...suður í henni vík", syngur mamma gjarnan þegar maður hittir hana. Það er satt, lífið er hverfult, svo mikið er víst.
Það er vont þegar fólk á besta aldri þarf að kveðja þetta líf. Sveitungi minn, Jón Ólafsson (Nonni á Kirkjulæk) lést í fyrrakvöld, allt of ungur. Krabbamein lagði hann. Hann var dugmikill og áberandi karakter sem fór gjarnan ótroðnar slóðir og framkvæmdi það sem honum datt í hug. Þetta er blóðtaka fyrir sveitina hans og erfitt fyrir marga að horfa upp á. Fjölskylduna mest.
Ég skrapp austur á Föðurland áðan. Fór með kamínu sem mér áskotnaðist nær gefins. Ég settist á veröndina og hugsaði til baka. Horfði yfir sveitina mína sem, þrátt fyrir áfall, heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist. Tjalds hjón með unga voru á vappi á lóðinni. Þau voru með sitt hvorn ungann að kenna þeim að finna ánamaðka. Merkilegt að sjá. Heyskapur í gangi á bæjunum og fólk á ferð í bílum sínum.
Þessi fallega sveit sem hefur fóstrað svo marga og séð á eftir svo mörgum. Hringekja sem ekkert er umkomið að hægja á. Hver nýr dagur í lífi manns, að kvöldi kominn, er þakkarefni. Einn dagur í viðbót sem manni er gefinn á þessu fagra landi.
Ég votta þeim sem nú syrgja, mína innilegustu samúð.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli