrjár dætranna hingað austur til okkar. Við höfðum ákveðið að skreppa í kofann öll saman og kíkja svo kannski í heimsókn í Kotið í leiðinni.
Það endaði þannig að við Erla skruppum í heimsóknina en stelpurnar voru í kofanum og spiluðu á meðan.
Núna erum við HEIMA sem okkur þykir allajafna best. Það viðurkennist þó að helgin hefur verið sérlega ánægjuleg og skemmtileg.
Það hefur hert frostið eftir því sem á daginn hefur liðið. Núna er það komið niður í tíu gráður. Það rýkur af ánni frostþokan og dulúð sveipar umhverfið.
Þetta er sjarmerandi og fallegt á sinn hátt. Við sáum þetta á leiðinni að austan áðan að árnar ruku. Það sagði okkur að frostið væri orðið mikið.
Inni er auðvitað heitt og notalegt og ekki minnsta ástæða til annars en að láta eftir okkur að líða vel – til þess eru svona hreiður.
Er nema von að við séum heimakær?

sunnudagur, febrúar 17, 2008

Kári fjári

Það var ekki bara að Kári væri fúllyndur um síðustu helgi, heldur lét hann eftir sér að skemma svo um munaði, í leiðinni. Sumarbústaður Hlyns bróður míns varð fyrir barðinu á honum. Ekki bara einhverjar skemmdir, heldur algjört tjón. Hann fauk um koll.
Við fórum bræðurnir austur í dag, það var ekki fögur sjón að sjá. Hrúgan líktist helst áramótabrennu. Allt fokið sem fokið gat.
Vindurinn var langt yfir fárviðrisstyrk eða upp í 47 metra á sekúndu á Sámsstöðum í Fljótshlíð, rétt hjá okkur. (fárviðri er ef vindur fer yfir 32.7 metra á sekúndu). Við skoðun okkar kom í ljós að festingar þaksins við húsið voru nánast engar. Þegar þakið var farið hafa veggirnir ekki haft neinn styrk lengur og þessvegna fokið líka. Ekki við Hlyn að sakast heldur smiði húsasmiðjunnar sem settu húsið saman. Hlynur keypti húsið samansett og flutti það austur. Mitt mat er að Húsasmiðjan sé ábyrg og þurfi að greiða tjónið. Það á hinsvegar eftir að láta reyna á það.
Ég tók nokkrar myndir og set tvær þeirra hér inn svo þið sjáið að þetta er ekkert smá tjón. Á efri myndinni sést brakið af húsinu vel og þakið liggja í fjarska mölbrotið á hvolfi. Það hefur svifið einhverja 50 metra í heilu lagi.
Neðri myndin er af Hlyn að týna til heillegt dót úr rústunum. Nokkrar bækur þarna undir sem voru, svo ólíklegt sem það nú er, þurrar. Annars flest allt mölbrotið og ónýtt.

Nei Kári er ekki í náðinni hjá okkur bræðrum núna, svo mikið er víst.

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Hvað er auður...?

"Fólk notar peninga sem það á ekki, til að kaupa hluti sem það hefur ekkert við að gera, til að ganga í augun á fólki sem því er ekkert um gefið".......!
Steen Madsen

Þetta fólk á ekki eigur sínar....... eigurnar eiga það! "Betra er að fara hungraður í háttinn en skuldum vafinn á fætur", sagði gamli maðurinn.....

Er fólk ekki eitthvað að misskilja tilganginn.

fimmtudagur, febrúar 07, 2008

Kári æstur í dag

Hann var fúll í morgun og kom með látum í veg fyrir að við heimsæktum höfuðborgina í dag. Það er búið að vera ófært yfir Hellisheiði og um Þrengsli í allan dag. Hér hefur gengið á með hvössum éljum og kafsnjó. Mínir menn voru samt að vinna þó veðrið hafi víst ekkert verið skárra í bænum.
Að vera veðurtepptur hér er samt ekkert hræðilegt ef maður er ekki í þeirri stöðu að verða að mæta eða það hafi aðrar verri afleiðingar. Það er nú einu sinni þannig að fátt er betra en heimilið. Notalegheitin eru síst minni þó það sé Kári sem ákveður að maður verði heima, jafnvel meiri.
Erlan var ekkert súr yfir að vera veðurteppt í dag. Vask-dagurinn liðinn og minna að gera á bókhaldsstofunni. Hún dæsti af vellíðan í límsófasettinu í stofunni í morgun og sagðist “elska þetta”. Það er gott að heyra hvað heimilið er henni mikið hreiður, enda varla hægt annað hér á þessum stað.

Hrundin mín var stressuð í morgun því hún átti að flytja fyrirlestur í skólanum í dag með nokkrum samnemendum. Það reddaðist þó með hjálp kennarans sem frestaði fyrirlestrinum fyrir hana. Það er mikið að gera hjá henni í skólanum núna, full vinna. Hún stendur sig vel í þessu ati.

Við erum búin að fylgjast með litlu vinum okkar hér fyrir utan gluggann í allan dag. Þeir virðast hafa kallað á vini sína því þeim fjölgar einkennilega hratt. Þeir fengu þrisvar sinnum í dag og virtust hinir ánægðustu með það, allt klárað. Smyrill flaug hér yfir í morgun svo kannski eru þeir líka farnir að líta á mig sem blessun......
Erfitt að ráða við það, en þeir verða víst líka að éta til að lifa. Eins dauði er annars brauð.... eða kjöt.

Ég ætti kannski að vekja Erluna en hún lagði sig, enda farið snemma á fætur, rétt fyrir kl. 6.
Er að hugsa um að brasa eitthvað í Tortillas rétt. Fljótlegt og gott.

Er að lesa bók sem inniheldur fleyg orð og tilvitnanir. Rakst þar á eftirfarandi gullmola sem verður lokaorð þessa pistils: “Þú hefur náð fullum þroska þegar þú getur haft rétt fyrir þér án þess að þurfa endilaga að sannfæra aðra um það”.
Hafið það gott vinir.

sunnudagur, febrúar 03, 2008

Eldhúshljóð...

... berst til mín. Hún er að brjóta egg heyrist mér, glamur í skálum og pottum, þrusk í bréfa- eða plast pakkningum, vatn að renna úr krana. Eitthvað á að hræra, hrærivélin komin í gang, ég heyri að það er kveikt á ofninum, glamur í ofnskúffum þegar þær eru teknar út úr honum. Allskonar eldhúshljóð, eitthvað gott í vændum.
Hún er gædd óvenjulegum hæfileikum. Gerir marga hluti í einu. Hún er að baka bollur.... og gera karamellukrem ofaná, alvöru karamellukrem eins og hún setur ofan á tertur... og rjómi á milli.
Ekki laust við tilhlökkun. Þetta eru engar venjulegar bakarís bollur, ó nei gæðin allt önnur og miklu betri.
Þetta hefur hún gert öll árin okkar. Ég kann þetta ekki. Kremið er nýlunda. Ég held að þetta verði tærasta snilld ef ég þekki hana rétt.
Nú er frostið búið, nánast. Veðrið fallegt og fuglarnir að næra sig á korninu sem við hendum til þeirra á morgnana. Hef grun um að þeir séu farnir að æfa söngvana sína fyrir vorið en þeir launa fyrir sig með söng, litlu skinnin.
Þetta er einn af þessum góðu dögum....

Verð að bæta aðeins við þar sem ég er búinn að smakka bollurnar, þær voru ........SNILLD eins og ég hafði grun um. Þið verðið að prófa svona krem með bollunum.... set uppskriftina á sælkerasíðuna, ef hún gefur hana upp.

Ég rakst á eftirfarandi auglýsingu: Hvernig á að fara með eiginkonunni í búðir.... ....slökunaræfingar, hugleiðsla og öndunartækni. Uppl í síma......

föstudagur, febrúar 01, 2008

Einn við skrifborðið.....

....og eina hljóðið sem heyrist er suuuuuuuuuuð í ofnunum sem hamast við að halda yl hússins við það mark sem ég hef ákveðið að sé hæfilegt. Já nú er frost á Fróni svo er víst. Við búum svo vel hér á norðurhjara að landið okkar er sjóðheitt rétt undir yfirborðinu. Heita vatnið, okkar gull og blessun. Mengunarfrí orka, og það nóg af henni.

Ég datt ofan í angurværan, dáldið þjóðlegan, þankagang sem kemur stundum fyrir þegar ekkert truflar og helst þegar eitthvað minnir mig á hvað ég hef það gott.... miðað við foreldra okkar, afa og ömmur, langa og löngur.

Heit híbýli voru sjaldgæf hér fyrir einni öld, hvað þá tveimur. Þegar afar okkar og ömmur voru að alast upp voru húsin köld, nema eldhúsið kannski þegar eldað var. Oft var fjós undir íverustað fólksins til að nýta ylinn af kúnum. Ekki mikill hitagjafi en tók mesta broddinn úr kuldanum. Það var raki og saggalykt. Ef rigndi, láku flest hús meira og minna, flest meira. Rúmin voru óhrjáleg, ekki með spring- eða tempurdýnum, hey undir og gærur yfir og þau voru stutt og mjó.
Það var ekki sturta og ekki heldur baðkar, kannski bali og kalt vatn, sótt í fötum út í læk. Þess vegna var óþrifnaður mikill. Lús var á flestum bæjum, landlæg má segja. Rúmin sérstaklega morandi. Vatnssalerni voru ekki til. Kamar ef vel lét, ískaldur og .....illa lyktandi. Pappír, nei hey.
Engir heitir bílar og ekki vegir né brýr. Hross voru farartækin. Kaldur fararmáti í vetrakuldum þegar ríða þurfti yfir ár og ófærur. Matur oftar en ekki skemmdur, þrár, úldinn eða súrsaður. Gallsúrt gamalt skyr.

Þessar ófögru lýsingar eru að mestu teknar úr bókinni “Dagbók í Íslandsferð 1810” eftir breskan aðalsmann Henry Holland, sem kom hér til Íslands 7. maí og ferðaðist fram til 19. ágúst 1810, til að rannsaka íslenskt þjóðlíf. Bók sem ég grúska oft í enda bakkafull af skemmtilegum fróðleik um hætti fólks sem byggði grunninn undir okkar.
Það sem kom honum mest á óvart var að þrátt fyrir illbúandi land, fátækt og sóðaskap, var hér furðulega margt góðra hluta og menningarhyggja. Gríp ofan í frásögu hans í bréfi sem hann sendi vinkonu sinni:

“.....Ég hafði öllu meiri áhuga á að kynnast fólkinu sjálfu en landinu sem það býr í. Það eru svo furðulegar andstæður í líkamlegu og siðferðilegu ástandi þess, að sennilega finnast hvergi slíkar í nokkru öðru samfélagi manna. Íslandingar eru snauðir af frjósamri jörð og þar fást ekki einu sinni góðar kartöflur. Þeir búa við hin óblíðustu veðrakjör, og jörðin er mögur og ófrjó. Viðmót náttúrunnar er hvarvetna ömurlegt og gleðisnautt. Það er ekki einungis að fólkið skorti alla munaðarvöru, heldur einnig margt þeirra hluta, sem kalla má brýnustu lífsnauðsynjar. Allt um þett er fólkið glaðlynt og gott. Tilfinningar þess eru hlýjar, bæði í fjölskyldulífi og sem þjóðfélagsþegnar. Réttarmeðvitund þess er mjög sterk og það heldur allar siðferðisreglur aðdáanlega vel. Fræðslukerfi Íslendinga meðal allra stétta er afbragðsgott, og síðast en ekki síst þá er bókmenntaleg menning þar á háu stigi og meira að segja finnst þar fágaður smekkur á fögrum bókmenntum. Sem dæmi um hið síðastnefnda skal ég geta þess að ég hefi heyrt latínu talaða á Íslandi með cicerónskum glæsileika og ég hef kynnst þar ljóðaskáldskap af hinni tærustu gerð.... eftir menn sem unnu fyrir daglegu viðurværi sínu með því að róa opnum bátum til fiskjar út á hið úfna haf sem leikur um strendur lands þeirra.”

Mér varð hugsað til þessara tíma þegar ég hlustaði á notalegt suðið í ofnunum og beið eftir að Hrund og Erla kæmu úr Reykjavík.... á hálftíma, í sjóðheitum bíl þótt frostið sé 16 gráður. Allsnægtirnar eru í yfirflæði í dag, byggðar á grunni forfeðra okkar sem þekktu ekki brotabrot af þessum gæðum, en plægðu samt akurinn sem við uppskerum í dag. Bændur og búalið, verkamenn og sjómenn. Fátækt fólk sem þætti ekki merkilegt í peningahyggju nútímans.... svo mikið er víst.

Sjaldséð glitský prýddu austurhimininn í morgun, ægifögur náttúrufyrirbæri í öllum regnbogans litum. Þetta eru háloftaský í u.þ.b. 30 kílómetra hæð, gerð úr ískristöllum. Setti myndir af þeim á myndasíðuna áðan.....náði reyndar fáum, vélin varð rafmagnslaus :(