..... í tilefni fimmtugsafmælis Erlunnar minnar. Þó hún beri það ekki með sér þá varð hún fimmtug þann 14. janúar sl. Við ákváðum að hafa eina veislu og eina reisu í tilefni afmælanna okkar, það er styttra á milli okkar í aldri en sýnist.
Ferðin var afar góð. Boston er öðruvísi amerísk borg en ég hef séð áður. Falleg, hrein og skemmtileg. Með urmul af góðum matsölustöðum og margt fallegt að skoða.
Eins og nærri má geta er ekki erfitt að dekra þessa konu. Hún ber bara með sér þannig persónuleika að annað er ekki hægt.
Við eyddum afmælisdeginum í ýmislegt skemmtilegt m.a. settumst við niður á Cheers barnum fræga, kíktum aðeins í búðir skoðuðum falleg hús og margt fleira.
Fimmtug.... varla, hlýtur að vera vitlaus kennitala.
Við enduðum svo daginn á glæsilegum veitingastað uppi á 52. hæð, með glæsilegu útsýni yfir Boston. Lukkan var með okkur því þjónninn tjáði okkur að þeir ættu Vagyu naut, besta nautakjöt veraldar sem væri mjög erfitt að fá. Það þurfti ekki að dekstra okkur með það. Kjötið var.... og nú vantar nógu sterk lýsingarorð, himneskt, kemst kannski næst því. Algjört lostæti, steikingin fullkomin, kryddunin líka og meðlætið. Ég ætlaði að panta bragðmikið spánskt rauðvín Marqués de Riscal með en það leist þjóninum ekki á og vildi velja fyrir okkur vín sem hæfði þessu kjöti, það var látið eftir þrátt fyrir hjáróma mótmælanöldur úr vasanum mínum, veskið lætur stundum svona. Ég sá ekki eftir því að láta hann velja - þetta var nálægt fullkomnun. Eftirrétturinn var franskur Créme brulée, líka alveg eins og hann á að vera. Topp topp toppp...staður! Afar rómantískur með ofboðslega flottu útsýni. Sælkerarnir við, vorum í essinu okkar þarna.
Við höfðum ákveðið að þetta yrði ekki verslunarferð -alveg satt, Erla jú hún var líka með í ráðum...! Hinsvegar ætluðum við að nota tímann og prufa veitingastaði, við erum svoddan matarunnendur og nutum þess í tætlur. Fundum æðislegan ítalskan stað í ítalska hverfinu þar sem við borðuðum snilldar pastarétti. Fórum á Cheesecake factory og brögðuðum frægu ostakökurnar þeirra - skildi þá hversvegna þeir eru frægir fyrir þær ...yummy. Hafnarsvæðið er líka gríðarlega fallegt, gamlar byggingar og sagan allsstaðar.
Ánægjulegast við þetta allt var samt samfélagið við þessa yndislegu konu sem ég var svo lánsamur að finna fyrir meira en þrjátíu árum. Erlan hefur öll árin staðið hjarta mínu næst og gengið þétt við hlið mér hvernig sem hefur árað hjá okkur - gegnum súrt og sætt eins og sagt er. Hún er minn besti vinur og alger sálufélagi.
Ljúf og góð ferð. Það er von mín og bæn til Guðs að við fáum að ganga saman í þessum góða takti þangað til sólin okkar rennur í hinsta sinn.
Það er óhætt að segja að þessi Bostonferð hafi birt mér nýja sýn á Bandaríkin. Það hefur ekki verið efst á vinsældarlistanum hingað til að fara vestur um haf.
Erlan er engri lík.
4 ummæli:
Vá pabbi, þú ert bara alltaf að græta mig;) Hvernig er mamma eiginlega þegar hún les svona fallega pistla eftir þig. Þið eruð svo mikil æði og ástin sem þið eigið eftir öll þessi ár er svo falleg og aðdáunarverð, elska ykkur:) Þín Arna
Æðislegur pistill!! Mann bara dauðlangar á þennan veitingastað eftir að lesa lýsingarnar ;)
Gott hjá ykkur að dekra vel við ykkur!
Þú kannt að orða það Erling minn. Þið eigið hvort annað skilið. BÆði framúrskarandi frábærir einstaklingar. Og til fyrirmyndar í mörgu. Gagni ykkur vel gangan til hinsta sólarlags.
Þú kannt að orða það Erling minn. Þið eigið hvort annað skilið. BÆði framúrskarandi frábærir einstaklingar. Og til fyrirmyndar í mörgu. Gagni ykkur vel gangan til hinsta sólarlags.
- gleymdi áðan að skrifa undir.
Kær kveðja Kiddi Klettur
Skrifa ummæli