Nú snýst öll umræðan um kreppu. Allir eru uppteknir af krepputali. Allir hafa skoðanir á „þeim“ sem ollu kreppunni. Þessum fáu köllum sem skuldsettu þjóðina með þvílíkum afleiðingum. Krepputalið snýst um tvo póla „Við“ og „þeir“ Ég skynja reiði fólks í garð „útrásarvíkinganna“ svokölluðu. Þeir tóku milljarðana að láni sem eru að sliga okkur núna..... Fíflin.
Það er samt skondið að hlusta á þetta. Því að flestir sem taka til máls þyrftu að taka sér spegil í hönd.... og skoða sjálfa sig. Staðreyndin er nefnilega sú að flestir dönsuðu stríðsdansinn með þeim. Milljarðarnir sem þeir tóku að láni voru nefnilega ekki bara í þeirra staupi. Margir milljarðar runnu í veski venjulegs almúgafólks sem hélt að það væri ríkt af því að það var auðvelt að fá í glasið. Landsmenn flestir staupuðu sig með þeim og tóku þátt í partíinu af lífs og sálar kröftum, út á krít. Og það var drukkið þangað til flaskan var þurr. Um það vitnar lífsstíll langt umfram efni. Nýir bílar allstaðar og flottu húsin út um allan bæ.
Nei timburmennirnir eru ekki bara útrásarvíkinganna. Þeir eru höfuðverkur margra um þessar mundir. Það er gott til þess að hugsa að timburmenn lagast. Líka þessir. Vandinn er að hugsa jákvætt og í lausnum. Kreppan ber nefnilega í sér mörg tækifæri. Ég get fullyrt að það eru fleiri viðskiptatækifæri núna en verið hafa í fjöldamörg ár. Það er líka upplagt að nota þessi tímamót til að breyta um lífsstíl. Hætta að drekka (kreppuvaldandi yfirdrætti og kortaskuldir) og taka upp heimilissiði sem hafa haldið gildi sínu um aldir. Hagsýni og nægjusemi ásamt guðhræðslu.... það er gróðavegur.
Og... hugsa í lausnum...hugsa í lausnum ...hugsa í lausnum.
Þegar þú ferð í brimbrettabrun og aldan kemur á móti þér geturðu annaðhvort gripið ölduna og látið hana bera þig að landi eða látið hana færa þig í kaf. Rístu upp úr vandamálunum og snúðu þeim í sigur, frekar en að láta þau kaffæra þig.
6 ummæli:
Sæll frændi.
Mikið er ég sammála þér, við erum öll búin að taka þátt (allavega ég) í gróðafíkninni. Sem betur fer var ég bara fátækur námsmaður meðan fárið átti sér stað þannig að ég var í böndum þegar vissu marki var náð.
Nú höfum við hinsvegar tækifæri til að horfa fram á við og grípa þau tækifæri sem verða á vegi okkar. Bjartsýnin er það eina sem við þurfum.
Kv. Davíð Örvar
Rétt pabbi! Rétt! Margir tóku þátt en alls ekki allir samt og það er eiginlega verst þeirra vegna að lenda í einhverju veseni út af svona fylleríi í öðrum!
Það er gott að vera bjartsýnn. miklu betra en svartsýnn. Núna er útlitið dökkt í þjóðfélaginu og því ekki þörf á svartsýni til að gera það verra.
Það er alveg rétt Íris, það voru alls ekki allir sem tóku þátt í partýinu. Þetta er eitt af því sem Salómon konungur sá, að heimurinn er ekki alltaf réttlátur.
Jamm, það er oft gott að vera gamaldags og treysta bara gömlu góðu bankabókunum fyrir arfinum sínum......
osfrv.
Gerða sys
Úps! Sekur! Tók bílalán, skuldbreytti og tók myntkörfulán á nýtt hús. Nú fer ég í eldhúsið, næ mér í egg og tómata og kasta í sjálfan mig. Þetta er mér að kenna, þeir voru 20, ég er örugglega sá 21. Ég hlustaði á sérfræðingana og ráðamennina sem hvöttu fólk til þess að nýta tækifærin, ég átti náttúrulega ekkert að vera að hlusta, mátti vita betur. Ég bið þjóðina velvirðingar á að hafa komið henni í þennan vanda og segi hér með af mér sem.......???????????? Æi, nú er ég í vanda, ég réði engu, var ekki seðlabankastjóri, ráðherra, þingmaður, bankaráðsmaður, bankastjóri, milli stjórnandi í banka, bissnessmaður, útrásarvíkingur, hagfræðingur........ klór, ég verð þá líklega að segja af mér sem meðal Jón og verða litli Jón í staðinn!
Annars var þetta með bjartsýnina og jákvæðnina bara nokkuð gott. Sammála því! :)
P.s. Getur einhver lánað mér fyrir eggjum og tómötum?
Skrifa ummæli