Fórum bræðurnir á skytterí á sunnudaginn. Við Hlynur lögðum af stað héðan úr Reykjavík kl. 05:00 til að vera komnir í morgunflug gæsanna við Markarfljót kl. 06:30. Hansi skrapp með okkur í morgunflugið. Heldur var tekjan rýr eftir morguninn, nokkur skot út í loftið. Fáar gæsir sem flugu......og eeeengin þeirra dóóó, af ááánægju úúút að eyyyrum hver einasta þeiiiirra hlóó. Það er greinilega betra að æfa skotfimina áður en maður hellir sér í veiðina. Ég reyndi líka við tvær endur sem flugu yfir mig en þær hlógu bara líka. (samt næstum dauðar…..úr hlátri). Það var rokið sem gerði að ég hitti ekki. Við ákváðum eftir að hafa fengið okkur morgunkaffi hjá Hansa að fara á andaveiðar og kannski renna færi einhversstaðar.
Til að gera langa sögu stutta þá voru flestar endurnar sem sáust, svo skynsamar að halda sig við bæina, svo ekki var hægt að skjóta þær.
Við renndum svo færi í Þverá fyrir neðan Hvolsvöll með leyfi Hansa. Þar fékk ég einn sjóbirting. Rétt við Markarfljót sáum við endur (fyrir löngu) sem við reyndum að læðast að. Skriðum á maganum og fjórum fótum langar leiðir. Þangað til Hlynur fékk allt í einu svo mikið hláturskast að ég hélt að hann væri að deyja, maðurinn tárfelldi. Ég hafði verið með derhúfu sem skyggði sýn svona skríðandi, svo ég tók hana ofan. Skipar hann mér bara að setja hana aftur á mig ….! Því þær gætu séð glampa á hausinn á mér…..hrmpfff. Honum ferst.
Endurnar náttúrulega sáu okkur og flugu glottandi í burtu. Held meira að segja að þær hafi hlegið með honum.
Við enduðum ferðina inni í Þórólfsfelli, þar sem við fundum tvær endur sem við gátum loksins náð. Gott á þær. Það var enn á þeim sama glottið eftir fyrri viðureign okkar við Markarfljótið. Já sá hlær best sem síðast hlær. Hlynur fékk svo einn lax í lokin við garðinn í Bleiksá.
Þetta var fínn dagur við veiðar og flandur.
3 ummæli:
Skemmtileg saga. Hvað er svo að honum Hlyn? Hví hló hann svona mikið?
kveðja Kiddi
Hæ pabbi, þetta er ekkert smá skemmtileg saga, ég hló og hló. Bara snilld sko. Hafðu það gott og við sjáumst, þín uppáhalds Arna:)
ÉG sé þetta alveg fyrir mér, Hlynur að kafna úr hlátri og þú alveg "hva???"
Þetta hlýtur að vera gaman að fara svona saman bræðurnir. Skapa minningar ;)
Þín elsta dóttir
Íris
Skrifa ummæli