sunnudagur, júlí 20, 2008

“Láttu mig bara í friði”

Ég átti hálfan dag í veiði í þverá í Fljótshlíð. Það er gaman að veiða þarna. Í gamla daga var aldrei lax í þverá, bara stöku staðbundinn urriði og einstöku sjóbirtingur á haustin. Núna er búið að rækta lax í ánni. Það er því svolítið skrítið að veiða lax þarna.
Ég setti í tvo laxa og náði báðum. Báðir nýrunnir, annar meira að segja lúsugur sem segir að hann hefur ekki verið lengur en tvo til þrjá daga í ánni.

Hansi kveikti svona í mér, hann fékk einn 18 pundara nokkrum dögum á undan. Mínir voru ca 6 punda, fínir matfiskar og gaman að veiða þá.


Ég ásamt Hlyn og Karlott vorum í Þórisvatni í síðustu viku. Þar var yndislegt að vera eins og fyrri daginn. Öræfin heilla mig. Íslensk eyðimörk en samt full af lífi. Ég saknaði vælsins í Himbrimanum. Það hefur verið árvisst við veiðar þarna að Himbriminn vælir í kyrrðinni á kvöldin og næturnar. Það er í mínum huga einhvernveginn tákn öræfanna, fjallavatna. Reyndar getur svanasöngur á heiðum haft sömu áhrif á mig.
Við veiddum mun minna en venjulega. Ég kenni því um að við vorum mánuði seinna á ferðinni en vant er. Gamall maður sem ég hitti einu sinni við þórisvatn, hafði stundað vatnið í áratugi sagði mér að veiðin væri best á vorin svo smá minnkaði hún fram á haust.
Fengum samt ágætis afla.
Við brugðum út af venjunni og kíktum í annað vatn, Fellsendavatn. Þar er silungurinn mun stærri og talsvert af honum. Ég veiddi einn þar nær 5 pundum. Gríðarlega sterkur og skemmtilegur fiskur. Alveg eins og veiðivatnasilungurinn, rauður á holdið og góður.

Fyrirsögnin að greininni þarfnast smá útskýringa. Þar sem ég var við veiðar í Þveránni kom kolvitlaus kría sem lét mig ekki í friði. Hún var svo viðskotsill að ég var í mestu vandræðum með hana, húfulaus og lítið hár til varnar.
Ég var marg búinn að reyna að reka hana frá mér án árangurs. Svo er ég að fara milli hylja og heyri að hún kemur hneggjandi aftan að mér svo ég lyfti stönginni upp... það small í stönginni og krían hrúgaðist niður við fæturnar á mér. Ég hafði hitt hana svona algerlega óvart. Ég fann til með greyinu hún var bara að verja ungviðið sitt, klappaði henni á kollinn og sagði við hana “æ fyrirgefðu, ég ætlaði ekki að meiða þig, láttu mig bara í friði”
Kastaði svo í hylinn og leit svo á hana aftur, þá var hún flogin og ég sá á eftir henni í loftköstum hverfa í burtu. Ég sá hana ekki meir.....hún skildi mig.

Gærdagurinn var viðburðaríkur í Erlu armi fjölskyldunnar. Lítill drengur fæddist, Theodór Ísak Theuson. Thea mín, innilega til hamingju með frumburðinn og þið hin öll í fjölskyldunni með litla kútinn. Þar með eru Teddi og Kata komin í afa og ömmufélagið. Svo er það mikill heiður (talandi af reynslu) að fá nafna Teddi minn, til hamingju með það.
Það var líka gifting í fjölskyldunni. Snorri Sigtryggsson sonur Sirrýar giftist Ingu Huld sinni.
Þau giftu sig í Fríkirkjunni með pomp og prakt.
Til hamingju með daginn öll.

Við skruppum á Skagann eftir brúðkaup. Fórum hjólandi í góða veðrinu. Barbro og Siggi fóru svo með okkur í hjólatúr kringum Akrafjallið og svo rúntuðum við um bæinn. Þau tóku vel á móti okkur eins og alltaf. Vinátta okkar hjónanna spannar orðið yfir þrjátíu ár og hefur aldrei skugga borið á, vinátta sem stendur tímans tönn eru mikil verðmæti. Mér þykir óhemju vænt um þau.
Við vorum svo komin heim á öðrum tímanum í nótt, svolítið vindbarin eftir langan hjólatúr.... en þetta var góð ferð.

Dagurinn í dag er svo enn einn nýr náðardagur. Við verðum heima, eigum von á gestagangi, bara gaman.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hahahahaha, fyndið að rota kríuna, greyið litla. En gott að hún skildi þig og fór:) Skemmtilegar myndir og bara svona að koma því á framfæri þá langar mig bráðum að koma með þér að veiða. Rifja upp gömlu taktana;) Love U, Arnan

Nafnlaus sagði...

haha en þú góður við kríuna:) klappar henni á hausinn og allt!

en skemmtileg bloggfærsla:)

Ég pant koma með þegar þið Arna farið að rifja upp gömlu veiðitaktana.. allavega ef það er pottþétt að maður veiði:)

kv. Hrund

Eygló sagði...

Ég pant líka koma með :) Væri gott ef við gætum farið áður en september rennur upp ;)
Skemmtilegur pistill hjá þér annars pabbi!
Rigningarkveðjur úr borginni, Eygló :)