Þær vitna um það greinarnar á Reynihríslunum sem hér svigna undan þungum blóðrauðum berjaklösum svo stórum að ég hef ekki séð annað eins. Litir laufanna bera með sér sama vitnisburð. Það þýtur í laufi trjánna hér og vindurinn minnir á þetta sama, það er að koma haust.
Fuglasinfónían sem einkennir sumur hér á Föðurlandi er að þagna og litlu snillingarnir sem leika sinfóníuna eru að gera sig ferðbúna á suðlægari slóðir. Allt er þetta gott en minnir mann alltaf á hversu ævin er stutt og nauðsyn þess að fara vel með tímann sinn. Það er nefnilega þannig að við fáum bara eitt tækifæri til að lifa lífinu og árin styttast í réttu hlutfalli við hækkandi aldur.
Ró og friður eru hverfandi gæði. Það er hinsvegar til mikils að vinna að koma sér á þann stað að njóta þeirra hverfandi gæða. Við Erlan erum forréttindafólk að þessu leiti að eiga okkur athvarf í Fljótshlíð. Kofinn okkar er ekki stór og sómir sér kannski illa sem eitt af sumarhúsum Fljótshlíðar þar sem hver höllin tekur við af annarri. Við höfum samt allt hér sem þarf til að skapa gamaldags og sveitalega friðsemd og ró og njótum þess vel.
Haustið er ekki síðri tími en annar til að njóta. Hver árstíð hefur sinn sjarma og veður hefur ekki haldið okkur héðan jafnvel þó frost sé og funi. Það er jafnvel enn notalegra að dvelja hér um harðavetur í frosti og fjúki en á fallegum sumardegi.
Kári blæs núna og fyllir fánann okkar vel svo hann nýtur sín í allri sinni fegurð. Íslenski fáninn fyllir á einhvern þjóðernisbikar innra með manni þegar hann blaktir svona fallega. Þjóðarstolt og ást á landinu er það sem ég finn fyrir. Já og það þrátt fyrir kollhnýs útrásarinnar. Forfeður okkar og gjöfult land hafa sett okkur á stað sem kallar á öfund annarra þjóða - Ísland er best.
Við Erlan höfum átt annasamt sumar og haft fá tækifæri til að dvelja hér svo við ætlum að njóta verunnar hér í dag, hlusta á gömlu klukkuna telja mínúturnar og lesa góðar bækur, kannski skreppa í heimsókn, hver veit.
Þið sem ratið hér inn á síðuna mína - takk fyrir innlitið og njótið dagsins eins og við.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli