sunnudagur, júní 01, 2008

Grill

Erlan hefur í mörg ár verið í “saumaklúbb”.... set það í gæsalappir til að gæta sannsöglis.
Einu sinni á hverju vori hittast þær með okkur köllunum. Þá er grillað og haldin veisla.
Okkur veittist sá heiður að hýsa grillveisluna þetta árið. Það leit kannski ekki of vel út því eins og lesendum síðunnar er kunnugt varð íbúðin okkar eins og eftir sprengjuárás tveimur dögum fyrir grill. Stelpurnar okkar ásamt Erlunni tóku á sínum stóra og gerðu kraftaverk, enda var íbúðin komin í samt lag þegar gestina bar að garði klukkan hálf átta. Aðeins þvottahúsið og gestaherbergið eftir.

Sá háttur er hafður á að hver kemur með sitt kjöt og meðlæti, svo er grillað og steikt og hitað og soðið af krafti. Litla grillið er afkastamikið enda hægt að kynda það ótæpilega svo það tókst að láta alla snæða á sama tíma.
Félagsskapurinn var góður enda fátt skemmtilegra en góðra vina fundur. Nota tækifærið og þakka þeim ykkar sem kíkja hér á síðuna, fyrir komuna.

Bæjarlífið er að komast í samt lag aftur eftir stóra skjálftann. Vatnið er óhreint svo Rauði krossinn er hér við brúarsporðinn með vatnsbirgðir á flöskum sem deilt er ókeypis til íbúa. Gott framtak hjá þeim.
Ég er ánægður með framgang allra þeirra sem eiga að vera til staðar við svona atburði Rauðakrossinn, Almannavarnir, hjálparsveitirnar, sjúkraflutningamenn, landhelgisgæsluna og lögreglu. Allt virtist vera framkvæmt fumlaust. Brúm lokað þangað til búið var að kanna skemmdir, leiðum haldið opnum fyrir neyðarflutninga, gengið í hús til að kanna ástand á fólki, veitt áfallahjálp og hverskyns aðstoð. Gott að sjá.

Hrundin mín lenti í kröppum dansi þegar skjálftinn reið yfir. Hún vinnur á heimili fyrir fatlaða einstaklinga hér á Selfossi. Þær voru tvær að vinna þegar allt fór á tjá og tundur. Þungir skápar hentust um koll, sjónvörp þeyttust út á gólf og brotnuðu með reyk og eldglæringum og ærandi hávaði. Hún þurfti að halda andlitinu og vera róleg vistmanna vegna. Þær hófust strax handa við að taka sjónvörpin úr sambandi og koma fólkinu út. Hrund tók svo myndir af öllu áður en þær fóru að sópa saman.
Yfirmanneskja hennar á Svæðisskrifstofunni tjáði okkur að hún hefði staðið sig ótrúlega vel. Svo róleg og yfirveguð, sem var svo gott fyrir skjólstæðingana. Hún sagði Hrund svo yndislega að hún vildi ættleiða hana.... “þau plögg verða ekki undirrituð” sögðum við bæði í kór.
Hrund stóð sig gríðarlega vel undir miklu álagi, svo mikið er víst. Ég er stoltur af þér dóttir góð.

Hér hefur haldið áfram að skjálfa, eftirskjálftarnir taldir í þúsundum, sumir allsnarpir.
En hér er gott að vera.
Jafn fallegt og fyrir skjálfta, jafn vænt fyrir sálina.

Engin ummæli: