sunnudagur, september 26, 2010

Fagurgul og rauð...

...er tilveran mín þessa stundina. Út um gluggann minn sé ég bílinn okkar hristast í takt við vindhviðurnar og regndropana á lakkinu flýja undan rokinu án þess að finna skjól. Vindgnauðið hér í kofanum í bland við taktfast tifið í gömlu klukkunni er óhemju vinaleg laglína. Úti er dæmigert haustveður, rok og rigning og litirnir hér á Föðurlandi eru líka í takt við árstíðina, fagurgulir og rauðir og öll flóran þar á milli. Það er verst þegar gerir svona rok snemmhausts þá vill þetta skraut gjarnan fjúka út í buskann og berangurslegir stofnarnir standa einir eftir. Ég nýt hverrar árstíðar mjög enda er ég sá lukkunnar pamfíll að fá að eyða hverri þeirra með lífsförunaut sem ég elska og dái.
Litið til baka um farinn veg sjást fingraförin okkar beggja á öllu sem við eigum og höfum afrekað. Fátt finnst með fingrafari annars okkar. það er ljúft að eiga svona náinn förunaut. Hún var að skríða á fætur þessi elska þótt langt sé liðið að hádegi, en það er nú ekkert nýtt. Það er þakklátur kall sem skrifar þessar línur.

Við ákváðum að taka okkur frí og skreppa í kofann eina nótt. Grilluð hrefna og gott rauðvín var kvöldsnarlið okkar í gærkvöldi. Smakkaðist vel og ómega 3 fitusýrurnar úr hvalnum gera okkur gott. Við ætlum að vera hér í þessum notalegheitum eitthvað frameftir degi, ég ætla að kveikja upp í kamínunni til að fullkomna notóið.

Gerið eins og við - lifið og njótið.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Haldið bara áfram að njóta elskurnar:) Vona að haustfegurðin okkar fjúki ekki öll út í buskann:)