fimmtudagur, nóvember 04, 2010

Grasekkill...!

Frúin er í London. Ég er, svo sem, hvort sem er með nefið ofan í ritgerð þessa dagana. Það var djarft að ætla að klára mastersritgerð á átta vikum. Þetta er ekki hrist fram úr erminni einn tveir og bingó. Ég fæ svona kjánahroll annað slagið yfir því hvernig mér gat dottið þetta í hug? Maður fer stundum langt á bjartsýninni og hálfnað er verk þá hafið er segir máltækið. Það hefur gengið vel að skrifa hingað til en nú eru tæplega sex vikur í skil þann 15. des.

það snjóar í höfuðborginni. Hér hefur ekki komið snjókorn ennþá, ég er mjög sáttur við það. Það er aftur á móti búið að vera kalt sem sést best á ánni sem er orðin hrímuð, allavega flýtur klakaður krapi eftir henni sem gerir hana mjög vetrarlega. Eins og fyrri daginn virðast fuglar finna sér mikið æti þrátt fyrir klakaburð því þeir hamast að kafa eftir einhverju milli íshrönglsins.

Ég átti svolítið bágt með mig að fara ekki austur að Gígju og sjá hlaupið en lét þó skynsemina ráða, mér veitir ekki af hverjum degi sem ég hef til að skrifa þessi dægrin.
Ég er orðinn langeygður eftir fríi... það kemur að því geri ég ráð fyrir.
Hafið það gott vinir.

Engin ummæli: