Þetta sumar ætlar ekki að verða eins slæmt og sýndist um daginn. Veiðigyðjan hefur skilað genunum mínum sem ég saknaði hér um árið. Ég hef veitt vel síðsumars og er orðinn forfallinn Volamaður. Volinn eins og hann lætur lítið yfir sér er ekki auðveldasta veiðiá sem ég hef veitt en með þeim skemmtilegri. Ég barði vatnið í allan gærdag og kom heim með sex gullfallega birtinga, ekki af minni gerðinni eða frá 7.5 - 12 pund. Að veiða svona boltafiska er kannski ekki hollt til lengdar þar sem aðrar ár verða ekki eins spennandi fyrir vikið. Enn á ég einn dag eftir á þessu svæði. Það verður allavega fiskur á boðstólum í vetur hvað sem öðru líður.
Erlan er þessa stundina í Zumba dansi eða á ég að kalla þetta leikfimi? Svo erum við saman að læra samkvæmisdansa. Það verður að segjast eins og er að mér líkar það betur en ég átti von á eftir fyrstu kynni, kallinn meira að segja farinn að halda takti og muna sum spor - allt í áttina.
Ég er búinn að ákveða að teygja ritgerðina mína yfir tvær annir og nota líka næstu vorönn til að skrifa. Það kemur til vegna of lítils tíma sem ég hef getað setið við skriftir og tíminn til jóla er orðinn skammur. Ég sem hélt ég væri ofurmenni.
Svona breytast áætlanir manns eins og vindurinn. Það er reyndar bara styrkur að geta hagað seglunum eftir því hvernig hann blæs.
Kvöldið er fagurt, sól er sest og veðrið er ekki eins og októberveður heldur er hér logn, hiti og þrastasöngur. Lífið er til að njóta þess. Það er svo ótalmargt sem hægt er að gera til að skreyta dagana sem ekki kostar peninga.
Ég ætla að njóta kvöldsins sem aldrei fyrr í samfélagi við flotta konu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli