föstudagur, nóvember 26, 2004

Tíminn líður hratt.....

Var í síðasta tíma annarinnar í morgun. Nú er törn framundan í prófalestri.
Fyrsta próf á þriðjudaginn og það síðasta þann 11. des.
Nú er námið hálfnað þ.e. ef ég gef mér að ég nái prófum. Á kannski ekkert endilega von á öðru.
Þetta er búið að vera skemmtilegt og á köflum erfitt en ótrúlega fljótt að líða. Það er einhvernvegin þannig að manni finnst oft í svo mörgu, að síðari helmingurinn sé fljótari að líða en sá fyrri. Ef seinni hlutinn verður bara jafnfljótur og sá fyrri verð ég búinn með námið áður en ég næ að snúa mér við....!.
Það er ánægjulegt og gott að finna sig styrkjast í nýju fagi.

Var í Hæstarétti í gær að hlusta á málflutning í einkamáli. Margt kom þar fram sem mér þótti athyglisvert. Kannski ekki síst framkvæmdin. Mjög ólíkt lögfræðisápuóperunum í sjónvarpinu.
Þar hlustaði ég á margreynda lögmenn takast á um mál sem snerist um brottvikningu manns úr vinnu án aðvörunar. Rekinn á staðnum.
Málið fangaði athygli mína efnislega vegna skyldleika við annað líkt mál þar sem mér var ekki skemmt, mál sem kom við réttlætistaugina í mér. Var þó bara áhorfandi úr fjarlægð.
Þar var meðalhófsreglunni steingleymt og kona (mér ótengd) látin taka pokann sinn og gert að yfirgefa vinnustað sinn, án tafar, án annarrar ástæðu en skipulagsbreytinga. Mjög aðfinnsluverð aðferð kirkju í því tilfelli bæði lagalega séð og ekki síður sálarlega.
Eins og fram kom í málflutningnum heitir þetta riftun ráðningarsamnings. Sé riftun ekki byggð á réttum forsendum skv. réttarheimildum skapast bótaskylda.
En svona er heimurinn, þau begðast krosstrén sem önnur.

Aftur að veraldlegri hlutum. Það sem hefur komið einna skemmtilegast á óvart í laganáminu er hvernig þetta tré réttarkerfið er byggt upp. Rótfesta, stofn, greinar og lim. Gagngert byggt upp til að finna réttlætið á öllum sviðum. Bókstaflega snýst um það.
Ég taldi mig, áður en ég hóf námið, vera nokkuð vel að mér í lögunum en hef nú komist að því að það lagalega vit sem ég átti, kæmist fyrir í öðrum lófanum á mér í dag. (væri ekki almennilegur laganemi ef ég grobbaði ekki soldið)
En enginn verður óbarinn biskup og eins gott að halda áfram að lesa svo ég verði ekki tekinn í nefið.

Góða helgi vinir.



þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Aðvörun.....! löng grein.

en gæti verið umhugsunarefni.
Ég man ekki hvað það er langt síðan ég las einhverja vísindagrein í blaði um sjálfforritanlegar tölvur, nokkur ár. Tækninni fleygir fram hraðar en augað festir.
Greinin fjallaði um að þá voru komnar fram á sjónarsviðið tölvur sem höfðu þá eiginleika að geta forritað sig sjálfar. Nú verð ég að viðurkenna fáfræði mína og játa að ég kann ekki góða útlistun á þessu fyrirbæri. Veit samt að þetta er kallað gervigreind. Hún snýst um að tölvur eru látnar hanna ”hugsun“ eða öllu heldur vinna sjálfstætt og læra af mistökum.
Enn eitt skref mannsins inn í undarlegan gerviheim tölvunnar.
Þetta er sennilega gott og blessað og getur væntanlega nýst vel við allskonar úrlausnir í framtíðinni.
Svona greindartölva var látin hafa verkefni um daginn. Hún átti að búa til hlut sem gæti fært sig frá A til B sjálfstætt. Engar forritaðar upplýsingar voru gefnar heldur átti tölvan með hugsun sinni að hanna hlut sem hefði eiginleikann að geta hreyft sig og ferðast um. Útkoman var undarlegt tæki sem líktist helst einhverskonar ormi með mörgum liðum á.... og það hafði eiginleika til að komast úr stað.

Fyrir svo aðeins færri árum las ég aðra vísindagrein eftir einhvern annan tölvugúrú. (fínar heimildir er það ekki)
Sá lýsti áhyggjum af þessari tækni þar sem ekki væri í raun hægt að vita með fullkominni vissu hvað gerðist þegar þessi tækni yrði það fullkomin að hún færi fram úr mannsheilanum.

Í fyrra var svo enn ein greinin um þessa tækni. Sú var í mogganum þar sem fullyrt var að innan tuttugu ára yrði tölvugreind komin fram úr mannsheilanum.....!
Og hvað með það?

Það þarf ekki svo mikið hugarflug til að teikna sér mynd af því sem hugsanlega gæti gerst. Internetið innifelur nú þegar nánast allt vit mannkynsins. Internetið er eins og risastór heili sem umlykur jörðina.
Sú hugsun hefur æ oftar læðst að mér hvað muni gerast þegar svona greind er orðin til, tengd internetinu sem teygir sig inná hvert heimili, fyrirtæki og stofnanir, nánast hverju nafni sem nefnist, líkast tauganeti.
Verður þá orðinn til sjálfstæður ofurhugsandi heili sem enginn stýrir. Staðreyndin um sjálfforritunartæknina gefur þessari hugsun byr undir báða vængi og enginn vandi að hugsa sér að “heilinn” muni nota sér það..... og forriti það sem honum sýnist...til þess sem honum sýnist...og þá framar getu mannsheilans.
Þetta er svolítið hrollvekjukennt en hvaða punktur er óraunverulegur í þessu?
Lögmálið “sá sterkasti ræður” hefur gert manninn að konungi jarðarinnar. Hvað ef hann er allt í einu ekki “sá sterkasti” heldur “heilinn”?

Ekki er laust við að mér komi í hug “dýrið” úr opinberunarbókinni og talan 666 sem svo merkilega er á einhvern hátt, sem ég reyndar skil ekki, tengd sem einhver grunntala í tölvutækninni, strikamerkingum og einhverju tölvumáli sem er búið til úr einundartölum (hugtak sem ég hef heyrt en þekki ekki) en það eru bara tölurnar núll og einn.
Því sem næst öllu er stjórnað með tölvutækninni í dag. Hagkerfum þjóða, verslun, hernaði, vörnum landa, orkuverum, umferð og hverju sem er, allt tengt netinu órjúfanlegum böndum.

Getur hugsast að “dýrið” sé kannski fætt og dafni nú og stækki hratt og vel. Er "heilinn" að verða tilbúinn sem getur stýrt öllu mannkyninu og heiminum? Internetið sem nú þegar hefur gert ótrúlegan fjölda fólks háð sér sem netfíklar. Internetið sem smátt og smátt verður hæft til að forrita sig sjálft og þar með hugsa sjálfstætt. Hvað getur þá komið í veg fyrir að einn daginn starfi það líka sjálfstætt. M.ö.o höfðingi heimsins, loksins kominn með stýrið (dýrið) að heiminum sem allir verða að lúta..... nema?

Allavega má fullyrða að aldrei fyrr hefur verið til tæki í heiminum sem mögulega gæti stýrt vegferð mannsins og t.d. komið í veg fyrir alla verslun þína nema þú hafir merki sem auðkennir þig. Og ekki laust við að þannig sé þetta nú þegar.
Svo er spurningin: Er þessi þanki "hin hljóðláta rödd skynseminnar" eða hugmyndaauðgi sem nota ætti til að skrifa virkilega góðan hrollvekjureyfara.

Eigið góðar stundir.


sunnudagur, nóvember 21, 2004

Gátan stóra....

Við Erla vorum að keyra gegnum Kópavoginn. Vorum að koma úr Smáralindinni. Það þurfa víst allir að kaupa á sig föt og aðrar nauðsynjar. Kópavogurinn hefur breytt úr sér maður. Ótrúleg þensla. Ég man svo langt þegar göturnar í Kópavoginum voru malarvegir og það voru hænsnakofar í görðunum. Þeir eru horfnir.
Gömlu göturnar líka.
Við vorum að velta þessu aðeins fyrir okkur á leiðinni heim. Það er svo örstutt síðan þetta var nútíminn. Kannski 35 ár. Ef maður hugsar enn lengra þá eru torfbæirnir sem norpuðu einmanalegir í holtunum og melunum í norðangarranum hér á höfuðborgarsvæðinu allir horfnir líka, orðnir að jörð.
Þessum þönkum skaut niður þegar við vorum að labba okkur út úr Smáralindinni.
Gríðarlegt mannvirki........en fallvalt eins og gömlu húsin. Eitthvað mun hún standa lengur en gömlu kofarnir vegna betri byggingarefna. En samt mun hún verða að engu einhvern daginn, að jarðvegi aftur.
Og öll nýju húsin sem við sáum, sem teygja sig út um melana og upp um holtin. Allt verður að engu. Mun hverfa. "Mér finnst þetta svolítið óhugnanlegt" sagði Erla, greinilega ekki laus við smá hroll. En svona er þetta nú, tölvan mín fína sem hjálpar mér að skrifa þessar línur mun fljótlega grotna niður í frumeindir sínar á leið sinni til moldar aftur.

Ef við gætum kíkt milljón ár fram í tímann, kannski bara nokkur þúsund ár, verður ekkert af núinu okkar uppistandandi. Ein eða fleiri ísaldir verða komnar og farnar. Höfuðborgarsvæðið allt verður búið að fara undir skriðjökla einu sinni eða oftar. Sagan mun endurtaka sig. Það þarf ekki að fara lengra en upp að Lögbergi til að sjá greinileg ummerki eftir jökulinn sem síðast skreið hér yfir allt og langt út á Faxaflóa, fyrir ekki svo ýkja löngu síðan. Ekkert verður eins eftir það.
Þetta er skrítin staðreynd en jafn klár og ég sit hér við skrifborðið mitt. Efnið er einfaldlega tímanlegt og gengur úr sér.

Hvað erum við þá að gera hérna, gestir í stuttan tíma? Strá sem visna og hverfa. Hvers virði eru þá þessir flottu “hlutir” sem eru svona fallvaltir? Til hvers að eyða heilli ævi í að eignast meira og meira og ganga svo til fundar við jarðefnin, nakinn. "Allt er aumasti hégómi og eftirsókn eftir vindi" segir Prédikarinn án þess þó að svara gátunni sem svo margir spyrja sig að. Sumir telja sig hafa alla speki og vita svarið. Því fleiri skýringar sem maður heyrir því feitara verður spurningamerkið.
Guð brosir sennilega út í annað yfir skilningsleysi okkar mauranna hér niðri. Kannski fáum við að vita þetta allt saman einn daginn.

Njótið daganna þangað til.


fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Lestarstjórarnir kennararnir.....!

Allar líkur eru á að kennurum hlotnist sá vafasami heiður að verða dráttarvagninn sem dregur verðbóguskrímslið af stað. Allir eldri en tvævetur þekkja afleiðingar þess.
Það liggur í hlutarins eðli að aðrar stéttir með lausa samninga líta beint til fordæmisins sem kennarar hafa nú sett. Ekki svo að kennarar eigi ekki skilið þessi laun heldur hitt að það eru svo margar aðrar stéttir sem fella má undir sömu röksemdafærslu hvað það varðar.
Allar þessar stéttir sem berjast fyrir auknum kaupmætti eru nauðsynlegar þjóðfélaginu annars væru þær einfaldlega ekki til, hagfræðin stýrir því.
En það er búið að gefa og spilin eru á hendi. Enginn mun sætta sig við minna en kennarar hafa fengið nú. Hvernig tekst að spila úr stokknum er ekki gott að segja. Vonandi tekst að afstýra stórslysi þegar skriðan kemur með öllum sínum þunga.
Það mun reyna á þanþol hagkerfisins næstu misserin.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Erla hitti hjón af Skaganum í dag.

Soffíu dóttir Þórðar á Stillholtinu þar sem við bjuggum í kjallaranum fyrstu árin okkar, og Böðvar mann hennar. Þau hjónin voru hress og voru í spjallstuði. Þau eru mörg árin liðin frá því við þekktum þau betur en í dag. Þau ferðast mikið, ný komin frá Benidorm og Danmörku. Erla var hrifin. Það er ekki á hverjum degi sem mín kona hittir jafn einarða samherja í ferðabakteríufélaginu. Soffíu varð að orði: “Við getum víst ekki bætt árum við lífið okkar en við getum bætt lífi við árin”.....!

Það eru svona setningar sem fá mann til að sperra eyrun. Athyglisverður gullmoli.. Góð sýn á lífið.
Hvað gerir fólk betra við tímann en að skoða veröldina þegar foreldra(uppeldis)hlutverkinu er lokið? Margir gera helst ekkert nema glápa á sjónvarp og hanga heima.
Þetta er vafalítið hluti genanna sem Soffíu gista. Þórður heitinn, pabbi hennar, var einhver glaðlyndasti kall sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Einstaklega réttsýnn og hláturmildur. Það var gaman að umgangast hann.
Þau Þórður og Skarpheiður voru vinafólk foreldra minna til margra ára. Traust fólk, falslaust og gegnheilt.
Skaga árin voru góð.
............Búinn að hugsa heilan hring meðan ég skrifaði þessar línur. Datt alveg óvart ofaní minningapottinn.
Það voru samt orðin hennar Soffíu sem voru hvatinn að þessum pælingum.

Njótið lífsins.
Það er nefnilega í rauninni bara... smáspotti.

mánudagur, nóvember 15, 2004

Þær ljóshærðu.....

Heyrt á tal tveggja ljóska:
Heyrðu hvort er lengra til London eða tunglsins?
.......Haalllóóó! Sérðu London héðan.......!

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Góðan daginn gott fólk!

Eftir mjög annasama viku var gott að eiga rólega helgi heima í hreiðrinu. Það má segja að bæði gærkvöldið og dagurinn í dag hafi verið sérlega notalegir. Við vorum tvö heima í gærkvöldi þar sem yngsta dúllan okkar var ekki heima. Ég útbjó fyrir okkur máltíð úr úrvals nauta prime ribs með öllu tilheyrandi. Spjölluðum um heima og geima yfir matnum undir góðri dinnertónlist. Töluðum einna mest um hvað lífið hefur í raun leikið við okkur þó auðvitað hafi skipst á skin og skúrir. Veltum framtíðinni fyrir okkur og skoðuðum núið, hvað við erum að gera þessi misserin. Það er gaman að velta upp svona hlutum, kryfja svolítið sjálfan sig og skoða farinn veg. Hvað höfum við lært og hverju er best að kasta og gleyma. Notalegt með élið berjandi á glugganum. Sérdeilis frábær kvöldstund.

Ég fór að venju fyrr á fætur en frúin í morgun. Það var enn éljagangur. Ég skrúfaði upp ofninn svo það yrði notalegra þegar hún kæmi fram. Hún sefur gjarnan fram undir hádegi á sunnudögum ef ekkert er sem rekur hana á fætur. Svo hellti ég upp á kaffi og kíkti í blöðin. Fór yfir það sem mér þótti fréttnæmt

Ég stoppaði við viðtal við Ellen Kristjánsdóttir söngkonu í tímariti moggans. Skemmtilegt viðtal við konu sem hefur reynt ýmislegt. Hún fór vítt og breitt í viðtalinu m.a. kom í ljós að hún á sterka trú. Ég fann svolítinn samhljóm í þessu viðtali við okkur hjónin þótt aðstæður séu ólíkar um margt. Ein setning sem hún viðhafði höfðaði mjög til mín og einnig Erlu þegar hún las greinina. “Hamingjan er heima” sagði hún. Það er miður að vita til þess að það geta ekki allir tekið undir þessi orð. Það eru nefnilega svo margir sem leita hennar handan hornsins....og finna hana ekki.
Þetta er “stór” lítil setning. Þeir sem geta skrifað nafnið sitt undir hana eru lukkunnar pamfílar. Ég er svoddan lukkubolti að ég get skrifað nafnið mitt feitletrað undir.

Sagt og skrifað..... Hamingjan er heima.

Erling Magnússon

mánudagur, nóvember 08, 2004

Rakst á þetta á prenti.....

„Á hverjum degi yfirgefur fólk kirkjuna og snýr sér aftur til Guðs.“
— Really Lenny Bruce

Brá svolítið en varð mér umhugsunarefni. Kannski er hér fundinn lykillinn. “Kirkjutrú” Það er kannski ástæðan fyrir því að hlutirnir eru ekki að gerast eins og fyrirheitin segja til um. “Þér munuð gera sömu verk og meiri...” Ég hef alltaf saknað þess og ekki skilið hversvegna. Það furðar mig. Enn meiri furða er að svo margir skuli neita að horfast í augu við það. Er vantrú að setja slíkt fram? Nei þetta er krafa um naflaskoðun. Guð er á réttum stað - en við.
Ég er hræddur um ekki. Ég er hræddur um að stefna kirkjunnar sé kirkjutrú án þess að menn ætli það endilega. Ég held að kirkjan sé fyrst og fremst í vinsældakapphlaupi sem Predikarinn myndi kalla “eftirsókn eftir vindi”.
Kirkjupólitík er staðreynd þó margir vilji ekki viðurkenna það.
Kirkjan þarf að stoppa við og skoða sinn gang. Snúa sér að kjarnanum. Hún þarf móðurmjólkina aftur. Trúin er ekki sirkus. Hún er ekki söluvara. Það var aldrei settur verðmiði á hana. Kirkjan getur ekki selt blessun í hlutfalli við greiðslur. Trú er ekki piss utan í stjórnmálamenn og höfðingja. Hún snýst ekki um græjur og flottheit.
Hún snýst um eitthvað miklu meira. Kirkjum fækkar og kristnum virðist fækka. Það er veruleikinn sem við búum við. Horfumst í augu við það. Eitthvað er ekki eins og það á að vera. Einhverju er verið að sá sem gefur ekki uppskeru.
Trúin er kjarninn í ávextinum. Kjarninn getur af sér líf.
Og lögmál lífsins er - það vex.



fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Margt er mannanna bölið...!

Víti er alltaf heitt... þótt það sé sjálfskaparvíti!!!!
Námsefni framtíðar í samkeppnisrétti í beinni í dag. Margt er enn eftir að koma í ljós í samráði olíufélaganna fyrir Hæstarétti. Klárt samt að menn brutu lög og siðferði. Topparnir bera ábyrgðina og ættu að segja af sér. Eftir höfðinu dansa limirnir, toppstykkin stýra mannganginum.
Lögfræðingar ættu að safna fólki í púkk til að sækja skaðabætur til olíufélaganna. Ljóst að farið væri af stað kapphlaup í Ameríkunni milli lögfræðinga, enda allt hægt þar.
Borgarstjóri sem var eitt peðanna á þessu taflborði ber sína ábyrgð og ekki gott að segja hvort honum sé sætt í sætinu sínu. Verð samt að segja að hann á vissa samúð mína af einni ástæðu. Þeirri að hann er því marki brenndur eins og við öll hin hér á jörð, að eiga sameiginlega þátttöku í mistakapottinum sem kraumar undir okkur öllum. Þessum sem Kristur benti grjótkösturunum á þegar hann skrifaði eitthvað í sandinn forðum. Hvað stóð í sandinum aftur á móti er enn ekki vitað.
Kannski búum við ef vel er að gáð, öll í glerhúsum
- hver veit.

mánudagur, nóvember 01, 2004

Takk fyrir mig...

Vil nota tækifærið og þakka öllum sem komu í afmælið okkar Erlu á laugardaginn og eftirafmælið á sunnudaginn. Það var gaman að fá svona marga gesti í tilefni dagsins.
Okkur hjónunum þótti afar vænt um það. Það skal nú viðurkennast hér að það er svolítið skrítið að standa á þessum aldri, horfa á stækkandi ætt og barnabörnin kyrja vísur um "afa og ömmu í Vesturbergi búa" en um leið gera sér grein fyrir verðmætunum sem í þessu felast.
Mér hefur sjaldan fundist við ríkari. Við munum víst ekki skilja aðra hluti verðmætari eftir hér á jörð þegar við förum. Það er þakklátur maður sem skrifar þessi orð í auðmýkt frammi fyrir skapara sínum sem allt vald hefur á himni og jörð. Hann hefur leyft okkur að sjá þessa hluti gerast.
Tek ekkert endilega ofan fyrir svo mörgum en beygi mig í duftið fyrir Honum.

Njótið lífsins...