sunnudagur, júlí 27, 2008

Sem endranær....

....var helgin hlaðin skemmtilegheitum. Föstudeginum var varið í 6 ára afmæli elsta barnabarnsins okkar Daníu Rutar. Hún er því að fara í skóla í haust. Það er skrítið að hugsa til þess að eiga barnabörn sem eru að fara í skóla. Það er svo stutt síðan okkar dætur stigu fyrstu sporin sín í skóla. Við Erla vorum að rifja þetta upp í gærkvöldi, þá komin á Föðurlandið.


Við ákváðum að þeysast á fáknum austur í góða veðrinu. Það er alltaf jafngaman. Við vorum þar í nótt og nýttum svo daginn í dag í hjólatúr.


Fórum m.a í Skálholt, kíktum á minningarreitinn hans Jóns Arasonar þar sem hann var hálshöggvinn árið 1550 ásamt sonum sínum. Ég minntist þess að hafa skoðað þennan reit þegar ég var barn með pabba og mömmu þrátt fyrir að ferðalög hafi verið fátíð í þá daga.
Veðrið lék við okkur og við stoppuðum vítt og breitt. Við tókum ákvörðun um að fara hringinn á næsta ári, hjólandi. Það verður snilld. Lítill farangur, aðeins það nauðsynlegasta verður með í för. Gist í bændagistingum kringum landið. Þetta verður kannski 10 til 12 daga ferð. Verð að segja að ég hlakka strax til.

Vinna framundan og svo verslunarmannahelgi. Kofinn verður ekki íveruhæfur fyrir helgina. Það verður að hafa það. Við keyrum bara heim á kvöldin, ekki svo langt að fara, enda “hálfnuð í sveitina heima hjá okkur” eins og ein frænka mín komst svo skemmtilega að orði þegar við fluttum á Selfoss.

Húsið við ána hefur enn þetta gríðarlega aðdráttarafl á okkur. Við erum alltaf jafn ánægð hér og líður stórkostlega, enda ekki hægt annað.
Sólarlagið var stórkostlegt á Fitinni í gærkvöldi, vantaði myndavélina mína en tók nokkrar á símann minn. Ein komin á Flikr síðuna.....

sunnudagur, júlí 20, 2008

“Láttu mig bara í friði”

Ég átti hálfan dag í veiði í þverá í Fljótshlíð. Það er gaman að veiða þarna. Í gamla daga var aldrei lax í þverá, bara stöku staðbundinn urriði og einstöku sjóbirtingur á haustin. Núna er búið að rækta lax í ánni. Það er því svolítið skrítið að veiða lax þarna.
Ég setti í tvo laxa og náði báðum. Báðir nýrunnir, annar meira að segja lúsugur sem segir að hann hefur ekki verið lengur en tvo til þrjá daga í ánni.

Hansi kveikti svona í mér, hann fékk einn 18 pundara nokkrum dögum á undan. Mínir voru ca 6 punda, fínir matfiskar og gaman að veiða þá.


Ég ásamt Hlyn og Karlott vorum í Þórisvatni í síðustu viku. Þar var yndislegt að vera eins og fyrri daginn. Öræfin heilla mig. Íslensk eyðimörk en samt full af lífi. Ég saknaði vælsins í Himbrimanum. Það hefur verið árvisst við veiðar þarna að Himbriminn vælir í kyrrðinni á kvöldin og næturnar. Það er í mínum huga einhvernveginn tákn öræfanna, fjallavatna. Reyndar getur svanasöngur á heiðum haft sömu áhrif á mig.
Við veiddum mun minna en venjulega. Ég kenni því um að við vorum mánuði seinna á ferðinni en vant er. Gamall maður sem ég hitti einu sinni við þórisvatn, hafði stundað vatnið í áratugi sagði mér að veiðin væri best á vorin svo smá minnkaði hún fram á haust.
Fengum samt ágætis afla.
Við brugðum út af venjunni og kíktum í annað vatn, Fellsendavatn. Þar er silungurinn mun stærri og talsvert af honum. Ég veiddi einn þar nær 5 pundum. Gríðarlega sterkur og skemmtilegur fiskur. Alveg eins og veiðivatnasilungurinn, rauður á holdið og góður.

Fyrirsögnin að greininni þarfnast smá útskýringa. Þar sem ég var við veiðar í Þveránni kom kolvitlaus kría sem lét mig ekki í friði. Hún var svo viðskotsill að ég var í mestu vandræðum með hana, húfulaus og lítið hár til varnar.
Ég var marg búinn að reyna að reka hana frá mér án árangurs. Svo er ég að fara milli hylja og heyri að hún kemur hneggjandi aftan að mér svo ég lyfti stönginni upp... það small í stönginni og krían hrúgaðist niður við fæturnar á mér. Ég hafði hitt hana svona algerlega óvart. Ég fann til með greyinu hún var bara að verja ungviðið sitt, klappaði henni á kollinn og sagði við hana “æ fyrirgefðu, ég ætlaði ekki að meiða þig, láttu mig bara í friði”
Kastaði svo í hylinn og leit svo á hana aftur, þá var hún flogin og ég sá á eftir henni í loftköstum hverfa í burtu. Ég sá hana ekki meir.....hún skildi mig.

