þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Aðvörun.....! löng grein.

en gæti verið umhugsunarefni.
Ég man ekki hvað það er langt síðan ég las einhverja vísindagrein í blaði um sjálfforritanlegar tölvur, nokkur ár. Tækninni fleygir fram hraðar en augað festir.
Greinin fjallaði um að þá voru komnar fram á sjónarsviðið tölvur sem höfðu þá eiginleika að geta forritað sig sjálfar. Nú verð ég að viðurkenna fáfræði mína og játa að ég kann ekki góða útlistun á þessu fyrirbæri. Veit samt að þetta er kallað gervigreind. Hún snýst um að tölvur eru látnar hanna ”hugsun“ eða öllu heldur vinna sjálfstætt og læra af mistökum.
Enn eitt skref mannsins inn í undarlegan gerviheim tölvunnar.
Þetta er sennilega gott og blessað og getur væntanlega nýst vel við allskonar úrlausnir í framtíðinni.
Svona greindartölva var látin hafa verkefni um daginn. Hún átti að búa til hlut sem gæti fært sig frá A til B sjálfstætt. Engar forritaðar upplýsingar voru gefnar heldur átti tölvan með hugsun sinni að hanna hlut sem hefði eiginleikann að geta hreyft sig og ferðast um. Útkoman var undarlegt tæki sem líktist helst einhverskonar ormi með mörgum liðum á.... og það hafði eiginleika til að komast úr stað.

Fyrir svo aðeins færri árum las ég aðra vísindagrein eftir einhvern annan tölvugúrú. (fínar heimildir er það ekki)
Sá lýsti áhyggjum af þessari tækni þar sem ekki væri í raun hægt að vita með fullkominni vissu hvað gerðist þegar þessi tækni yrði það fullkomin að hún færi fram úr mannsheilanum.

Í fyrra var svo enn ein greinin um þessa tækni. Sú var í mogganum þar sem fullyrt var að innan tuttugu ára yrði tölvugreind komin fram úr mannsheilanum.....!
Og hvað með það?

Það þarf ekki svo mikið hugarflug til að teikna sér mynd af því sem hugsanlega gæti gerst. Internetið innifelur nú þegar nánast allt vit mannkynsins. Internetið er eins og risastór heili sem umlykur jörðina.
Sú hugsun hefur æ oftar læðst að mér hvað muni gerast þegar svona greind er orðin til, tengd internetinu sem teygir sig inná hvert heimili, fyrirtæki og stofnanir, nánast hverju nafni sem nefnist, líkast tauganeti.
Verður þá orðinn til sjálfstæður ofurhugsandi heili sem enginn stýrir. Staðreyndin um sjálfforritunartæknina gefur þessari hugsun byr undir báða vængi og enginn vandi að hugsa sér að “heilinn” muni nota sér það..... og forriti það sem honum sýnist...til þess sem honum sýnist...og þá framar getu mannsheilans.
Þetta er svolítið hrollvekjukennt en hvaða punktur er óraunverulegur í þessu?
Lögmálið “sá sterkasti ræður” hefur gert manninn að konungi jarðarinnar. Hvað ef hann er allt í einu ekki “sá sterkasti” heldur “heilinn”?

Ekki er laust við að mér komi í hug “dýrið” úr opinberunarbókinni og talan 666 sem svo merkilega er á einhvern hátt, sem ég reyndar skil ekki, tengd sem einhver grunntala í tölvutækninni, strikamerkingum og einhverju tölvumáli sem er búið til úr einundartölum (hugtak sem ég hef heyrt en þekki ekki) en það eru bara tölurnar núll og einn.
Því sem næst öllu er stjórnað með tölvutækninni í dag. Hagkerfum þjóða, verslun, hernaði, vörnum landa, orkuverum, umferð og hverju sem er, allt tengt netinu órjúfanlegum böndum.

Getur hugsast að “dýrið” sé kannski fætt og dafni nú og stækki hratt og vel. Er "heilinn" að verða tilbúinn sem getur stýrt öllu mannkyninu og heiminum? Internetið sem nú þegar hefur gert ótrúlegan fjölda fólks háð sér sem netfíklar. Internetið sem smátt og smátt verður hæft til að forrita sig sjálft og þar með hugsa sjálfstætt. Hvað getur þá komið í veg fyrir að einn daginn starfi það líka sjálfstætt. M.ö.o höfðingi heimsins, loksins kominn með stýrið (dýrið) að heiminum sem allir verða að lúta..... nema?

Allavega má fullyrða að aldrei fyrr hefur verið til tæki í heiminum sem mögulega gæti stýrt vegferð mannsins og t.d. komið í veg fyrir alla verslun þína nema þú hafir merki sem auðkennir þig. Og ekki laust við að þannig sé þetta nú þegar.
Svo er spurningin: Er þessi þanki "hin hljóðláta rödd skynseminnar" eða hugmyndaauðgi sem nota ætti til að skrifa virkilega góðan hrollvekjureyfara.

Eigið góðar stundir.


Engin ummæli: