Síðasta helgi var sannkölluð vinnuhelgi. Unnið var við húsið, festingar negldar, borið C-tox á viðinn, settar upp rólur fyrir yngstu meðlimina og rennibraut. Tré sótt til Hansa og söguð niður í eldivið svo nú er orðinn myndarlegur eldiviðarhlaði við gaflinn á salerniskofanum, eins og sjá má.
Ásamt ýmsu fleira gagnlegu.
Það er ekki ofsögum sagt að Fljótshlíðin sé falleg. Sérstaklega þegar maður á rætur sínar þar og spor.
Þrátt fyrir vinnu var helgin notaleg. Barnabörnin (Írisar) voru með og skreyttu tilveruna litum regnbogans. Þau glitra af lífi og fjöri og greinilegt að þau njóta sveitarinnar okkar í botn. Næstu helgi verða Örnudætur þarna í útilegu, Veðurstofan spáir algerri bongóblíðu þá, 20 - 25 gráðu hita og sól.
Ég hef grun um að þessi reitur eigi eftir að verða enn meiri paradís allri fjölskyldunni þegar fram í sækir.
Ekki síst barnabarnanna sem virðast njóta sín vel þarna.
Ég er geysilega ánægður með þennan reit sem foreldrar mínir gáfu mér fyrir u.þ.b. 20 árum síðan. þá var þetta bara tún og ógróinn sandur.
Það er stutt síðan, en mikil breyting. Við höfum plantað flest árin. græðlingar teknir hér og þar og stungið niður. Þeir eru orðnir að trjám sem skýla okkur og prýða annars snauðan jarðveginn.
Lítill kostnaður en.... góð uppskera.
2 ummæli:
Ég er alveg búin að bíða eftir þessu bloggi hjá þér! Þetta var mjög skemmtileg helgi og gaman að eiga smá handtök í þessu sem var verið að setja upp :)
Algjör sælureitur sem við erum nú þegar farin að njóta :)
Þín blómstrandi dóttir Eygló
Þetta er algjör snilld þessi sælureitur ykkar (okkar) þarna fyrir austan! Ég hlakka svo til að eyða hellings tíma þarna í sumar og ef veðrið á að vera svona gott um helgina er ekki spurning að við látum okkur ekki vanta ;)
Og takk fyrir að leyfa okkur að njóta með ykkur, svooo gaman og notalegt! Og ekki verra hvað stelpurna og svo Erling Elí meira eflaust á næsta ári, njóta þess að vera þarna, leika sér út um allt og finna sér leynistaði.
Sjáumst
Þín Íris
Skrifa ummæli