Gærdagurinn var viðburðaríkur í Erlu armi fjölskyldunnar. Lítill drengur fæddist, Theodór Ísak Theuson. Thea mín, innilega til hamingju með frumburðinn og þið hin öll í fjölskyldunni með litla kútinn. Þar með eru Teddi og Kata komin í afa og ömmufélagið. Svo er það mikill heiður (talandi af reynslu) að fá nafna Teddi minn, til hamingju með það.
Það var líka gifting í fjölskyldunni. Snorri Sigtryggsson sonur Sirrýar giftist Ingu Huld sinni.
Þau giftu sig í Fríkirkjunni með pomp og prakt.
Til hamingju með daginn öll.

Við skruppum á Skagann eftir brúðkaup. Fórum hjólandi í góða veðrinu. Barbro og Siggi fóru svo með okkur í hjólatúr kringum Akrafjallið og svo rúntuðum við um bæinn. Þau tóku vel á móti okkur eins og alltaf. Vinátta okkar hjónanna spannar orðið yfir þrjátíu ár og hefur aldrei skugga borið á, vinátta sem stendur tímans tönn eru mikil verðmæti. Mér þykir óhemju vænt um þau.
Við vorum svo komin heim á öðrum tímanum í nótt, svolítið vindbarin eftir langan hjólatúr.... en þetta var góð ferð.

Dagurinn í dag er svo enn einn nýr náðardagur. Við verðum heima, eigum von á gestagangi, bara gaman.

mánudagur, júlí 07, 2008

Helgin

Eftir hlýtt veður um helgina var komin þoka á leiðinni heim í gær. Við vorum á Föðurlandi eins og fyrri daginn og ætluðum varla að hafa okkur af stað heim vegna blíðunnar. Enn er verið að reyna að pota verkinu áfram. Við Karlott bárum viðarvörn á nýja kofann og ég kláraði sperrurnar.
Við fengum fullt af heimsóknum. Alltaf gaman að fá gesti. Svo skruppum við Hlynur og Karlott upp í Fiská. Ætluðum að hrella þar vatnabúa sem reyndust síðan hrella okkur frekar. Ferðin var samt góð eins og öll útivera í íslenskri náttúru.

Tvær dætranna voru á móti í Kotinu. Við skruppum þangað eina kvöldstund. Það vakti athygli mína hversu fáa ég þekkti af viðstöddum. Nánast ekki sála úr Fíladelfíu, en fullt af fólki sem virtist hafa það eitt markmið að nálgast Guð og lofa hann. Það er kannski skrítið að segja það en mér þótti ánægjulegt að þekkja svona fáa, það segir mér bara að það eru hlutir að gerast hér á landinu okkar. Mér fannst þetta fara vel fram og ekkert sem stakk minn gamla pinnsa, annað en, full hávær tónlist. Segir kannski helst til um aldur minn.

Núna erum við að melta orð sem okkur voru færð. Orð sem kallast boðskapur eða þekkingarorð.
Það rétta er að taka svoleiðis og kryfja það með biblíuna og sannfæringu sína að vopni.
Við munum skoða þetta vandlega.

Ég þurfti reyndar að segja einum manni upp í morgun. Sá var nýráðinn en ég vissi að hann átti við vanda að etja. Honum finnst vodki góður, óhóflega góður. Honum var gert ljóst að hann yrði að stunda vinnuna 100% ef hann ætlaði að vinna hjá Lexor. Því stefna fyrirtækisins er gæði, gæði, gæði. Í morgun kom hann svo ekki til vinnu og því fór sem fór.

Við erum í fríi í dag hjónakornin. Sitjum hér í eldhúsinu. Erlan að lesa blöðin en ég að tölvast. Setti myndir teknar um helgina inn á Flickr síðuna ef einhver hefur áhuga á því.

þriðjudagur, júlí 01, 2008

Vinnuhelgi á Föðurlandi

Síðasta helgi var sannkölluð vinnuhelgi. Unnið var við húsið, festingar negldar, borið C-tox á viðinn, settar upp rólur fyrir yngstu meðlimina og rennibraut. Tré sótt til Hansa og söguð niður í eldivið svo nú er orðinn myndarlegur eldiviðarhlaði við gaflinn á salerniskofanum, eins og sjá má.

Ásamt ýmsu fleira gagnlegu.

Það er ekki ofsögum sagt að Fljótshlíðin sé falleg. Sérstaklega þegar maður á rætur sínar þar og spor.


Þrátt fyrir vinnu var helgin notaleg. Barnabörnin (Írisar) voru með og skreyttu tilveruna litum regnbogans. Þau glitra af lífi og fjöri og greinilegt að þau njóta sveitarinnar okkar í botn. Næstu helgi verða Örnudætur þarna í útilegu, Veðurstofan spáir algerri bongóblíðu þá, 20 - 25 gráðu hita og sól.


Ég hef grun um að þessi reitur eigi eftir að verða enn meiri paradís allri fjölskyldunni þegar fram í sækir.

Ekki síst barnabarnanna sem virðast njóta sín vel þarna.

Ég er geysilega ánægður með þennan reit sem foreldrar mínir gáfu mér fyrir u.þ.b. 20 árum síðan. þá var þetta bara tún og ógróinn sandur.

Það er stutt síðan, en mikil breyting. Við höfum plantað flest árin. græðlingar teknir hér og þar og stungið niður. Þeir eru orðnir að trjám sem skýla okkur og prýða annars snauðan jarðveginn.
Lítill kostnaður en.... góð uppskera.