fimmtudagur, september 23, 2010

Ritsmíðar

Jæja nú er ekki til setunnar boðið lengur...eða kannski frekar, nú kallar skyldan til setunnar. Ég er að reyna að skyrpa í lófana og halda áfram með ritgerðarskrif. Það hefur ekki reynst mikill tími afgangs til skrifa undanfarið vegna annarra verkefna. Ég sat fyrirlestra í Háskólanum í dag um vinnulag við ML ritgerðir. Maður getur lengi á sig blómum bætt og margt kom fram sem gott er að hafa bak við eyrað. Ritgerðarskil eru 15. des. svo ég verð að nota hverja stund.
Sumarið og haustið hafa verið óvenju annasöm hjá okkur hjónunum. Við erum samt ánægð með afrakstur sumarsins - alltaf gaman að skapa eitthvað nýtt.
Nú erum við að leita að nýjum vörum í stað minjagripanna þar sem túristatíminn er liðinn þetta árið. Brainstorming er málið.....

Veiðiferðin okkar bræðranna gekk bærilega, endur og laxar lágu í valnum. Ég er búinn að smjörsteikja önd sem smakkaðist hmmm.... veeeeel, og fara með laxana í reyk. Ég sótti þá í Reykofninn í dag og hafði m.a. reyktan lax í kvöldmatinn, taðreykingin virkar vel maður lifandi, þetta er meira nammið.
Enn er einn veiðidagur eftir áður en vetur kóngur gengur í garð, Volinn bíður - einu sinni, einu sinni enn, það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því.

Jæja kannski ég ætti að fara að snúa mér að ritgerðarsmíðum frekar en að leika mér hér á blogginu.
Eigið góðar stundir gott fólk.

Engin ummæli: